Monthly Archives: July 2002

Uncategorized

Hættulegt snús – fótboltafréttir

Það að snúsa (ýta á snooze-takka vekjaraklukku trekk í trekk og vera því milli svefns og vöku í lengri tíma) getur verið stórhættulegt, því að það er einmitt þá sem að mann (ég) dreymir alla rugldraumana. Nú í morgun dreymdi mig að þrír nafnkunnir bloggarar hefðu komið í afgangamat hjá mér, fyrst kom einn og gerði sæmileg skil á fiskiréttinum, skömmu eftir að hann fór komu svo tveir í einu og dásömuðu matinn og kláruðu.

Ég held að ég minnki snúsið aðeins. Ég þekki þessa menn ekkert en samt koma þeir í mat til mín í draumum mínum og eru voða kammó. Ég held að sumarbústaðarferðin í órafvædda bústaðinn sé orðin tímabær.

Góðar fréttir úr fótboltanum, enda koma þær ekki frá FIFA. UEFA er búið að laga Meistaradeildina aðeins til, nú er bara riðlakeppni og strax eftir hana útsláttarkeppni (en ekki riðlakeppni tvö). Næst komast kannski bara meistararnir í hana.

Reyndar tekur þetta ekki gildi fyrr en eftir ár. Heyrði á BBC World Service áðan í Arsene Wenger sem sagði að sér fyndist þetta ekkert mjög sniðugt. Færri leikir (liðin sem komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þurfa að spila 13 leiki í stað 17 áður) þýði minni peninga, og að auki sé hann nú með svo stóran hóp að það vanti fleiri leiki svo að leikmenn fái að spreyta sig.

Arsene Wenger missti allt það álit sem ég hef haft á honum sem skynsemdarmanni við þessi orð, hann er greinilega ennþá í fótboltaheiminum sem er var, geðveikin þar sem að hver einasti Knoll og Tott var keyptur fyrir andvirði fimm eyja í Karabíska hafinu og allir syntu í peningum (sem fengnir voru að láni… hver vill veðja við mig um að Leeds muni selja 3 stjörnur fyrir jól?).

Af Meistaradeildinni er það annars að frétta að ÍA munu mæta Zeljeznicar Sarajevo í fyrstu umferðinni.

Uncategorized

Fyrsti slátturinn

Hmmm… svo virðist sem að sómamennirnir hjá kjosa.is hafi þegar verið byrjaðir á svona mannréttindabrotasöfnun, ætli það sé ekki best að benda fólki þá þangað?

Sló í dag garðinn hér að Betrabóli í fyrsta sinn. Líkt og grillun er þetta ofmetið af karlmönnum sem fátt annað gera varðandi heimilið. Verð þó að viðurkenna að talsvert er síðan ég sló síðast, sló garðinn hjá mömmu minnir mig á sinni tíð, svo auðvitað í bæjar- og unglingavinnunni.

Sigurrós rakaði svo saman með malarhrífu, annað ekki til í augnablikinu. Þessi verkaskipting er reyndar hefðbundin en hver veit nema hún snúist við næst?

Litli bróðir er að falla í stafi yfir þessum Hringadróttinshring, sem og öðru sem þarna er selt. Svona kaupir maður nú bara þegar maður á of mikið af pening.

Uncategorized

Grillveisla og sól

Skaust á Völlinn í morgun sem oftar áður. Af einskærri hugulsemi nýtti ég mér ekki nokkrar dauðar mínútur til þess að hrella ungan sagnfræðinema með því að heimsækja vefinn hans frá herstöðinni.

Því næst lá leiðin í miðborg Reykjavíkur, hvar ég leysti mál og annað og rölti um í sólarblíðunni og horfði furðu lostinn á túristana og gamla fólkið sem að gekk upp í úlpum og með trefla. Mér var funheitt og fékk mér af því tilefni bragðaref til að fagna sólinni og heimsókn minni á Borgarbókasafnið þar sem ég tók einar 8 bækur sem endast kannski yfir helgina þegar við förum í sumarbústaðinn.

Af þjóðfélagslegum málum er það að frétta að ég ætla mér nú að fara að safna saman reynslusögum þeirra sem að hafa lent í klóm mannréttindabrjóta og bramlara sem að klæðast svörtu og hafa hvítar húfur. Nei, ekki nýstúdenta þó að æla á Ingólfstorgi sé hvimleið, heldur lögreglumanna sem að margir hverjir virðast hafa farið vel út fyrir ramma laganna í tengslum við heimsóknir kínverskra ráðamanna.

