Monthly Archives: February 2003

Uncategorized

Myndasögur og lygar

Frétt dagsins er auðvitað sú að “skýrslan” sem að breska ríkisstjórnin lagði fram og átti að sanna vopnaeign Saddam Hussein reyndist vera að stærstum hluta copy/paste úr ritgerð sem var gerð 1991 við háskóla í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hældu einmitt þessari “skýrslu” fyrir að vera vel unnin. Það er öllum bolabrögðum beitt, efast einhver um að þetta sé meira og minna falsað sem þessir kumpánar leggja fram þessa dagana? 12 ára gömul skýrsla er auðvitað up-to-date er það ekki? Ha? Gögnin í henni hljóta að réttlæta fjöldamorðin í Írak sem að Bandaríkjamönnum klæjar í puttana að fremja.

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna er staðfastur maður, þessa dagana segir hann saksóknurum að krefjast dauðarefsinga oftar, honum finnst þau ríki sem leyfa dauðarefsingar ekki nógu dugleg að framkvæma þær. Texas er auðvitað undanskilið, sjö aftökur á fyrstu 5 vikum þess árs.

Pravda er með áhugaverða kenningu í dag, þeir eru alveg á því að tækni sem leyfir mönnum að anda neðansjávar sé til staðar, herir Bandaríkjanna og Rússlands eigi svoleiðis á lager.

Stór hluti dagsins farið í að stilla dailystrips en það er forrit sem gerir mér kleift að safna saman á eina síðu öllum myndasögunum sem ég les reglulega á netinu. Þetta gæti sparað mér verulegan tíma í framtíðinni.

Af því tilefni ætla ég að smella inn tenglum á nokkrar valdar myndasögur, þessi hérna með Móses vakti mikla kátínu hjá mér, viðbrögðin óborganleg.

Það er langt í frá að allir Bandaríkjamenn séu að gútera embættisverk Bush yngri eða hann sjálfan, maðurinn fékk nú einu sinni ekki nema atkvæði frá rétt um 24% allra kosningabærra manna í kosningunum og hefur síðan þá fátt gert af viti.

Oft eru það Sigmund-ar heimsins sem hitta á veiku punktana, gjörið svo vel:

Uncategorized

Klipping, Mikjáll og naktar konur

Minnið er hriplekt hjá mér, gleymdi að minnast á það að ég fór í klippingu á miðvikudaginn, í fyrsta sinn í 2 ár held ég sem að ég fer á hárgreiðslustofu, hingað til hefur Sigurrós beitt vél á hausinn á mér. Nú erum við bæði að safna hári, hjá mér þýðir það raunar að ég sé að safna að ég er með meira en broddaklippingu.

Heimildamyndin um Michael Jackson var mjög áhugaverð. Ég hef skotið nokkrum skotum á hann í gegnum tíðina, var aldrei meðal aðdáenda hans en hann hefur átt nokkur sæmileg lög á löngum ferlinum. Það sem manni sýndist var að þetta er afskaplega ljúfur lítill strákur. Vond meðferð í æsku læsti hann greinilega inni sem 10 ára eða svo, þegar hann býður börnum í heimsókn er það til að vera stóri bróðir sem gefur öllum mjólk og smákökur og les fyrir þau. Ég stórefast um að hann sé barnaníðingur, öll börnin virtust mjög hænd að honum og hann var greinilega einn besti vinur þeirra. Hans eigin börn virðast dugleg og vel upp alin, Jackson á væntanlega sinn hluta í því uppeldi þó að fóstrurnar beri þungan af uppeldinu.

Michael Jackson hækkaði því í áliti, virðist voða ljúfur drengur sem er ekki alveg í sama hugarheimi og við hin og er því brennimerktur af þeim sem að velta sér upp úr sora alla daga. Ef ég væri svona moldríkur myndi ég kannski bara sjálfur byggja mitt draumaland þar sem allt væri eins og ég vildi og geðveikin í heiminum kæmist ekki inn! Er hann barnaperri? Það er vel mögulegt en virðist ólíklegra en maður taldi áður.

Las um þetta fyrir nokkrum árum þegar að Japanir áttu meiri pening en þeir gátu eytt, þá var mjög vinsælt að fara á svona veitingastaði þar sem naktar konur eru matarborð viðskiptavina. Spurning hvort þetta virki í London til langframa, einkum þegar að færri synda í peningum en áður.

Kyrrseta er stórhættuleg eins og allir vita, það fjölgar sífellt tilfellum þar sem menn fá blóðtappa sökum langrar setu fyrir framan tölvu. Þetta er banvænt, það er ekkert grín að maður ætti að standa upp af og til og hreyfa sig aðeins, það er brátt áfram lífsnauðsynlegt!

