Stjórnmál

Öryggislögregla Björns Bjarna

Björn Bjarnason kætist yfir því að Mogginn taki upp hanskann fyrir það að Björn hamri á meiri njósnum, fleiri vopnum og fari með vænisýkina upp í topp til að sannfæra um að Ísland þurfi á þessu að halda.

Björn vitnar í þessa málsgrein Moggans:

 

Hryðjuverkaógnin er raunveruleg og nálæg. Öfgamenn hafa ráðizt á skotmörk í nágrannalöndum okkar, sem við höfum einna mest samskipti við. Skemmst er að minnast árásanna á New York, Washington, London og Madríd. Það getur gerzt hvenær sem er að hópur Íslendinga sé staddur á fjölförnum stað í nálægri stórborg, þar sem hryðjuverkamenn ákveða að láta til skarar skríða. Og það er engan veginn hægt að útiloka að þeir beini sjónum að Íslandi, landi sem sagan sýnir að hefur verið auðvelt að ráðast inn í eða ná valdi á þegar þar hefur skort trúverðugar varnir.

 

Ójá, Reykjavík og New York, efstar á lista allra hryðjuverkamanna! Litla gula hænan eða hver það var sem öskraði að himnarnir væru að falla lifir meðal vor í anda svo um munar.

Hvað var sérsveitin að gera í dag, til að vernda Íslendinga frá hryðjuverkum? Kíkjum hvað Textavarpið sagði:

 

Sigur Rós meinað að spila í Lindum
Lögregla hefur nú mikinn viðbúnað við Kárahnjúka. Um 20 lögreglumanna eru á svæðinu, sérsveit ríkislögreglunnar og víkingsveitin frá Akureyri auk lögreglu frá Egilsstöðum. Lögreglan hefur sett upp vegatálma á veginn frá Fljótsdal til Kárahnjúka og meinar fólki að fara  afleggjarann að Snæfelli, inn að Lindum þar sem tjaldbúðir náttúruverndarsinna standa. Um 60 manns eru í tjaldbúðunum, um tugur manna sem ætlaði þangað í dag var stöðvaður við vegartálma lögreglu.

Hljómsveitin Sigur Rós sem ætlaði að spila á svæðinu í dag komst ekki þangað vegna aðgerða lögreglu. Sigur Rósarmönnum er nú meinað komast í búðir mótmælenda og hyggjast í staðinn spila  klukkan 11 í fyrramálið við Snæfell.

Sérsveitin, víkingasveitin og almenn lögregla eru að… stöðva fólk frá því að tjalda og spila tónlist! Við erum örugg!

Uncategorized

Lesskýrsla

Eftir að HM lauk þá hef ég varla kveikt á sjónvarpi í sumar. Ítalirnir annars með hundleiðinlegt lið!

Síðustu mánuði hef ég verið að mjatla í gegnum The Death and Life of Great American Cities eftir Jane Jacobs. Ég leit á þessa bók eftir að BoingBoing benti á hana, nokkrum dögum seinna birtist grein á Deiglunni um hana. Bókin er nú loksins aftur aðgengileg öðrum á Landsbókasafninu!

Bókin er stundum torlesin en hún er mjög fróðleg. Borgar- og bæjarfulltrúar ættu að vera skyldugir að lesa nokkra kafla í henni til að átta sig á því hvað aðgerðir þeirra geta leitt af sér.

Í sumarbústaðaferð nýlega tók ég svo með mér Dream Park og A History of the World in 10½ chapters.

Dream Park fjallar um framtíð þar sem LARP er orðið ógnarstórt fyrirbæri og beinar útsendingar eru frá ævintýrum sem búin eru til. Hef aldrei prufað svona lifandi hlutverkaleik sjálfur en ef hann nær þessu stigi væri gaman að prufa! Það eru víst til tvær aðrar bækur sem eru framhald af þessari, The Barsoom Project og svo The California Voodoo Game, tékka á þeim við tækifæri.

A History of the World in 10½ chapters er mjög sérstök bók með smásögum sem tengjast á lúmskan máta. Frásögnin af lífinu í örkinni hans Nóa (og hinum örkunum…) er áhugaverð.

Að lokum var það svo Angels and Demons eftir Dan Brown. Líkt og í Da Vinci dulmálinu þá er fléttan áhugaverð og allt í kringum hana, vísbendingar og svör, mjög spennandi. Hvað varðar persónusköpun og samskipti þeirra á milli þá er hún því miður mjög slöpp, líkt og lélegar sjoppubókmenntir.

Uncategorized

Knattspyrna og tryggingar

Þá er HM 2006 hafið og vel það. Eins og mig grunaði var leikur Argentínu og Fílabeinsstrandarinnar besti leikur keppninnar hingað til.

