Óvenju persónulegt

Já, öruggt merki þess hvað maður eldist hratt er að litlir bræður eru orðnir tvítugir og eldri. Næsta stórafmæli okkar bræðra er mitt! Það endar á núlli meira að segja! Jæja takmarkið er að vera með eins og eina háskólagráðu þá, virðist standast áætlun og vel það.

Brá mér í kerfisstjórastellingar í dag og var að til miðnættis. Skaust þá í stutta heimsókn til Arnar og Regínu, Sigurrós kemur svo með næst en hún er að heimsækja mömmu sína sem hefur saknað hennar.

Við ætluðum að vera dugleg að rækta vinasamböndin við alla vini okkar en höfum bæði verið að drukkna í vinnu. Maður verður samt að gefa sér tíma í þetta, förum eftir prófið á þriðjudag!

Annars notaði ég tímann á meðan að uppfærslur mölluðu í tölvunum til þess að líta nánar í kringum mig og þræða ranghala vöruhússins. Þegar ég var hjá Hugviti fannst mér einmitt verulega gaman að fara í fyrirtæki og stofnanir og sinna mínu starfi í nýju umhverfi þar sem maður komst að því hvað var gert á viðkomandi stöðum. Tók oft smá skoðunarferðir og hafði mjög gaman af. Væri til í að fara vikulega í svona starfskynningar hér og þar um bæinn, bara til að sjá og skilja hvað er að gerast.

Ig Nóbelsverðlaunin hafa verið afhent, þau virðast mun skemmtilegri en sjálf Nóbelsverðlaunin. Vísindalegar rannsóknir á kindaskriði á mismunandi yfirborði er auðvitað lykilatriði í ergónómíu (var búið að íslenska þetta?). Mér finnst ergónómía vera ein mikilvægasta grein 21. aldarinnar, svona áður en við verðum öll bakveik fyrir þrítugt og með sinaskeiða- og beinhimnubólgur (seint í rassinn gripið hjá mér reyndar).

Verð svo að ljúka færslu dagsins á því að minnast á hversu góðar móttökur Sigurrós fékk þegar hún flutti erindi í dag á námskeiði í Kennó. Er að sjálfsögðu afar stoltur af henni 🙂

Comments are closed.