Í fréttum var greint frá því að atvinnuástandið væri ekki eins slæmt og menn segja, eða svo segir Vinnumiðlun. Í Bandaríkjunum er ástandið heldur verra, þeir sem auglýsa eftir starfsmönnum fá holskeflu umsókna til sín og komast hreinlega ekki yfir þær. Ástandið virðist frekar slæmt í Massachusetts fyrir starfsmenn úr tæknigeiranum og þrýst er á aðgerðir af hálfu ríkisins.

Uncategorized

Pólitískur dagur

Sigurrós fékk eintak af launatöflu kennara í dag, rannsóknir hennar leiddu í ljós að henni verður mismunað vegna aldurs og mun fá laun óháð getu. Svona fyrirkomulag er víst víða í opinbera geiranum, þar er það lífaldur en ekki starfsaldur eða geta sem skiptir mestu máli.

Pravda voru ekki hrifnir af tilraunum Colin Powell til að sýna fram á að Írakar væru stórhættulegir og að það ætti að ráðast á þá hið snarasta. Ekki hrifnir er reyndar “understatement”, þeir tæta hann og félaga hans í sig.

Framtaksamir einstaklingar hafa svo smellt upp vef þar sem þeir mælast til þess að nefnd verði send til að skoða stöðu gjöreyðingarvopna í Bandaríkjunum. Tilvitnun í einn gestanna sem er Bandaríkjamaður:

“How can anyone accuse the U.S. of being a rogue nation? Just because we have illegally asssassinated (or attempted), jailed or deposed legimately elected heads of state in Haiti, Panama, Iran, the Dominican Republic, Viet Nam, and more? “

-Steve Garcia Cary IL

Meira af pólitíkinni, alveg fyrirtaks grein á Huga þar sem eðli einstaklingsfrelsis er borið saman við það sem Sjálfstæðismenn boða.

Uncategorized

Námur Skútuvogar

Lentum í áhugaverðri reynslu í kvöld, fórum með kertaljós niður hringstiga og gengum koldimman gang þar sem vatn lak úr sprungnu röri sem hafði slegið út rafmagnið. Kom ekki nálægt rafmagnstöflunni. Minnti að mörgu leyti á Námur Moríu.

Í fréttum í dag heyrðist þingmaðurinn, stærðfræðingurinn og verndari umkomulausra peninga sem gengur daglega undir nafninu Pétur H. Blöndal segja að þrír menn hefðu haft samband við hann og sagst lifa góðu lífi á launum sem væru 90.000 kr og minna. Það þurfti ekki meira til að stærðfræðingurinn drægi þá ályktun að allir geti því lifað af atvinnuleysisbótum (77.000 kr) eða verkamannalaunum. Held ég að hann fengi bágt fyrir ef hann hefði skilað þessum niðurstöðum inn sem námsmaður við háskóla. Eins óvísindaleg aðferð og hægt er til að draga ályktanir af. Maðurinn er sprenglærður í ýmsum greinum stærðfræðinnar sem gerir þetta ennþá vafasamara.

Í Singapore er klám, erótík og hvers kyns nekt stranglega bönnuð. Landið er nú samkvæmt könnunum það land í heiminum þar sem pör hafa sjaldnast samfarir og er með lægstu fæðingartíðni sem er til. Þetta helgast að stórum hluta til af því að allir eru að eltast við að græða meiri pening og ná sem lengst á framabrautinni. Stjórnvöld eru því farin að hafa áhyggjur af því þar sem það stefnir í talsverða fólksfækkun þar í landi. Framtakssamur læknir hefur því hrundið af stað ástarfleyi sem á að koma pörum til.

Ævintýrin halda áfram að gerast hjá Saparmurat Niyazov, forseta Túrkmenistan sem er ítrekað í fréttum fyrir undarlegheit sín og einræðistilburði. Það nýjasta nýtt er að allir topparnir fá núna nýjan bíl og eiga að gefa undirmönnum sínum bílinn sem þeir fengu í fyrra, það sama á víst að gerast aftur að ári. Niyazov er búinn að leggja tekjur Túrkmenistan inn á eigin bankareikninga undanfarin ár og er líklega eini maðurinn í landinu sem á bót fyrir rassinn á sér.

Í Gambíu er annar ráðamaður með ákveðnar skoðanir, nú eiga allir unglingar að gjöra svo vel og vinna á ökrunum þegar regntímabilið kemur. Þeir sem sjást leika sér í fótbolta skulu í steininn!

Uncategorized

Salon með púlsinn

Best að byrja á stuttsögu sem segir frá því hvernig allir fara á taugum þegar að uppsagnir eru yfirvofandi, það eru margir sem eru á nálum þessa dagana.

Dick Cheney, hinn hjartveiki varaforseti Bandaríkjanna og grunaður fjárglæframaður, var meðal ræðumanna á ráðstefnu sem að CPAC hélt, þessi frásögn er þaðan og sýnir hvers konar argandi afturhaldsseggir sitja við katlana í Washington. Hægt er að lesa greinina alla ef horft er á 15-sekúndna auglýsingu, sú auglýsing opnar læstan hluta Salon í einn sólarhring. Ekki slæm skipti.