Tæplega 200 manns keppa nú í HM-leiknum sem ég setti upp. Mér gengur reyndar ekki eins vel og í EM 2004-leiknum en fékk fullt hús stiga fyrir Argentína-Fílabeinsströndin.

Rennireið Betrabóls er því miður í andarslitrunum þessa dagana. Nágranni okkar ákvað að setja í bakkgírinn á miðri götu og jeppinn hans tætti grillið og húddið hjá okkur í sig. Ef hann hefði verið á fólksbíl hefðu þetta aðeins verið stuðararnir sem hefðu skaddast en þessir helvítis jeppar eru ekki hannaðir með það í huga að lenda í árekstrum við fólksbíla.

Tryggingafélagið virðist ekki vilja borga viðgerðir sökum aldurs bílsins, sem þó var í fínu lagi fyrir áreksturinn. Það er helvíti skítt ef að bíll sem búið er að leggja umtalsverðan pening í nýlega og er í góðu ásigkomulagi er dæmdur lélegur af skoðunarmönnum tryggingafélags sem líta bara á fæðingardag bílsins en ekki það viðhald sem hefur farið í hann og ásigkomulag.

Við ætlum ekki að gefa okkur í því að fá eitthvað alvöru út úr þessu, andskotinn hafi það að klesst sé á okkur og við skilin eftir með lélegri bíl, eða í skuld við að fá sambærilegan, eftir að hafa verið í 100% rétti! Lög, reglugerðir og skilmálar verða vandlega yfirfarin til að tryggja að það gerist ekki.

Sjá greyið á þessum tveim myndum, að ofan og á hlið.

Uncategorized

Hæstiréttur enn ekki með höfuðið í lagi

Af Textavarpinu:

Hæstiréttur styttir fangelsisdóm

Hæstiréttur hefur stytt fangelsisdóm yfir manni sem ákærður var fyrir tilraun til manndráps, úr fimm árum og sex mánuðum í tvö og hálft ár. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína á heimili hennar og slegið hana margsinnis í höfuðið með felgulykli.

Hæstiréttur fellst ekki á röksemdir héraðsdóms um að um tilraun til manndráps væri að ræða. Ekki væri hægt, af áverkum konunnar að dæma og aðstæðum á vettvangi, að fullyrða að maðurinn hefði ætlað sér að ráða konunni bana. Maðurinn var því dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás. Auk þess hann þarf að greiða konunni 700.000 krónur auk málskostnaðar beggja aðila.

Nei auðvitað er maðurinn ekkert að reyna að drepa þegar hann ber með felgulykli í hausinn, þetta var bara smá bank!

Hæstiréttur hefur ítrekað létt dóma vegna ofbeldisbrota, bæði líkamsárasa og nauðgana. Þeir draga úr alvarleika brotanna og koma með svona fáránlegar röksemdir eins og hér að ofan. Hæstaréttardómarar ættu að skammast sín ofan í tær fyrir að meta mannslífið og mannslíkamann minna en ávísanahefti.

Svei ykkur.

Uncategorized

Magnús og HM-vefur

Svili minn Magnús Már Magnússon hefur nú bæst í hóp heimilismanna á Betra.is og ætlar sér að byggja vænan vef þar.

HM-vefur hefur að auki farið í loftið. Hann virkar líkt og EM-vefurinn fyrir tveimur árum síðan. Þarna er öllum frjálst að skrá sig, stofna einkadeildir og bjóða vinum, vandamönnum og vinnufélögum til leiks. Mjög hentugt fyrir vinnustaði og vinahópa og aðra sem vilja giska á úrslit leikja á komandi heimsmeistaramóti.

Yfir 300 manns giskuðu þegar EM stóð yfir. 

Uncategorized

Betrabæli

Sigurrós varð veik í síðustu viku og hefur haldið sig heima með hita og ýmsa kvilla. Hún var orðin svo einmana að líkami minn ákvað að taka þátt í veikindunum og því lagðist ég í sótt á miðvikudaginn.

Allt að 40 stiga hiti og fleiri kvillar sem hafa hrjáð mann undanfarna daga og ætli helgin sé ekki uppbókuð í frekari veikindi.

Betraból er því sóttarbæli þessar vikurnar. 

Uncategorized

Pink

Pink er sífellt að sanna sig sem alvöru listamaður með boðskap.

Síðast var það Stupid Girls, núna er það Dear Mr President

Uncategorized

Súkkulaðið

Súkkulaði er víst meinhollt fyrir gamla fólkið og aðra sem vilja ógjarnan fá hjartakvilla. Mars fyrirtækið er á leiðinni með "hollustusúkkulaði".

