Listin að vera listamaður

Sá í gærkveldi seríu á PoppTíví þar sem sýnd voru samfleytt þó nokkur myndbönd frá Fatboy Slim. Hafði heyrt ýmislegt um sum þeirra en ekki náð að sjá þau sjálfur áður, það vill gerast þegar að lítið er horft á sjónvarp. Fatboy verið í miklu uppáhaldi í líklega ein 7 ár núna hjá mér, Santa Cruz minnir mig að hafi verið fyrsta lagið sem ég heyrði með honum. Það væri gaman að fara í Höllina að sjá hann á Airwaves, EN… það kostar slatta og ég er hættur að nenna að fara á svona megastórt dæmi, ég vil njóta góðra hluta í fámennari hópi.

Verst að Fatboy kostar aðeins meira en ég hef efni á, annars væri fínt að fá hann til að halda gargandi partý þar sem maður gæti boðið öllu skemmtilega fólkinu sem maður þekkir, það væri snilld. Kannski eftir einhver ár þegar ég er búinn að safna í Fatboy-sjóð.

Myndböndin hans eru annars tær snilld og krafturinn í honum þar sem hann er að halda risatónleika á strönd Brighton er ótrúlegur. Fatboy Slim, Chemical Brothers, Orbital og Underworld eru gamlir og góðir vinir mínir. Tónlist hefur ótrúlega mikil áhrif á mann.

Fyrst ég er á listrænum nótum (því að ofangreindir tónlistarmenn eru allir listamenn) þá var ég að lesa grein sem fær mann enn einu sinni til að velta því fyrir sér hvernig margir frægir listamenn myndu plumma sig nú til dags. Jacob Martinez er sumsé listamaður sem að var spáð alveg gífurlegum frama og var að brillera með brjálæðislegum verkum sínum. Hann snappaði svo endanlega 24 ára eftir talsverðar geðraskanir, kveikti í gamla skólanum sínum og var í 5 ár á geðsjúkrahúsi. Núna er hann á lyfjablöndum sem eiga að halda honum í norminu, það hefur hins vegar þau áhrif að verk hans nú eru miklu daufari og talin síðri af flestum sem fylgdust spenntir með verkum hans þegar hann var sem bestur.

Van Gogh endaði líf sitt í mikilli geðveiki, en síðustu verk hans eru jafnframt talin þau bestu, snilldin aldrei meiri en þegar geðveikin var sem hæst. Hvað ef hann hefði fengið svona lyfjablöndu, hefði hann þá málað mörg af þeim málverkum sem í dag seljast á milljarða? Hefði hann málað síðri myndir? Jacob Martinez er sáttur við sjálfan sig í dag, hann vill frekar vera heill á geði en frábær listamaður á ystu nöf geðveikinnar, ætli van Gogh hefði ekki tekið því sama fegins hendi. Eitt mannslíf er stærra en nokkur málning á striga.

Ófreskjan sem að er Roy Keane var að fá 5 leikja bann og 150 þúsund punda sekt fyrir geðsjúklingsbrot sem hann framdi á Alf-Inge Haaland. Mér finnst það reyndar léttvægt miðað við þau brot sem eru talin upp á þessari syndasíðu, Robbie Fowler fékk 6 leikja bann, nema hvað það var fyrir að þykjast sjúga endalínu upp í nefið (sumsé kókaín). Í minni bók er það mun alvarlega að ætla að meiða einhvern en að svara fyrir orðróm sem að var í blöðunum með því gantast aðeins. Það er víst svo að dómarar virðast almennt oft hafa öðruvísi gildismat en almennir borgarar, sama í hverju er verið að dæma.

Talandi um dómara, Ísland var að vinna Litháen 3-0 á Laugardalsvelli, dómarinn var frekar slappur en ætli við getum ekki þakkað honum sigurinn þar sem að Litháar voru 10 talsins í 70 mínútur. Íslenska liðið var sprækara en á móti Skotum, munaði mest um nafna minn Jóhannes Karl Guðjónsson sem var á fullu að reyna að skapa færi. Atli er í dýrasta knattspyrnuþjálfara skóla sem um getur, hann hefur greinilega lært aðeins heima eftir fallið um helgina. Núna þarf hann bara að láta þá Guðjónssyni spila alla á miðjunni, fá Tryggva á vinstri kantinn og þá förum við að geta sigrað aðrar þjóðir sem eru með fullskipuð lið, síðustu 2 sigurleikirnir (Andorra gæti aldrei talist með) voru gegn 10 manna liðum Tékka og Litháa.

Comments are closed.