Reynslusögur (sagt að pilla mig úr Öskjuhlíðinni því að Zemin var í Perlunni að borða fyrir skattpeninginn minn/sagt að taka svarta klútinn frá munninum/neyddur út af Geysissvæðinu þar sem Zemin átti að fá að skoða það/og svo framvegis) sendist á brot@totw.org, merktar nafni, kennitölu og símanúmeri. Þetta þrennt er nauðsynlegt til að ég geti staðfest söguna hjá viðkomandi, þetta verður hins vegar ekki gert opinbert nema að fengnu samþykki sem ég myndi leitast sérstaklega eftir við viðkomandi. Davíð fær ekkert að sjá hverjir senda, þannig að svarti listinn hans ætti ekkert að stækka. Sjá meira um þetta hér.

Fengum pabba yfir í kvöldmat og héldum fyrstu grillveisluna okkar. Svínakjöt, grillkartöflur, epli og bananar lentu á grillinu og komu öll í ætu formi af því. Grillun er líka ofmetin list af mörgum karlmönnum, maður stingur þessu á grillið, snýr við 2-3 sinnum og tekur af áður en það verður að koli. Ekki flókið og þó tekst mörgum að gera þetta að stórhátíð.

Áhugavert:

  • Blatter orðinn hræddur og bítur allt og alla
  • Uncategorized

    Mánudagur í mörgum

    Það er mikill mánudagur í fólki í dag.

    Ef að það er eitthvað bilað á vinnustaðnum þínum, og enginn annar reddar því, þá er málið að redda því sem maður getur sjálfur og kvarta svo… smá umhugsunarefni fyrir suma. Það er nefnilega svoleiðis að ekki allir hafa ábyrgðartilfinningu, reyndar frekar fáir. Hinir benda svo og hlæja alveg þangað til að þeir drukkna í eigin ábyrgðarleysi.

    Annar hver bloggari sem að ég hef kíkt á í dag kvartar undan því hvað hinir séu leiðinlegir, sjálfhverfir, sjálfumglaðir og svo framvegis.

    Sjálfum er mér slétt sama enda blogga ég ekki, ég held dagbók!

    Það eina sem að hrjáir mig í dag er að gemsinn minn er kominn með Parkinson eftir að ég missti hann í gólfið á fimmtudaginn, eina mínútuna sýnir hann rétta valmynd og þá næstu vill hann fá SIM-kort eða PIN-númer. Að öðru leyti er lífið fínt.

    Áhugavert:

  • Katrín og aðrar stúlkur taki eftir
  • Nasisminn lifir í Ísrael
  • Uncategorized

    Í dag tók ég til

    Ójá, æsispennandi líf mitt er ekkert að missa flugið. Í dag hélt ég áfram að taka til í skúffum, ég uppfærði SSH og Apache á þessum vefþjóni og ég fylgdist með hálfu auga þegar að Ferrari-bílarnir unnu hina kassabílana. Schumacher er núna einni keppni frá því að verða heimsmeistari, og tímabilið rétt rúmlega hálfnað.

    Dagurinn var ágætur þótt óspennandi hljómi. Stundum er best að vera með sjálfum sér og róta í gegnum minningarnar sem að í skúffunum leynast.

    Uncategorized

    Tiltekt, hlutræn og rafræn

    Ónefndur bloggari var að bjóða mér jafntefli í skák sem ég man ekki eftir að hafa teflt. Þar sem ég hef aldrei nennt að spila skák tek ég því enda tæpt að ég myndi ná betri árangri ef að á reyndi.

    Í dag hefur verið tiltektardagur og ég hef grynnkað á pappírsflóðinu sem að fylgdi mér hingað í Betraból, þetta er ekki orðið tipp-topp en þetta þokast.

    Rafræn tiltekt hefur svo farið fram á World Football Database þar sem ég er að uppfæra upplýsingar um íslensku liðin. Áhugasömum skal bent á að hægt er að skoða vefinn á 11 tungumálum og að sjálfsögðu íslensku.

    Áhugavert:

  • Female official promoted to Serie A
  • Sorry seems to be the hardest word
  • Uncategorized

    Endajaxla-taka 1

    Skondið að Óli Njáll nefni mig og heimsóknir Kana í sömu andrá, mig grunar nefnilega að ég eigi kanaheimsókn hjá honum á samviskunni. Í dauðum tíma uppi á Velli skaust ég nefnilega á Nagginn og þaðan á Óla, naskef.navy.mil hefur þá komið inn á listann hans. Ég biðst afsökunar ef það kom illa við hann.