Í tilefni þess að leitarvél frá Leit.is kaffærði netumferðina hérna heima þá greip ég til þess ráðs að setja upp mod_cband og get með því stjórnað umferðarhraða og notkun á vefþjóninum. Sjáum hvort það leysi ekki vandann. 

Uncategorized

Flóð

Það er víst svo að ég hef ekki ritað hérna í nokkrar vikur, og á meðan hef ég sankað að mér fjölda tengla á ýmislegt áhugavert efni, velt fleiri verkefnum fyrir mér og að auki lesið í og hlustað á ýmsar menningarafurðir.

Menningin

Við skruppum á frönsku kvikmyndahátíðina og sáum Les Poupées russes sem er framhald Evrópugrautsins sem okkur fannst frábær.

Pantaði þær Eoin Colfer bækur sem vantaði upp á og las Artemis Fowl bókina The Opal Deception og The Supernaturalist (ekki Artemis Fowl bók). Supernaturalist er áhugaverð framtíðarpæling. Á eina bók eftir sem er Artemis-tíningur.

Ég las líka aðra bókina hans Cory Doctorow á stafrænu formi eins og hina fyrstu. Eastern Standard Tribe fjallar um hópamyndun á tímum Internetsins, hvernig einstaklingar laga sig að því tímabelti sem hefur áhugaverðasta hópinn að þeirra mati og ýmsa magnaða atburði sem gerast í kringum það.

Á National Geographic sá ég mynd sem er byggð á sönnum atburðum. Two Men Went to War fjallar um tvo tannlækna í breska hernum sem leiðist að fá ekki að spreyta sig á vígvellinum í seinni heimsstyrjöldinni og ræna því fiskibát og sigla til Frakklands þar sem þeir gera árás á þýska hlustunarstöð.

Tveir blöndudiskar sem hægt er að fá frítt á netinu hafa heillað mig. Fyrst ber að telja The Beastles þar sem blandað er saman tónlist Bítlanna og Beastie Boys. Mögnuð útkoma. Því næst er það Best of Bootie 2005 þar sem tónlist úr öllum áttum er blandað saman, nokkur frábær lög að finna þarna. Ég er ekki eins hrifinn af Beatallica þar sem hljómsveit spilar bítlalög í Metallicu-búningi. Metallica var í uppáhaldi hjá mér fyrir 16-17 árum síðan. Ekki lengur.

Öðruvísi blanda fór fram í samkeppni sem Gizmodo efndi til. Þar voru notuð hljóð sem myndast við dauðateygjur harðra diska og þeim blandað í ýmsa tónlist. Skemmtilegustu lögin þarna eru án efa Crizzash og Rootin’ and Falootin’.

Af tónlistinni er það einnig að frétta að komin er opin útgáfa af forriti sem líkist iTunes. Það er frá Mozilla-mönnum og öðrum og nefnist Songbird. Að lokum er svo til sniðugur vefur sem nefnist Pandora þar sem þú slærð inn nafn á lagi eða tónlistarmanni og þú færð að sjá svipaðar hljómsveitir og kynnist þannig vonandi nýjum og góðum tónlistarmönnum. Þetta virðist virka þokkalega, ég sló inn Beastie Boys og þriðji valmöguleikinn var Quarashi!

Tenglahreinsunin

Eins og hjá Neil Gaiman þá safnast upp tenglar á ýmislegt sniðugt, skrítið og skelfilegt hjá mér í pósthólfinu mínu. Líkt og hann ætla ég að demba þeim á netið með smá texta. Raðað í grófri tímaröð…

Oops!
Flestir hafa heyrt um Qing-postulínsvasana sem óheppinn og klaufskur maður braut í bresku safni. Þetta er þó ekki einsdæmi eins og Laura Barton greinir frá.

Seven years for a pound of butter
Refsiramminn hér áður fyrr var svolítið öðruvísi en í dag. Þetta er frétt úr The Guardian á nítjándu öldinni þar sem menn eru sendir til Ástralíu fyrir litlar sakir.

Dream Anatomy: Gallery
Safn af líffærafræðamyndum frá fyrri tíð.

New finance chief gets £4.6 million to join RBS
Það eru ekki bara starfslokagreiðslur heldur líka starfshafsgreiðslur! Verst fyrir hluthafana að kannanir hafa sýnt að ofurlaun þýða ekki ofurárangur.

Worlds apart
Fréttamaðurinn Chris McGreal ber saman aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku og aðskilnaðarstefnuna í Ísrael og Palestínu.

