Uncategorized

Kemur með kalda vatninu

EJB fimleikar halda áfram, þetta er að hafast, frekar óspennandi dæmi samt. Lokaverkefni annarinnar verður víst keimlíkt þessu… mikið fjör í desember sýnist mér.

Það er búið að staðfesta það í Hæstarétti Þýskalands að makaskipti eru löglegt athæfi! Þetta er niðurstaða dómsmáls sem að hófst í Bæjaralandi og fór fyrir æðsta dómstól Þýskalands.

Hetja hefur nú stigið fram og tekið íkornann grimma (sem ég minntist á í gær) endanlega úr umferð. Afi lítillar stelpu sem íkorninn réðst á sá að þetta gekk ekki og fór því til móts við kvikindið vopnaður loftriffli.

Nú er búið að leggja fram niðurstöður greiningar bresks tryggingafyrirtækis á bílslysum. Konur bakka oftar á, eru tvisvar sinnum líklegri til að lenda í árekstri á bílastæði og lenda oftar á kyrrstæðum bílum en karlar. Karlarnir hins vegar valda alvarlegri árekstrum en konur

Uncategorized

EJB, að nota sleggju þegar flísatöng væri betri

Rakst á ágætis viðtal við Quentin Tarantino, barnaefni, morgunmatur, leikföng, bíómyndir og fleira og fleira ber á góma. Tarantino í miklum ham, hann er ekki fámáll maður.

Einhvern veginn þá virðist alltaf vera til nóg af vitlausu fólki sem ætlar að redda sér peningi án fyrirhafnar, hvort sem það er með því að kaupa fullt af hlutabréfum í fyrirtækjum sem ekki eru einu sinni með skýra stefnu og enga vöru eða með því að ræna banka (og halda að maður sé ósýnilegur). Það þarf ekki einu sinni að telja upp öll pýramídaskemun sem áttu að gera alla Íslendinga ríka.

Hvernig heill bær getur lifað í ótta við íkorna er fjarri mér, ég hefði haldið að það væri ekki það mikið mál að stúta svona mannýgu kvikindi?

Ég er einn af ótalmörgum nemum sem að rífa hár sitt nú í kvöld, Enterprise Java Beans að fara verulega illa með marga í verkefni 4 í skólanum.

Uncategorized

Textasmiðurinn Kókó

Tónlistarunnendur mega ekki láta disk með textum eftir górilluna Kókó framhjá sér fara!

Vefritið Salon greinir frá nýrri plötu Sigur Rósar í dag. Fyndið komment að platan sé eins og “the bastard offspring of Enya and Radiohead”. Hef hlustað aðeins á þessa plötu, finnst hún alveg boðleg en ekki alveg að gera mig orðlausan.

Vorum að skoða kort af hverfinu í Símaskránni (reitur J16), eitthvað hefur hann verið skjálfhentur sá sem merkti inn kirkjurnar, samvkæmt kortinu hefur kirkja Óháða safnaðarins hoppað eina 100 metra eða svo, yfir eina götu og í næsta hús við okkur. Hvaða fleiri villur ætli mega finna á þessum kortum?

Áhugavert:

  • How the world sees Americans
  • Uncategorized

    Blaðamaturinn

    Morgunblaðið hefur tekið smávegis útlitsbreytingum undanfarið, mjög svo módellað eftir erlendum fyrirmyndum, einkum frá Bretlandi sýnist mér.

    Bresku blöðin eru misvönduð, The Sun og The Daily Star eru svona í tæpari kantinum eins og sést á viðbrögðum þeirra við því þegar að ungur afbrotamaður vann 800 milljónir í lottói. The Sun vill láta banna þátttöku afbrotamanna í lottóum sem er bara brandari.

    Góðar fréttir fyrir sjúklinga, á næsta ári verður sett efni á markað sem unnið er úr kannabis. Efnið er víst með þeim róandi og verkjaeyðandi áhrifum sem kannabis hefur, en með lágmarks vímueiginleikum.

