Uncategorized

Þembingur

Já… í gærkveldi fór mér að hraka og eftir sífelld hlaup á klósettið fór ég að sofa skjálfandi með hita.

Dagurinn í dag verið keimlíkur, betri af hitanum reyndar en fundið samt eitthvað fyrir honum. Afrek dagsins eru fá, sá Dortmund taka á móti Bielefeld í þýska boltanum, leikurinn í mun hærri gæðaflokki en það sem býðst yfirleitt frá Englandi (nema þegar stórveldaslagur er á dagskrá). Þýsku liðin kunna nefnilega fótbolta, annað en þau ensku yfir höfuð. Mínir menn í Sheffield Wednesday náðu loksins að innbyrða sigur í dag, unnu Bradford á heimavelli. Áður höfðu fjórir leikir tapast í röð og þar áður höfðu verið fjögur jafntefli.

Vonandi næ ég að vera með réttu ráði á morgun, skilaverkefni í java sem ég ætti að vera kominn á fullt með.

Uncategorized

Aldurinn færist yfir

Í dag ná Örn og Valur mér loksins í aldri, árin orðin 27 sem er auðvitað bara misskilningur á milli okkar og Móður Náttúru.

Vaknaði hitalaus í morgun sem var gleðiefni, leið ágætlega fram eftir degi eða þangað til að ég fór að ryksuga. Þá fór mér að verða óglatt og eftir því sem liðið hefur á kvöldið hefur magakveisa verið að bæra á sér. Ég hef nú ryksugað áður þannig að þetta er ekki ofnæmi gegn húsverkum sem sumir karlmenn segjast hafa.

Undarlegasta frétt dagsins er konan sem beit manninn sinn til bana. Karlanginn (65 ára) neitaði víst að eiga mök við konu sína (45 ára) og hún bara trylltist og beit hann 20 sinnum.

Þegar að Bigfoot-æðið er dáið niður í Bandaríkjunum þá er bara málið að koma með nýja furðuskepnu, ætli það sé ekki hægt að kala það Bigwing? Núna berast sumsé fréttir frá Alaska af risafugli sem er sagður á stærð við einkaflugvél.

Miroslav Blazevic sem er fyrrum landsliðsþjálfari Króatíu og núverandi þjálfari Dinamo Zagreb er með nýja taktík til að halda mönnum sínum í andlegu jafnvægi. Hann ætlar eiginlega að gera liðið sitt að kirkjusókn, hefur farið fram á það við erkibiskupinn að prestur verði skipaður sem fylgi liðinu hvert sem það fer. Ætli það séu ekki um 30 manns í liðinu, svipað margir og einstaka kirkjusóknir á Vestfjörðum hafa haft undanfarið.

Uncategorized

Smitleiðin fáránlega

Ég legg nú fæð á frægasta bloggara landsins, ekki var ég fyrr búinn að lesa um veikindi hans en mig fór að svima og finn ég nú að gubbupest er í startholunum, greip til þess örþrifaráðs að fá mér sykurleðjuna sem ber nafnið kók bara til þess að geta komist heim úr skólanum án þess að æla.

Aðalmínusinn við það þegar ég verð veikur er ekki það að mér sé óglatt og þurfi að dytta að ýmsum líkamlegum fylgikvillum, aðalmínusinn er sá að það þarf ekki nema örfáar kommur til þess að ég verði gjörsamlega að zombie, get ekki lesið eða gert neitt vitrænt, hef ekki einu sinni athyglisgáfu til að gera neitt í tölvunni. Ég hata það að vera því eins og vofa sem ráfar um en getur ekkert gert nema beðið þess að leggjast til svefns þegar haninn gólar (eða í mínu tilfelli þegar dagur er að kveldi kominn).

Húsráð dagsins er að loka alltaf klósettum, annars getið þið lent í því að detta og festa hendina ofan í slíku, sem er vafalaust mjög vont sem og neyðarlegt.

