Frakkland: Dagur 2

Dagurinn tekinn snemma, vaknað rétt fyrir 9 og haldið af stað klukkan 10 í langt ferðalag. Zsouzsa átti frí í dag og því fór hún með okkur. Að auki kom vinafólk þeirra með okkur, þau Monique og Serge. Fyrst fórum við í Grands Goulets, mikið gljúfur, og gengum þar dágóðan spotta. Því næst fórum við í smá lautarferð, hitinn var 30°C og glampandi sól þannig að við leituðum að skugga, og fundum hann í skógarlaut við lækjarstraum.

Ferðinni var því næst heitið í einstæða dropasteinshella, Grottes de Choranche, sem eru í Vercors fjöllum, talsverðan spotta frá Grenoble, sæmilegur akstur þangað. Þarna eru bæði dropasteinar og dropastrá, ég efast um að orðið dropastrá sé til í íslenskum orðabókum þar sem að þetta er jarðfræðifyrirbrigði sem að finnst að ég held eingöngu í þessum hellum. Þetta eru sumsé dropasteinar sem eru örmjóir, á að giska hálfur cm í þvermál, og holir að innan, vatnið kemur innan úr stráinu og steinefnin setjast utaná, þannig að rörin lengjast bara og lengjast. Leiðsögumaðurinn stýrði ljósasýningu í hverjum hluta hellanna, ágætlega heppnað, og yndislegt að komast inn í smá kulda (12°C eða svo) úr hitanum sem var fyrir utan.

Svo var haldið heim á leið þar sem við buðum Frökkunum uppá kvöldmat með íslensku þema, flatkökur með hangikjöti og graflax með ristuðu brauði og graflaxsósu. Zsouzsa gekk reyndar fram af mér með því að fá sér graflaxinn með laukstykki og sítrónu, henni fannst íslenski mátinn ekki nógu góður.

Um kvöldið kláraði ég svo fyrstu bókina sem ég hafði með mér út, Childhood’s End eftir Arthur C. Clarke. Áhugaverð bók með góðum pælingum.

Comments are closed.