Monthly Archives: October 2003

Uncategorized

Afmælishald

Fórum í kvöld í afmælisfagnað Óskars sem varð þrítugur í vikunni. Gaman að hitta marga fyrrum vinnufélaga þar aftur.

Búinn að vera drulluslappur í allan dag og missti röddina loks alveg í fagnaðinum. Vona að þetta rjátli af mér á morgun.

Uncategorized

Rauðhöttur

Jæja, náði mér í Rauðhött 9 stýrikerfið og brenndi sjálfur eftir að diskarnir sem Hrafnkell brenndi og athugaði sérstaklega að væru í lagi stóðust ekki prófanir sem uppsetningarforritið gerði.

Reyndar endaði þetta á því að ég þurfti að taka músina úr sambandi á meðan að uppsetning fór fram því að einhver Python skrá krassaði uppsetningunni við að reyna að stilla músina (ósköp venjuleg 3ja takka Logitech).

Eftir 40 mínútna uppsetningaferil var allt komið nema músin sem ég þurfti að fikta aðeins til að koma inn.

Er núna að skrifa þessa færslu í Mozilla í Red Hat Linux stýrikerfinu, nota Mozilla reyndar í Windows líka þannig að þetta er lítil breyting… nema hvað letur varðar! Leturstærðirnar hjá Movable Type notendum eru fullstórar að mínu mati í Windows en í Linux er þetta fín stærð. Maður þarf að fara að skoða að gera “platform dependent” stílskrár vegna svona lagaðs, letrið á minni síðu er nefnilega í minni kantinum hérna í Rauðhöttnum! Þetta fer reyndar mikið til eftir hvaða letur er notað, ekki til sama letur á Windows og Linux iðullega.

Annars styður dálkahöfundurinn Nick Webster Ísland í leiknum á morgun, sem og Norðmenn, Dani og Svía. Hann vill nefnilega sjá allt ljóshærða léttklædda kvenfólkið í Portúgal 2004.

Uncategorized

Sjö litlir kassar

Þessa stundina mala 3 tölvukassar, 3 liggja sundurtættir og einn situr milli vonar og ótta um sín örlög.

Það er alltaf fjör í kringum mig, sjö tölvukassar í meters radíus frá mér. Meirihlutinn reyndar nokkuð forn en úr þessu má kannski búa til örlítið færri brúklega kassa.

Það eru ekki allir sem hafa samþykki annara heimilismeðlima til að stunda svona undarlegheit með kassa, ætli maður sé ekki bara heppinn.

Uncategorized

Töfrar og bananar

Jæja sum mál leystust betur í dag en leit út fyrir í gær.

Kom við í kvöld hjá Hrafnkeli sem gaf mér Red Hat 9 diska, sá við það tækifæri veikan gullfisk hjá þeim sem var í lyfjameðferð, greyið gat ekki haldið sér á réttum kili og var ýmist á hlið eða hvolfi.

Þá tók við grillveisla hjá Erni og Regínu. Grillið þeirra varð sem betur fer ekki fyrir sama tjóni og okkar og að auki í skjóli fyrir veðrinu þannig að rigning og önnur ofankoma öngruðu okkur ekkert. Svínakjötið með BBQ-sósunni var afbragð sem og bökuðu kartöflurnar. Eftirréttur voru svo grillaðir bananar með mars-súkkulaði.

Horfðum á David Blaine fremja mögnuð töfrabrögð, ekkert vitað um hann hingað til nema að hann hefur látið grafa sig lifandi, verið innilokaður í ís, húkt á staur og nú síðast hangið í kassa án matar.

Uncategorized

Vont, verra, ís

Alveg þoli ég ekki svona daga. Gasgrillið og svalahurðin tjónuðust og á öðrum vettvangi var vondur dagur í dag og varla betri á morgun.

Það má þó aðeins láta sjatna í sér með því að lesa til um að Kýpur hafi verið Atlantis sem og kynna sér enn einn idjótaháttinn frá Ameríku, “Stjörnum prýddi ísinn” er með rjómaís eins og Gun Nut, I Hate the French Vanilla, Nutty Environmentalist, Iraqi Road og Smaller Govern-mint.

Uncategorized

Haglél og Xupiter

Vöknuðum klukkan 4 í nótt við mikil læti, þar reyndist vera haglél á ferð ásamt hressilegum blæstri. Ég stökk á fætur og lokaði öllum gluggum heimilisins og skreið svo upp í rúm.