    Fór í dag í mína fyrstu endajaxlatöku. Þeir eru allir komnir upp greyin en mislangt þó, sá efri hægra megin er komin allra jaxla lengst niður, og er nú það sem kallað er siginn. Það veldur því að sá neðri hægra megin kemst ekki eins langt upp og hinir jaxlarnir, honum er bara ekki hleypt lengra. Aðalefni dagsins í dag í tannmálum mínum (sem eru jafn æsispennandi og þetta hljómar) var þó sá efri vinstra megin. Hann var orðinn skemmdur greyið enda illa hægt að bursta kokið á sér, þar sem hann var næstum því. Í fyrstu umferð gekk ekki betur en svo að krúnan brotnaði af, og því var orðið aðeins verra í efni en áður. Eins og skiljanlegt er var takið orðið langtum minna en eðlilegt er. Eftir hálftíma glímu og boranir tókst að splitta restinni í tvennt, og upp kom þessi líka svakalanga og sveigða rót. Þá var bara smá bútur eftir sem að tannsi hélt að væri nú lítið mál. Eftir 10 mínútna glímu urðum við báðir að fallast á það að þessi litli bútur væri kannski efsti hlutinn á annari rót. 5 mínútum eftir það náðist hún svo upp, þessi var með krók á endanum. Tannsi sagði að þetta hefði ekki verið alveg það versta sem hann hefði lent í, en “Þetta er meiri andskotinn” (bein tilvitnun) þýddi að þetta væri í verri kantinum.

    Ekkert varð af því að kíkja á fleiri endajaxla núna, 70 mínútna átök og 90 mínútna seta voru búin að þreyta okkur um of. Mér líður þokkalega eftir þetta, allar hryllingssögurnar af endajöxlum eru líka aðallega vegna þeirra sem að í neðri kjálka eru.

    Í kvöld leit pabbi við og við settum upp hitt og þetta í baðherberginu. Sturtan að verða tilbúin, smá innkaup á morgun ættu að vera nóg til að klára dæmið.

    Áhugavert:

  • Sandals and Shrapnel Dot Attack Site
  • Uncategorized

    Góður dagur, sólardagur

    Smalaði saman litlum hóp í vinnunni í dag og við fórum og fengum okkur ís í sólinni. Fátt betra til að gera góðan móral betri.

    Eftir vinnu var það svo fyrsti fótbolti ársins hjá mér, Hugvitsbolti á Gervigrasvellinum í Laugardal. Þar kvöddum við Paolo sem fer nú um helgina til Ítalíu til frambúðar. Ég hitaði upp fyrir fjörið svona til að vera í góðum málum en það dugði ekki mikið, í þriðja alvöru sprettinum fann ég að vinstri kálfinn var um það bil að gefa sig, skömmu seinna var það svo hægri kálfinn. Greinilega í engri æfingu og fór bara í markið svona til að slasa mig ekki meira.

    Beint úr boltanum og í Laugardalslaugina með Sigurrós, þaðan svo á Nings og svo heim að skoða þvottavélina sem kom í dag. Þá er bara sturtan eftir og þá er þetta orðið fullbúið heimili.

    Egill hefur farið mikinn í blogginu sínu undanfarna daga, hann er nú á förum til Danmerkur og virðist veita af fríinu.

    Áhugavert:

  • Write here, right now
  • Web ties cut by hyperlinking crackdown
  • cDc prepares user-friendly stego app
  • The Powerpuff Girls Movie
  • Uncategorized

    Kaupdagur

    Fórum í dag að eyða fullt af peningum, sem við eigum reyndar. Fórum í Rönning og keyptum þar þvottavél, því næst í TM Húsgögn að versla símaskenk, þar næst var það lampi í man-ekki-hvaða-verslun og svo sitthvað smálegt að auki.

    Heildarútgjöld dagsins tæp 60 þúsund hugsa ég.

    Grey kallinn hann Fossett, loksins þegar að honum tókst að fara umhverfis heiminn í loftbelg, þá gat hann ekki lent aftur!