Uncategorized

Listin að vera listamaður

Sá í gærkveldi seríu á PoppTíví þar sem sýnd voru samfleytt þó nokkur myndbönd frá Fatboy Slim. Hafði heyrt ýmislegt um sum þeirra en ekki náð að sjá þau sjálfur áður, það vill gerast þegar að lítið er horft á sjónvarp. Fatboy verið í miklu uppáhaldi í líklega ein 7 ár núna hjá mér, Santa Cruz minnir mig að hafi verið fyrsta lagið sem ég heyrði með honum. Það væri gaman að fara í Höllina að sjá hann á Airwaves, EN… það kostar slatta og ég er hættur að nenna að fara á svona megastórt dæmi, ég vil njóta góðra hluta í fámennari hópi.

Verst að Fatboy kostar aðeins meira en ég hef efni á, annars væri fínt að fá hann til að halda gargandi partý þar sem maður gæti boðið öllu skemmtilega fólkinu sem maður þekkir, það væri snilld. Kannski eftir einhver ár þegar ég er búinn að safna í Fatboy-sjóð.

Myndböndin hans eru annars tær snilld og krafturinn í honum þar sem hann er að halda risatónleika á strönd Brighton er ótrúlegur. Fatboy Slim, Chemical Brothers, Orbital og Underworld eru gamlir og góðir vinir mínir. Tónlist hefur ótrúlega mikil áhrif á mann.

Fyrst ég er á listrænum nótum (því að ofangreindir tónlistarmenn eru allir listamenn) þá var ég að lesa grein sem fær mann enn einu sinni til að velta því fyrir sér hvernig margir frægir listamenn myndu plumma sig nú til dags. Jacob Martinez er sumsé listamaður sem að var spáð alveg gífurlegum frama og var að brillera með brjálæðislegum verkum sínum. Hann snappaði svo endanlega 24 ára eftir talsverðar geðraskanir, kveikti í gamla skólanum sínum og var í 5 ár á geðsjúkrahúsi. Núna er hann á lyfjablöndum sem eiga að halda honum í norminu, það hefur hins vegar þau áhrif að verk hans nú eru miklu daufari og talin síðri af flestum sem fylgdust spenntir með verkum hans þegar hann var sem bestur.

Van Gogh endaði líf sitt í mikilli geðveiki, en síðustu verk hans eru jafnframt talin þau bestu, snilldin aldrei meiri en þegar geðveikin var sem hæst. Hvað ef hann hefði fengið svona lyfjablöndu, hefði hann þá málað mörg af þeim málverkum sem í dag seljast á milljarða? Hefði hann málað síðri myndir? Jacob Martinez er sáttur við sjálfan sig í dag, hann vill frekar vera heill á geði en frábær listamaður á ystu nöf geðveikinnar, ætli van Gogh hefði ekki tekið því sama fegins hendi. Eitt mannslíf er stærra en nokkur málning á striga.

Ófreskjan sem að er Roy Keane var að fá 5 leikja bann og 150 þúsund punda sekt fyrir geðsjúklingsbrot sem hann framdi á Alf-Inge Haaland. Mér finnst það reyndar léttvægt miðað við þau brot sem eru talin upp á þessari syndasíðu, Robbie Fowler fékk 6 leikja bann, nema hvað það var fyrir að þykjast sjúga endalínu upp í nefið (sumsé kókaín). Í minni bók er það mun alvarlega að ætla að meiða einhvern en að svara fyrir orðróm sem að var í blöðunum með því gantast aðeins. Það er víst svo að dómarar virðast almennt oft hafa öðruvísi gildismat en almennir borgarar, sama í hverju er verið að dæma.

Talandi um dómara, Ísland var að vinna Litháen 3-0 á Laugardalsvelli, dómarinn var frekar slappur en ætli við getum ekki þakkað honum sigurinn þar sem að Litháar voru 10 talsins í 70 mínútur. Íslenska liðið var sprækara en á móti Skotum, munaði mest um nafna minn Jóhannes Karl Guðjónsson sem var á fullu að reyna að skapa færi. Atli er í dýrasta knattspyrnuþjálfara skóla sem um getur, hann hefur greinilega lært aðeins heima eftir fallið um helgina. Núna þarf hann bara að láta þá Guðjónssyni spila alla á miðjunni, fá Tryggva á vinstri kantinn og þá förum við að geta sigrað aðrar þjóðir sem eru með fullskipuð lið, síðustu 2 sigurleikirnir (Andorra gæti aldrei talist með) voru gegn 10 manna liðum Tékka og Litháa.