    Í Fréttablaðinu í dag fer Kristín Helga Gunnarsdóttir með ótrúlega staðleysu þar sem hún tengir saman voðaverk og tölvuleiki. Hún bítur höfuðið af skömminni með því að segja að sálfræðingar og sérfræðingar hafi fundið “beina tengingu á milli morða og ofurhetja kvikmynda og tölvuleikja”. Fyrir það fyrsta þá hef ég aldrei séð rannsókn sem að kemst að þessari niðurstöðu, margar hafa farið af stað einmitt til að sanna þetta en aldrei náð því. Í annan stað þá er eðlismunurinn á kvikmyndum og tölvuleikjum geysimikill, annað er óvirk þátttaka en hitt er virk þátttaka þar sem þú berð ábyrgð gagnvart samfélaginu (öðrum spilurum) og verður að standa með verkum þínum (þeir sem eru með leiðindi og læti eru bannaðir oft).

    Tengingar hennar svo við hryðjuverkamenn og hermenn er fádæma ósmekkleg og ekki sæmandi manneskju sem þykist vera komin til vits og ára. Nú er bara að grafa upp netfangið hennar og senda henni bréf sem varpar ljósi á villigötur hennar og beinir á betri braut.

    Uncategorized

    Skoðaður 03

    Skipt um spindilkúlur, og annað í bílnum sem ég kann ekki að nefna, í dag og bíllinn fékk því skoðun (enda vel með farinn). Í fyrsta sinn sem skipt er um þessar kúlur, telst mjög gott að það sé gert í fyrsta sinn eftir 15 ár! Mikil völundarsmíð sem Mazdan mín er og ég gef hana ekki upp á bátinn fyrr en hún liggur ónýt einhver staðar.

    Allsvakalegur árekstur sem varð í gær í Los Angeles, 41 slasaðist í árekstri 198 bíla. Það er nær alltaf idjótinn sem er að flýta sér og er ekki að taka eftir umferðinni í kringum sig (sem var stopp! halló!) sem veldur svona dæmi, og ótrúlega oft sleppa þessir idjótar lífs af og geta því haldið áfram að eyðileggja líf annara með ámóta frammistöðu seinna meir. Í fangelsi með svona lið og ævilangan skírteinismissi!

    Þeir eru að gefa út skemmtileg jólakort núna fyrir góðgerðarstarfsemi í Bretlandi. Þemað er gamla lagið hvað ástin gaf (“On the twelfth day of Christmas my true love gave to me”), betur þekkt sem hvað “jólasveinninn gaf” hér á landi í flutningi Gláms og Skráms. Á kortunum má meðal annara sjá David Seaman með flautu í hönd umkringdan litlum börnum. Kærastan hans er víst ekki mikið eldri en börnin! Einnig má þarna sjá trommaralandslið Breta, sápuóperustjörnur, hoppandi lávarða og súpermódelið Caprice.

    Þeir eru undarlegir hryðjuverkamennirnir sem Bandaríkjamenn handsama núna. Grey kallinn að fara eins og venjulega að ná sér í bensín og er þá bara orðinn hryðjuverkamaður!

    Júgóslavar virðast vera komnir næst því allra þjóða að geta flogið, þeir virðast að minnsta kosti geta lifað af fall úr mikilli hæð, hver á eftir öðrum.

    Sá áðan að Emelíana Torrini er með lag í Hringadróttinssögu 2. Glæsilegt hjá henni, einmitt búinn að vera hlusta aðeins undanfarnar vikur á diskinn hennar “Love in the Time of Science” sem er fínasti gripur. Það er töggur í henni, maður hefur vitað það frá því að maður varð var við hana í Vesturbænum (í Kópavogi… alvöru vesturbær!) fyrir mörgum mörgum árum.

    Uncategorized

    Mest lítið nema Harry Potter

    Ekki merkileg helgi hjá mér. Vann aðeins í síðasta Java-skilaverkefninu, enn er nóg eftir að klára fyrir fimmtudaginn.