    Er Óli Njáll maðurinn sem stóð fyrir þessu ostaveseni? Fimm ár síðan að ég var á Ávaxtalager Hagkaups í Skeifunni (nú Nýtt og ferskt í Skútuvoginum) og sá þá meðal annars um allar ostasendingar. Lenti illa í því í eitt skiptið þegar að bretti með Blue Castle gráðosti kom í leitirnar eftir að hafa flakkað um í nokkrar vikur. Þegar að ég tók lokið ofan af gaus upp s k e l f i l e g a s t a lykt sem ég hef á ævi minni fundið. Vitni sóru að ég hefði orðið grænn í framan og ég efast ekkert um það. Þetta bretti var svo hulið segldúk og geymt í kæli og svo hent eftir að tryggingafulltrúi hafði komið í 10 metra radíus. Brettið hafði lent aftan í sendibíl og flakkað um í fleiri vikur án kælingar, ég lifði af og það skiptir mestu.

    Áhugavert:

  • Samkeppnisráð ógildir yfirlýsingu tölvufyrirtækis
  • Innocent nature endangers Ronaldo
  • Uncategorized

    Vélbúnaðarpróf

    Ekki bjóst ég við því að vakna alveg að deyja í hálsinum og öxlunum. Go-kartið tók aðeins á bæði en þar sem þetta voru bara tuttugu mínútur auk þess sem við slöppuðum af í Bláa Lóninu á eftir þá reiknaði ég ekki með neinu svona. Nú veit ég betur.

    Fór í lokaprófið (ef ég náði…) í Vélbúnaði áðan. Byrjaði mjög seint að lesa og rétt náði að klára glósurnar 20 mínútur í prófið. Var aðeins í 35 mínútur inni svo, gekk vel á öllum spurningunum nema einni (var það mutex eða demux… who cares). Bjartsýnn á að ná og það er það eina sem ég stefni á núna.

    Í kvöld kíkti ég á mína gömlu félaga í Iceland United og sá þá vinna B.R. með 5 mörkum gegn 2. Gekk reyndar brösuglega og voru heillengi 1-2 undir en eftir að Paolo skoraði 3ja markið og staðan varð 3-2 datt allt niður hjá B.R. Hópurinn hjá Iceland United virðist fullur þannig að ekkert varð úr comebackinu að þessu sinni, reyndar virðist fjöldinn í hópnum sveiflast mikið milli leikja, í bikarleiknum gegn Puma sárvantaði varamenn en nú voru margir til reiðu. Fyrsta comebackið mitt í fótboltann þetta sumarið verður því á fimmtudaginn í Hugvitsboltanum, spennandi að sjá hvort að ég kiksa í fyrstu tilraun eður ei.

    Ég skil ekki ruglið með SPRON. Þarna er bara um hostile takeover að ræða, SPRON gengur vel og nýtur velvilja viðskiptavina sinna og skilar hagnaði, allt hlutir sem að hver meðal kapítalisti hlýtur að gleðjast yfir, því svona á draumakapítalisminn að virka. Nú ber svo við að ríkisfyrirtækið Búnaðarbankinn og aðrir aðilar vilja ná völdum í þessu litla góða kapítalíska fyrirtæki, og með því að öskra orðið “einkavæðing” þá fylkja allir sanntrúaðir Sjálfstæðismenn (Deiglan og fleiri) sér á bak við þá. Þeir segja að þó að þeir skili hagnaði og hafi ánægða kúnna þá sé formið á rekstrinum rangt í þeirra augum, nú hvern andskotann eru þeir þá að pæla í þessu? Af hverju sinna þeir ekki því sem nær þeim er? Núna er valdþjöppun samfélagsins í fullu swingi og þessir spekingar segja að það sé það langbesta sem til er. Kannski af því að þeir eiga hlut í risunum sem eru að drepa litlu kallana sem að gera þó allt rétt og gengur betur en risunum í kúnnaviðskiptum?

    Sigurrós nefndi við mig í gær nokkuð sem ég veit vel af, undanfarnar vikur hafa dagbókarfærslurnar mínar verið í talsverðum reiðitón. Það er satt og það er því miður þannig vegna þess að það er allt á beinni leið til andskotans eins og er. Skert tjáningarfrelsi, handónýtir fjölmiðlar, vitfirrtir stjórnmálamenn sem fá ekkert aðhald, peningasugur sem fá móralskan stuðning siðblinds fólks sem fylgir sínum eigin prinsippum aðeins þegar það borgar sig fyrir það og svo má lengi telja. Við erum á hraðferð til myrkra miðalda og það er bæði vitleysingunum í brúnni að kenna sem og atvinnuveitendum þeirra, okkur kjósendum og viðskiptavinum sem tökum ekki um hreðjarnar á þeim og látum þá haga sér eins og siðað fólk.

  • Icann boss: ‘We’re not undemocratic’
  • Kahn wins Golden Ball
  • Ten things I learned about life and soccer from the 2002 World Cup