Þeim sem hafa lent í klóm Xupiter (forrit sem treður sér inn á tölvuna þína og breytir alls konar hlutum að þér forspurðum) geta glaðst yfir guttum eins og Jay Cross Jr. og Christopher Carlino sem berjast af krafti á móti því og eru meðal stefnenda í dómsmáli sem fer brátt í gang.

Uncategorized

Vöfflur

Skruppum í dag í vöfflur og kökur til pabba í tilefni afmælis Daða. Fínt að sleppa út úr húsi af og til.

Uncategorized

Boltadagur

Horfði á leik Liverpool og Arsenal ruglaðan á Stöð 2 í dag, var að dútla eitthvað og datt inn í að fylgjast með. Ekki verða Liverpool meistarar með þessu liði, það er nokkuð öruggt. Hræðileg hælspyrna Gerrards (held ég) fyrir framan vítateig Liverpool gaf Arsenal sigurmarkið.

Á meðan að Liverpool reynir að nota hælspyrnur og einnar snertingar bolta á eigin vallarhelmingi munu þeir ekki vinna deildina. Svona “fancy dan” stælar skila akkúrat engu nema mistökum, þegar ég hef séð menn með svona kæruleysisdæmi í þeim leikjum sem ég hef spilað hef ég látið þá heyra það. Svona athæfi er bara hreinræktaður idjótaskapur og því miður fyrir Liverpool þá virðast menn hrifnir af þessu þar á bæ.

Bayern München leikur dagsins var því næst, ætli þeir muni einhver tímann sýna leik sem er EKKI með Bayern? Grey Herthu Berlínarmenn í vondum málum.

Fjör að vera í bandaríska hernum, þér er ekki frjálst að giftast hverjum sem er.

Skólabækurnar kalla.

Uncategorized

Óvenju persónulegt

Já, öruggt merki þess hvað maður eldist hratt er að litlir bræður eru orðnir tvítugir og eldri. Næsta stórafmæli okkar bræðra er mitt! Það endar á núlli meira að segja! Jæja takmarkið er að vera með eins og eina háskólagráðu þá, virðist standast áætlun og vel það.

Brá mér í kerfisstjórastellingar í dag og var að til miðnættis. Skaust þá í stutta heimsókn til Arnar og Regínu, Sigurrós kemur svo með næst en hún er að heimsækja mömmu sína sem hefur saknað hennar.

Við ætluðum að vera dugleg að rækta vinasamböndin við alla vini okkar en höfum bæði verið að drukkna í vinnu. Maður verður samt að gefa sér tíma í þetta, förum eftir prófið á þriðjudag!

Annars notaði ég tímann á meðan að uppfærslur mölluðu í tölvunum til þess að líta nánar í kringum mig og þræða ranghala vöruhússins. Þegar ég var hjá Hugviti fannst mér einmitt verulega gaman að fara í fyrirtæki og stofnanir og sinna mínu starfi í nýju umhverfi þar sem maður komst að því hvað var gert á viðkomandi stöðum. Tók oft smá skoðunarferðir og hafði mjög gaman af. Væri til í að fara vikulega í svona starfskynningar hér og þar um bæinn, bara til að sjá og skilja hvað er að gerast.

Ig Nóbelsverðlaunin hafa verið afhent, þau virðast mun skemmtilegri en sjálf Nóbelsverðlaunin. Vísindalegar rannsóknir á kindaskriði á mismunandi yfirborði er auðvitað lykilatriði í ergónómíu (var búið að íslenska þetta?). Mér finnst ergónómía vera ein mikilvægasta grein 21. aldarinnar, svona áður en við verðum öll bakveik fyrir þrítugt og með sinaskeiða- og beinhimnubólgur (seint í rassinn gripið hjá mér reyndar).

Verð svo að ljúka færslu dagsins á því að minnast á hversu góðar móttökur Sigurrós fékk þegar hún flutti erindi í dag á námskeiði í Kennó. Er að sjálfsögðu afar stoltur af henni 🙂

Uncategorized

Komment dagsins

Rush Limbaugh er öfgafullur hægrimaður sem var að hætta sem einn umsjónarmanna íþróttaþáttar vegna niðrandi kynþáttaummæla. Hann er stærsta stjarna útvarpskjaftaska í Ameríku og slær BM Vallá við í árlegri steypuframleiðslu.

Bush er auðvitað mikill aðdáandi og þessi ummæli eru höfð eftir honum:

“The president noted Rush Limbaugh is a national treasure,” said one senior White House staffer. (src)

Jamm… svona svipað og Hannes Hólmsteinn er þjóðardýrgripur! Hahahahaha