    Fór þó í dag og festi kaup á miðum á Harry Potter and the Chamber of Secrets í Lúxussal Sambíóanna þann 23. nóvember. Þann dag fer ég einmitt í síðasta prófið og tilvalið að halda upp á það með bíóferð.

    Þegar fyrsta Harry Potter myndin kom grennslaðist ég einmitt fyrir um það hjá þeim SAM-mönnum hvort að hún yrði ekki í Lúxussalnum. Svo var ekki og lét ég í ljós vanþóknun yfir því. Þeir hafa svo séð að það er allstór hópur fólks yfir 16 sem að vill sjá þessa mynd og er til í að borga tvöfalt fyrir þau forréttindi að hafa ekki öskrandi krakka í salnum.

    Þetta verður fyrsta ferð okkar í lúxussal, ég hef einu sinni komið í þann í Smárabíói en það var á fund þannig að það telst ekki alveg með.

    Uncategorized

    Grímuball hið annað

    Nú er rúmt ár síðan að Sigurrós og félagar í Kennó voru síðast með grímuball í Stúdentakjallaranum þar sem við skötuhjúin slógum í gegn sem franskt hefðarpar.

    Í kvöld var haldið annað grímuball, núna á Astró þar sem þau fengu staðinn til afnota til miðnættis (þegar pöpulnum er hleypt inn). Fréttir af því hvernig það tókst til má væntanlega fá á morgun þar sem að ég fór ekki með að þessu sinni. Ég ekki alveg rétt tjúnaður til að fara á grímuball núna (síðustu skilaverkefni annarinnar stór og mikil) hvað þá á Astró, ég mjög sáttur við sjálfan mig fyrir að hafa ekki enn stigið fæti inn á þann stað (kom síðast þangað þegar þetta hét Berlín… nokkur ár síðan að það var).

    Von mín um að kíkja í fótbolta á morgun með vinnufélögunum varð að engu í dag, ég var að vona að vinstri löppin gæti dugað ef ég hlypi ekki mikið en annað kom á daginn í dag. Færði allan þungann yfir á vistri löppina í dag og þá var engu líkara en að fóturinn hefði brotnað, skerandi sársauki og ég er draghaltur. Gigtin greinilega orðin svæsin og nú er bara spurning um að fara að gylla knattspyrnuskóna og setja á góðan stað, ég hef alltaf haldið í örlitla von en nú held ég að síðasti neistinn sé dáinn (nú nema ég láti klippa hana af og fái mér gervifót, þyrfti ekki að klippa nema við ökkla!).

    Uncategorized

    Nýr vefur

    Vil óska þeim feðgum Simma og Jóni Inga til hamingju með vef þess síðarnefnda, smíðaður af þeim fyrrnefnda.

    Að öðrum málum, smáborgarahátturinn sem að hrjáir borgarráðsmenn víða um heim er kominn til Berlínar, þar hefur söluleyfi báss sem að selur bratwurst-pylsur (alls óskylt íslenskum pulsum) ekki verið endurnýjað þar sem að svæðið við Brandenborgarhliðið er nú orðið að of fínt með rándýrum veitingahúsum allt í kring. “Hér ríkja hinir ríku, burt með aðra” er mottó þessara smáborgara, hvort sem er í Berlín, Kína eða annars staðar þar sem smásálir komast í valdastöður.

    Fleiri smásálarfréttir berast frá Japan, Austur-Asíubúar virðast allra þjóða duglegastar í því að vilja komast í snertingu við frægðarljóma stjarnanna, kannski helgast það af því hversu ofboðslega fjölmennar þær eru og einstaklingshyggja illa séð. Nýjasta æðið í Japana er að sofa í herberginu sem Beckham gisti í á meðan að á HM2002 stóð yfir. Hótelið mokar inn peningum hægri vinstri á þessu, einkum sökum þess að það gefur ekki upp í nákvæmlega hvaða herbergi á 10. hæð þess Beckham svaf.