Uncategorized

Tíminn sem hvarf

Það er svo sem auðvitað að tíminn flýgur hratt þegar mikið er um að vera, en silast áfram þegar ekkert er í gangi.

Fannst ég rétt nýmættur í vinnuna þegar ég var svo búinn, stórt verkefni í gangi sem að tók allan minn tíma.

Góðar fréttir fyrir rauðhærða, eða eru þær vondar? Niðurstaða vísindamanns bendir að minnsta kosti til þess að rauðhært fólk þurfi 20% meira við svæfingu en aðrir, svo virðist sem að rauðhært fólk finni meira fyrir sársauka en aðrir.

Það er misjafnt hvað fer í skapið á klerkum, í Íran er núna einn sem að vill láta handtaka alla hunda, enda eru þeir skítug dýr í íslamskri trú og eignarhald á þeim sýnir spillta hegðun.

Magnað þetta með frændur okkar Svía. Ísland er nú aftur komið í Alþjóðahvalveiðiráðið, Svíar hafa verið frændum verstir og ávallt lagst gegn því að þjóð sem veiðir hvali komist í Alþjóðahvalveiðiráðið… eins merkilegt og það hljómar. Núna segir Birgitta Bodstrom að Svíar hafi greitt Íslendingum atkvæði í gær fyrir mistök, þeir hafi átt að halda áfram að standa í vegi fyrir aðild okkar að alþjóðlegri stofnun en fyrir misgáning hafi þau hleypt okkur inn. Ég legg til að umhverfisráðherra Svía fái konfektkassa og þakkarbréf, sem og skammarbréf fyrir að ætla vera með þennan derring.

Sigurrós bjargaði þremur banönum frá ruslafötunni í dag með því að breyta þeim í þessa líka fínu bananaköku.

Uncategorized

Eitt sinn pulsa, ávallt pylsa

Ekki bragðast kjúklingapylsur neitt betur en hefðbundnar pylsur, sama ruslið sem bindur þetta saman og innihaldið viðlíka mauk. Pylsur eiga ekki upp á pallborðið hjá mér, frekar en kjötfars og annar verkaður óætur úrgangur.

Uncategorized

Tilraunaeldhús Betrabóls

Í gærkveldi héldu matartilraunir áfram, núna bútaði Sigurrós niður 2 banana og 2 konfektepli, setti í pott ásamt ananas (úr lítilli dós) og kjúklingi í bitum (eldaður, skorinn og settur í frysti fyrir stuttu síðan) sem og sósu. Útkoman var ágætis ávaxtakjúklingur. Ætlum að fínstilla hráefnið aðeins og bæta fleiru við áður en uppskriftin er gerð þjóðkunn.

Uncategorized

Spaug og landslið

Ekki var ég alveg viss hvort að Spaugstofan væri byrjuð þegar ég sat fyrir framan sjónvarpið og sá þar íslenska landsliðið bjóða Skotum afturendann. Skotarnir tóku boðinu vel enda berrassaðir undir pilsunum sínum (eins og mér er tjáð að allir áhorfendur RÚV hafi séð… ég hef greinilega litið undan á réttu augnabliki). Brátt varð mér þó ljóst að þetta var bara harmleikurinn sem ég spáði, ef eitthvað þá bjóst ég við jafnvel stærra tapi. Það hefði örugglega orðið raunin ef að Skotarnir hefðu ekki verið svona varfærnir, þeir ætluðu bara að hanga á sínu og tókst það.

Fyrir ári síðan skammaðist ég yfir ruglinu hjá Atla að setja sterkasta miðvörðinn á kantinn trekk í trekk, brandarinn auðvitað sá að það átti að vera taktískt snilldarbragð sem er bara hreint grín. Núna var Hermann meira í miðvarðarstöðunni en þá toppar Atli sig og setur leikstjórnanda íslenska liðsins, Rúnar Kristinsson sem að var þvílíkt frábær á miðjunni í Frakkaleiknum, út á kantinn. Væntanlega annað taktískt snilldarbragð.

Fyrsta spyrna leiksins sýndi leikstílinn sem Atli lagði fyrir, neglt fram og láta framherjana elta boltann. Ég hefði aldrei ráðið Atla, hann er örugglega vænsti strákur og vill vel en landsleikir eru nokkrum stigum fyrir ofan hans getu, að minnsta kosti eins og er. Íslenska landsliðið er ekki skólavist fyrir þjálfara, þeir bestu eiga að fá að stjórna því, ekki þeir sem eru nýgræðingar.