Music, wine and will
Tom Stafford greinir hérna frá rannsókn sem sýndi að jafn einfaldur hlutur og að spila franska eða þýska tónlist í víndeildinni hafði afgerandi áhrif á undirmeðvitund kaupenda þó þeir þverneituðu fyrir það að hún hefði haft áhrif á þá.

Employer discontent with graduates
Í Bretlandi virðast atvinnurekendur ekki nógu sáttir við mannaflið sem kemur frá æðri menntastofnunum. Hinir nýútskrifuðu virðast ekki hafa unnið nóg í hópum, koma efni illa frá sér og eru óskrifandi. Eitthvað sem að stytting stúdentsnáms á Íslandi mun meðal annars hafa í för með sér.

Sound of silence leaves shame at the Lane
Simon Hattenstone veltir hér upp skömminni sem áhangendur Tottenham urðu uppvísir að og rekur aðeins hommafóbíuna sem ríkir í fótboltanum.

Finns open playgrounds to adults
Eldri borgarar í Finnlandi eru nú hvattir til að fara á næsta leikvöll og ærslast þar með eða án krakka! Þetta er liður í því að auka heilbrigði eldri borgara og þetta virðist virka, bæði fyrir líkamlegt og andlegt ástand þeirra.

Aerial Photographs of Mexico City
Magnaðar loftmyndir af Mexíkóborg, teknar af þyrluflugmanni. Úthverfin fyrir verkafólkið eru mögnuð, líta út eins og legóborgir.

British secret police caught faking records in Menezes shooting cover-up
Það á ekkert að treysta lögreglunni 100% frekar en öðrum. Lögreglan á að þurfa að standa við verk sín og vera gegnsæ svo hún geti notið þess trausts sem hún krefst. Björn Bjarnason mætti íhuga þetta oftar.

Designer Appliances Vertical Ergonomic Mouse
Þessi mús er sniðuglega hönnuð. Gæti dregið úr álagsmeiðslum fyrir tölvunotendur, kíki á hana við tækifæri.

Birds stay gay
Dýragarði í Þýskalandi hefur mistekist að snúa samkynhneigðum mörgæsum yfir í gagnkynhneigðar svo þær fjölgi sér. Sænsku kvenmörgæsirnar sem voru fluttar inn eru víst ekki nógu framfærnar við karlana sem sýna þeim engan áhuga.

Health gap between rich and poor Scots revealed
Það er marktækur munur á heilsu ríkra og fátækra Skota. Þarna spilar margt inn í, óhollur matur er til dæmis ódýrari en hollur matur og erfiðisstörf eru illa launuð og taka gríðarlegan toll af líkamanum. Með aukinni markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins (hærra verð) og smákóngavæðingu ríkisstofnana (verri þjónusta) eykst líka kostnaðurinn sem kemur harðar niður á hinum verr efnuðu.

Tiffeny breaks Chelsea fast
Chelsea ætla nú að setja smá trukk í kvennaliðið sitt sem er í fallhættu. Það væri alls ekki slæmt fyrir kvennaboltann að fá meiri áhuga og peninga.

U.S. concludes ‘Cyber Storm’ mock attacks
Bandaríkin voru að ljúka æfingum sem þjálfa upp viðbrögð við netárásum frá andstæðingum heimsvæðingar, tölvuþrjótum og bloggurum. Já, bloggurum. Það er verið að æfa varnarviðbrögð við bloggurum…

The photos America doesn’t want seen
Fleiri myndir frá Abu Ghraib. Nýtt sett sem áströlsk sjónvarpsstöð gróf upp. Villimennskan er algjör.

Israely Anti-Semitic Cartoons Contest
Ísraelar ákváðu að svara með krók móti bragði. Í Íran er samkeppni um skopmyndir af helförinni, Ísraelar ætla að keppast um að búa til bestu skopmyndirnar af gyðingum. Enginn gerir eins gott grín að gyðingum og þeir sjálfir halda þeir fram.

Q&A: A lost interview with ENIAC co-inventor J. Presper Eckert
Viðtal við manninn sem hannaði fyrstu nútímatölvuna, ENIAC.

Uncategorized

Betraból fjölgar… í vefheimum

Ábúendum Betrabóls á vefnum fjölgar hægt og rólega. Ég kynni til sögunnar vin minn frá Bandaríkjunum, Mike, sem var að hefja störf í sendiráði Bandaríkjanna í Búrúndí! Áhugavert að sjá hvernig hlutirnir ganga þar, óöld ríkir í landinu.

Langt er síðan ég lét síðast heyra frá mér, það er alltaf vísbending um að nóg sé að stússast í. Smelli því tenglasúpu inn sem ég hef safnað að mér síðustu vikur.

Tenglasúpan