Frakkland: Dagur 1

Rita þetta á gamla mátann með penna á blað. Sett þetta á rafrænt form þegar ég kem heim, og svo verður um allar Frakklandsfærslurnar.

Loksins í TGV-lestinni, erum að lulla í hægagangi í gegnum alveg æðislegt franskt og friðsælt sveitahérað, með blómlegum ekrum, bóndabæjum með rauð múrsteinsþök, skóglendi, gömlum múrsteinskirkjum og allt þetta í hæðum og dölum undir steikjandi sól. Ekki eitt einasta í þessari lýsingu gæti átt við Ísland, því miður.

Þetta er búin að vera smá maraþonferð hjá okkur, vöknuðum uppúr 10 í gærmorgun og klukkan er núna 8:30, eða 10:30 að staðartíma, og því tæpur sólarhringur sem við erum búin að vera á ferðinni og þó ekki komin á endanlegan áfangastað. Síðustu 12 tímana erum við búin að vera á ferðinni, rúta frá Reykjavík til Keflavíkur, flug þaðan til Parísar, rúta á lestarstöð, metro á aðra lestarstöð og TGV lestin okkar þaðan. Á endastöð í Grenoble mun svo Jean taka á móti okkur og keyra okkur á áfangastað okkar, heimili hans í Champ-sur-Drac, sem er smábær í nágrenni Grenoble. Allt þetta hopp á milli flugvalla og lestarstöðva með farangurinn með knappan tíma til stefnu að auki er stressandi og þreytandi, en áætlunin okkar gekk fullkomlega upp sem betur fer.

Í fríhöfninni í Leifsstöð hinni stærri keypti ég mér 3 geisladiska og svo sólgleraugnadæmi til að festa á gleraugun. Svo keyptum við eitthvað af íslensku nammi til að gefa Frökkunum að smakka.

Klukkan er nú komin að kveldi, við komuna til Champ-sur-Drac var okkur boðið upp á ungverskan gúllasrétt. Gúllasið kom okkur Íslendingunum á óvart, hver einasti biti var meyrt kjöt, annað en við eigum að venjast hérna heima, jafnvel þó að keypt sé “hágæða” gúllas. Því næst tók ég síestu, Sigurrós hafði náð sér í smávegis lúr í TGV-lestinni og rabbaði því við Jean í tæpa tvo tíma, áður en ég var vakinn.

Jean var nefnilega æstur í að sýna okkur hitt og þetta, og því héldum við í langan ökutúr um Isére svæðið (Grenoble er í dal milli þriggja fjallgarða, þar á meðal Isére). Úti var sól og 30°C og við vorum ennþá að reyna að jafna okkur eftir ferðalagið langa og hitann, en ferðin var skemmtileg kynning á landsvæðinu, sem að er að meirihluta til í fjallshlíðum á þessum slóðum. Við sáum tvo ofurhuga hoppa fram af brú sem er í á að giska 200 metra hæð yfir ánni fyrir neðan, sá fyrri var nokkuð rólegur og lítið heyrðist í honum, en sá seinni (og síðasti þennan daginn) ákallaði djöfulinn og mömmu sína af miklum móð ásamt ógreinilegri öskrum.

Húsmóðirin á heimilinu, Zsouzsa, kom heim skömmu á eftir okkur. Hún vinnur á vöktum sem hjúkrunarkona og því var svolítið happa-glappa hvort að hún borðaði með okkur eða eyddi dögunum með okkur. Hún hafði tekið kvöldmatinn okkar með sér, pizza með sveppum og rjóma. Eins og að það væri ekki svolítið undarlega samansett pizza, þá tókst þeim að ganga fram af mér með því að láta hana bara kólna á meðan að farið var að vesenast í því að búa til salat sem var svo gert óætt með því að setja Vinagarette dressingu á það, það var svo borðað áður en svo mikið sem litið var á pizzuna sem að kólnaði óskaplega aumingjaleg í kassanum sínum. Þegar loks var byrjað á vart volgri pizzunni bragðaðist hún merkilega mikið eins og sveppasúpa. Rauðvín var að sjálfsögðu drukkið með, þetta rauðvín sem drukkið er dags daglega er í léttari kantinum en fínt engu að síður. 5 lítra kútur af því kostar rétt um 500 kr. íslenskar (45 frankar eða svo).

Dagurinn var búinn að vera viðburðaríkur og því vorum við þreytt og ánægð þegar að við loksins lögðumst til hvílu. Dagur 1 var búinn.

Comments are closed.