Spaugið kom um kvöldið, Spaugstofan komin aftur eftir alllangt hlé og verð að segja að þeir koma vel undan feldi. Mikið skotið á Davíð sem á allt þetta og meira til skilið. Kaldhæðnin mun beittari nú en áður, ef mig minnir rétt.

Uncategorized

Núðlur námsmannsins

Eftir morgunógleði (feginn að vera ekki stelpa… þá hefði ég þurft að hugsa um fleira en magakveisu) greip mig fítonkraftur í hádeginu og ég fór út vopnaður laufhrífu og sóp, 5 svartir ruslapokar fullir af laufblöðum voru afraksturinn. Mig grunar að 2 þeirra séu vegna trjáanna í garði nágrannans, öll trén hjá honum orðin kviknakin. Þröstur Þrastarson sýndi verkum mínum mikinn áhuga, hann kom í garðinn til að hægja á sér sýndist mér, í beðið þannig að það var í lagi, og vappaði alveg upp að mér og virtist vera í leik við hrífuna. Hann goggaði í einn orm sem hann fann en skyrpti strax út úr sér, enda ekki mjög mikill stærðarmunur á þeim.

Bjó til nýjan rétt sem ég kalla Núðlur námsmannsins, líklega eru til fleiri með sama nafni en þetta er mín útgáfa. Ég var einn heima, við áttum núðlur en allt kjöt var í frysti. Því greip ég einn tómat, eina ananasdós og eitt konfektepli, bútaði allt niður og henti á pönnu og leyfði að malla þar á meðan að núðlurnar suðu. Léttur málsverður, ódýr og örugglega nokkuð hollur. Dósin hefði reyndar verið heldur seig undir tönn þannig að ég notaði aðeins innihald hennar.

Þingmaðurinn Pete Stark (Demókrati) frá Kaliforníu hittir alla naglana á höfuðið með þessu eina höggi sínu, því miður gekk ályktunin eftir og fátt sem getur stöðvað George W. Bush í að verða valdur að dauða hundruða þúsunda manna og bágari lífskjara heima fyrir og í Miðausturlöndum.

Sumir taka starf sitt öðrum tökum en aðrir, tveir starfsmenn dýragarðs í Þýskalandi átu 5 hænur og 2 kindur sem að börn fengu að klappa.

Ekki get ég sagt að mig langi mjög mikið á Hotel Dieu-sjúkrahúsið í Frakklandi. Pípari fann núna um daginn rotnandi lík í kjallaranum sem var íklætt sjúkrahúsfötum. Rannsókn stendur yfir á því hvort að um hafi verið að ræða sjúkling sem að gleymdist eða útigangsmann sem stal fötunum og kom sér fyrir í kjallaranum. Ónefndur starfsmaður sjúkrahússins segir undir nafnleynd að sjúkrahúsið týni 7-8 sjúklingum ár hvert. Hvernig ætli staðan sé á illa reknu og fjárþurfi sjúkrahúsunum okkar? Æi já… við sendum fólk heim og látum það rotna þar í staðinn fyrir að gera aðgerðir sem eru nauðsynlegar og sjálfsögð mannréttindi!

Franska ríkisstjórnin er núna komin í ham með siðavendnina (les: afskiptasemi af einkalífi fólks), nýjasta útspilið gegn klámi er að leggja 93% skatt á klámmyndir! Mér finnst klámmyndir einstaklega óspennandi en af hverju ætti það að ráða því að aðrir njóti þeirra?

Uncategorized

Kynlíf, klám og Internetið

Af kynlífi er það helst að frétta að sítrónusafi er allra meina vörn, áður fyrr var hann mikið notaður sem getnaðarvörn (hann steindrepur sæðisfrumur) og vísindamenn eru víst að enduruppgötva hann nú þessa dagana en síðustu áratugi hefur ekki verið tekið mark á neinu sem var ekki illa þefjandi og framleitt á tilraunastofum í heimi læknavísinda. Svo virðist sem að sítrónusafinn dugi einnig gegn HIV-veirunni. Þeir sem vilja æstir prófa geta lesið leiðbeiningar í greininni.