Meira frá Salon, að þessu sinni heldur gleðilegra efni, tveir feðgar sem eru framarlega í tónlistarmálum í Bandaríkjunum skrifa hér afar vandaða grein um það hvernig Kaaza og skyld forrit geta bjargað tónlistariðnaðinum. Vönduð grein og góð lesning.

Endum þetta á aðeins spaugilegri nótum þó að meiðsli séu það sjaldnast. This is London tók saman nokkur ævintýraleg meiðsli sem atvinnumenn í knattspyrnu hafa lent í, þarna er til dæmis á listanum fjarstýring sem fór illa með einn og ruslafata sem tók annan úr umferð.

Uncategorized

Ævintýri

Til að kúpla mig aðeins út úr öllu þessu tölvuveseni ákvað ég að lesa bók í gær sem ég fékk í jólagjöf en hefur þurft að bíða vegna anna. Þetta var Power of Three, bók í unglingar/ævintýraheimur huldufólks og manna – geiranum. Ágætis lesning.

Las líka nokkrar strumpabækur sem við eigum. Þeir klikka aldrei.

Ef ég væri duglegri í eldhúsinu gæti ég kannski verið með svona neyðarlínu fyrir matargerð sem tekjulind.

Það er stutt síðan að Frakkar lögðu niður dauðarefsingar, 1981 voru þær afnumdar en síðasta aftakan fór fram 1977. Böðull sem svipti 395 manns lífi hélt nákvæmar dagbækur yfir öll embættisverk sín og eru þær nú á uppboði.

Uncategorized

Nýtt tímabil

Á fimmtudaginn átti ég 5 ára starfsafmæli hjá vinnuveitanda mínum. Við það tækifæri breytti ég yfir í tímavinnu og fer að hugsa mér til hreyfings. Það er verra að staðna.

Ég er að vinna í lokaverkefni fyrir skólann í samstarfi við áðurnefndan vinnuveitanda þannig að ég verð þarna inni á gafli til sumars.

Kostirnir eru þeir að ég hef nú meiri tíma til að sinna námi, líkamsrækt og áhugamálum.

Flestir spá því að vinnuumhverfi 21. aldarinnar muni einkennast af mun meira flæði fólks í atvinnulífinu. Fáir munu vinna hjá sama fyrirtæki í 20-50 ár heldur muni meðalstarfsaldur verða um 7 ár, þá langi fólk líklega til þess að spreyta sig á öðrum hlutum. Fyrirtæki munu líka verða duglegri við ráðningar og uppsagnir til að stækka og minnka hratt eftir þörfum.

Nú er bara málið að finna þokkalega sumarvinnu, kannski einhverja sem býður upp á 30% starf eða svo yfir næsta vetur þegar ég ætla mér að klára B.Sc.-gráðuna. Konan verður þá vonandi fyrirvinnan næsta vetur og heldur mér uppi. Sá reyndar stöðu í atvinnuauglýsingunum í dag sem að gæti smellpassað fyrir mig en þar sem ég gæti ekki verið þar í meira en hlutastarfi næstu mánuði er best að gleyma því í bili.

Næsta skref, búa til ferilskrá og spöglera í því hvort ég vilji spreyta mig á svipuðum hlutum og síðustu 5 ár eða hvort ég eigi að prófa nýja hluti. Það eru aldrei til vandamál, bara hlutir með mismunandi lausnir.

Lisa Simpson Did you know that the Chinese use the same word for crisis as they do for opportunity?
Homer Simpson Yes. Crisatunity!
fengið héðan í gegnum Egil

Uncategorized

Úr A í D

Flutti mig um set í dag, vinnutalva (talva), stóll og meðfylgjandi fóru nú yfir í D-bilið. Held að þar með sé ég endanlega búinn að slá metið í að flytja á milli þessara rýma (A, B, C og D). Þegar flutningum lauk var hafist handa í lokaverkefninu.

Rakst á mjög skemmtilega uppskrift að bók sem myndi bera heitið Dating for Geeks in a Nutshell ef að hún væri gefin út. Margir skemmtilegir punktar þarna, hvort sem lesendur eru að leita eður ei.

Nú er ár geitarinnar/kindarinnar að hefjast í Kína og eru lambakrullur hugsanlega að fara að slá í gegn. Kínverska notar eins og margir vita ekki bókstafi heldur tákn yfir hluti, einfölduð kínverska sem er mest notuð í dag hefur að geyma þúsundir tákna en hefðbundin kínverska er mun ítarlegri. Til að spara tákn hafa þeir því slegið saman sumum heitum, geit og kind eru skrifuð á sama hátt sem getur leitt til smá misskilnings.

Annars er elsta stjörnukort sem hefur fundist 32.500 ára gamalt, ekki kemur fram þar hvaða stjörnumerki voru við lýði þá.