    Dómarar gera mistök eins og aðrir, leikmenn Stade Olympique l’Emyrne (Madagaskarmeistarar í fyrra) sýndu óánægju sína með dómarann í leik þeirra gegn nýkrýndum meisturum AS Adema með því að skora hvert sjálfsmarkið á fætur öðru! Nokkuð sem mér finnst óhugsandi og enn svakalegri er lokatalan, 149 – 0 ! Leikmenn l’Emyrne sumsé spörkuðu knettinum jafnóðum frá miðju og í eigið mark án afláts á meðan að leikmenn AS Adema horfðu furðu lostnir á og hreyfðu hvorki legg né lið.

    Pútín virðist hafa einhvern snilling á bakvið sig til að tryggja ímynd hans, það nýjasta er að hann er nú gerður að kyntákni í vinsælu dægurlagi í Rússlandi. Rússar eru vanir miklum fórnum og dauði 119 manna úr gaseitrun er bara dropi í hafið. Stalín drap milljónir þannig að þetta er allt á réttri leið.

    Uncategorized

    Vímuefnin

    Kósíkvöld í kvöld, Sigurrós byrjuð í vetrarorlofi (enda kennaranemi) og því fengum við okkur piparsteik og bökunarkartöflur og með þessu var Piat D’Or haft við hönd. Til að rúnna þessu upp var svo Le Petit Écolier sem eftirréttur.

    Talandi um vín, þá er það löngu vitað að þessir miðar sem að segja frá “ávaxtakeim og eikarilmi” eru bull, það hafa rannsóknarmenn á Nýja-Sjálandi sannað (reyndar ekki stórt úrtak).

    Svo maður haldi áfram með vímuefnin þá voru Norður-Kóreumenn að verðlauna lyfjablöndu úr kannabis, rabbabara og einhverju fleiru sem þykir undrameðal gegn hægðatregðu.

    Besti staðurinn til að búa á Bretlandi ku vera bærinn Alnwick, þar gnæfir kastalinn, sem notaður var í Harry Potter myndunum, yfir þessum 8.000 manna bæ.

    Í dag gerðist ég grimmur við bankareikninginn og fjárfesti í Logitech Mouseman Dual Optical, músarmottu og handfrjálsum búnaði fyrir gemsann (lögin taka gildi á morgun). Þetta voru 10 þúsund krónur takk fyrir, músin rúmur 6 þúsund kall enda gæðamús.

    Uncategorized

    Rússarnir koma!

    Sem mikill áhugamaður um tungumálanám þá verð ég að segja að þessi síða er algjör snilld. Þarna má læra spænskt orð dagsins með aðstoð Flash, útfært á spaugilegan hátt.

    Rússar voru fyndnir í bíómyndinni sem ég horfði oft á forðum daga. Við áttum hana á myndbandi og ófáum sinnum var horft á hana (sem og hin 150 myndböndin sem við áttum, allt flokkað og númerað, nú allt horfið).

    Rússar eru ekki lengur fyndnir bara sorglegir.

    Rússar hafa nú loksins viðurkennt hvaða gas það var sem þeir notuðu, ef greint hefði verið strax frá því hefði mátt bjarga mörgum mannslífum. Skrifræði og hroki embættismanna lætur ekki að sér hæða þó að líf liggi við.

    Meira af speki Rússa, nú eru þeir að fara að lækka giftingaraldur niður í 14 ár (úr 16), á sama tíma eru þeir að fara að hækka aldursmörkin fyrir kynmök upp í 16 ár (úr 14). 14 ára grislingar munu því líklega geta gift sig en ekki stundað kynlíf fyrstu tvö árin. Snillingar.

    Gaman að sjá hvað Donald Rumsfeld leikur sér í dótakassanum sínum. Núna má bara forsetinn vera “Commander in chief”, allir þeir níu sem hafa borið þann titil hingað til verða að vera Commander yfir einhverju öðru. Nú vantar bara einhverja úr Löggulífi til að koma með hugmyndir að nýjum búningum fyrir herinn svo hann verði flottur, hvar sem er í veröldinni sem að Rumsfeld vill leika sér.