Þjóðverjarnir leyfa manni nú að skeina sér á orðum annara, í bókstaflegri merkingu þess orðs. Klo-Verlag framleiðir nú klósettrúllur þar sem er að finna ljóð og sögur eftir þekkta höfunda. Mörgum þykir gott að lesa á klósettinu og þetta leysir það mál. Þeim sem er illa við viðkomandi ritsmíð geta svo notið þess tvöfalt að skeina sér.

Eitthvað er veruleikafirring að naga hana Julie Jules í Ástralíu. Hún er framkvæmdastjóri Internetfyrirtækisins TPG og er búin að hóta einum starfsmanna sinna brottrekstri ef hann hættir ekki að biðjast fyrir í vinnunni. Hann tekur sumsé tvær 5 mínútna pásur í vinnunni á hverjum degi og biður til Allah. Hann líkir þessu við það þegar aðrir starfsmenn taka sígarettuhlé (mig grunar reyndar að það sé MUN meira en 10 mínútur á dag sem þeir taka…) en hefur samt boðist til þess að vinna 10 mínútum lengur ef það settlar hana Julie. Hún er alveg gallhörð kerlingin: “I just can’t have people taking breaks whenever they want. We run a business here.”

Harry Potter hefur verið rakkaður niður í skriftarstólum kristinna manna víða um heim en nú er komin út skýrsla frá CBTI (samtökum kirkjudeilda Bretlands og Írlands) þar sem hvatt er til þess að honum sé hampað.

Ekki vildi ég vera íbúi í Shanghæ þess dagana. Þar er rembingur embættismanna við að vera tekin alvarlega af umheiminum (íslandssyndrome) það mikill að bannað er að fljúga flugdrekum víða (sums staðar vegna háspennulína) og ekki má hengja þvottin út að stórgötum borgarinnar.

Þeim sem vilja fara í geiminn bendi ég á að hægt er að sækja um það í þætti í rússnesku ríkissjónvarpinu 1TV, 16 þáttakendur verða valdir og einn þeirra mun svo fara í vikugeimferð ásamt tveimur atvinnugeimförum.

Önnur frétt af kynlífssviðinu er sú að hægristjórnin í Frakklandi ætlar nú að gerast siðavönd (les: unna öðrum ekki einkalífs) og er nú farin að handtaka vændiskonur og viðskiptavini þeirra.

Eins og við er að búast er ég ekki hættur í kynlífinu, klámiðnaðurinn er nefnilega einn sá tæknivæddasti í heimi og nú eru klámkóngar að vinna að því að búa til raddstýrða gagnvirka ríðingadiska á DVD-formi þar sem hægt er að hrópa hvað eigi að gera og þá taki það gildi (hraðar! hraðar!). Margir hafa sagt að tæknistig Internetsins væri mun lægra ef ekki væri fyrir klámið, ég er raunar efins um það sjálfur.

Talandi um Internetið þá er nú í gangi í Bandaríkjunum alveg brilljant framtak, Internet Bookmobile. Þetta er bíll sem ekur á milli staða og prentar út bækur af vefnum fyrir þá sem þess óska. Þetta er brilljant framtak sem er til að vekja athygli á Mikka Mús-lögunum svonefndu, en stórfyrirtækin reyna nú allt hvað þau geta að láta einkarétt haldast fram í hið óendanlega á ritverkum. Eins gott að Voltaire og félagar voru ekki með svona samsteypu á sínum tíma, þá gætum við verið að borga þrefalt fyrir að lesa verk þeirra.

Smá fótboltafrétt að lokum, flestir muna eftir Pierluigi Collina, sköllótta dómaranum með brjálæðislega svipinn og útstandandi augun. Þessi frétt greinir frá því að hann missti hárið vegna sjúkdóms sem þekktur er sem alopecia areata og talið er að 1% manna þjáist af honum. Mig minnir að einn félagi minn í menntaskóla hafi einmitt verið orðin nær sköllóttur við útskrift. Collina er að taka upp hanskann fyrir þá sem þjást vegna þessa sjúkdóms, aðallega vegna þess hvernig litið er á þá sem eru hárlitlir eða sköllóttir.

Malcolm in the Middle byrjaður aftur, algjör æpandi snilld!