Uncategorized

Reykjavík – Selfoss – Sælukot

Náði í hjólið mitt í viðgerð í dag, einhver skál sem hélt utan um legurnar var farin að springa og það þurfti víst bara að skipta um hana.

Eftir vinnu skruppum við Sigurrós á bókasafnið í Sólheimum, þar er búið að breyta talsvert skipulaginu en ég fann mér tvær kiljur og Sigurrós sópaði heilli hillu af nýjum kiljum frá nýja uppáhaldshöfundinum í pokann sinn.

Því næst var farið heim þar sem við pökkuðum niður því sem þurfti því að förinni var heitið á Selfoss og þaðan í Sælukot.

Þegar þangað var komið reyndist vatnsdælan vera okkur óþæg og því bárum við vatn frá læknum til að nota. Tengdó og Haukur drifu sig til okkar til að kíkja á dæmið en fundu ekki út úr því, dælan gekk og gekk en dældi ekki.

Uncategorized

Reykjavík – Keflavík – Reykjavík – Selfoss – Reykjavík

Það er urrandi fjör í vinnunni, dagurinn líður svo hratt að maður er rétt nýmættur þegar maður fer heim. Skaust til Keflavíkur í morgun við annan mann og vorum við þar til hádegis, eftir hádegi var það svo aftur á Selfoss. Samferða mér þangað voru vinir mínir í Beastie Boys, gömul safnspóla sem ég bjó til með þeim fyrir um níu árum held ég. Laglaus maðurinn ég söng hástöfum með enda einn í bíl og fáir saklausir í hættu.

Dapurleg tíðindi, stuðningsmenn nýkrýndra Afríkumeistara ráku fánastangir upp í rafmagnslínur og drápust eða stórslöðust. Sigurvíman er ekkert minna hættuleg en aðrar stundum.

Uncategorized

Lífstíðarsvipting

Skrapp í útibúið á Selfossi í dag og kætti þar viðstadda með spánýrri tölvu og TFT-flatskjá sem ég smellti upp hjá þeim í stað eldri (mun mun eldri) vélar.

Á heimleiðinni dúkkaði upp einhver drapplitaður station bíll í rassinum á mér og hélt sig þar sveigjandi til og frá að kíkja allt þangað til að við komum að Kömbunum. Þá fór ég yfir á vinstri akrein þar sem tvöfaldast til að fara framúr hægfara bíl, haldiði ekki að drapplitaði félaginn hafi þá gert sér lítið fyrir og farið framúr mér.. yfir tvöfalda línu í brekku í beygju í Kömbunum! Ég flautaði auðvitað á fávitann og langaði svo innilega til að spýtta sjálfur í og elta heilaskaddaða manninn uppi og taka af honum bíllykla og ökuskírteini. Þetta gerði ég þó ekki enda hefði það getað valdið slysum.

Fyrir svona ótrúlegan fávitagang ættu menn að missa skírteinið til æviloka, ekkert flóknara en það. Þetta er eins og að ganga um með hlaðna byssu niðrí bæ og sveifla henni um, þú getur drepið einhvern á augabragði með svona asnaskap. Svona menn á að svipta á staðnum og þeir eiga ekki að sjást á götum úti nema sem farþegar eða þá á reiðhjóli eða fótgangandi.

Uncategorized

Týnda skrifstofan

Fínn dagur í vinnunni, það fannst skrifstofa þar sem ég mun hafa aðsetur. Fannst í bókstaflegri merkingu, allir höfðu gleymt henni þar sem hún var bak við skáp og kaffivélin þar nálægt þannig að enginn hafði augun hjá sér til að taka eftir skrifstofunni.

Ég var því snöggur að koma mér upp aðstöðu og setti upp nýju flottu vélina sem ég mun nota, hún er með verulega flottum TFT-flatskjá. Já mér finnst tölvur oft verulega flottar, 17″ PowerBook frá Apple er til dæmis geggjuð. Bílaáhugamenn geta skipt þessum nafnorðum út fyrir Porsche og Ferrari Mercedes.

Það er mikið að gerast í heimi karlmennskunnar. David Beckham sem er leikmaður Manchester United (foj) er allra manna duglegastur að innleiða virðingu fyrir mjúka manninum í Bretlandi. Hann fær ótal prik í kladdann frá mér fyrir frammistöðu sína í því efni.

Ofurhjartaknúsarinn Richard Chamberlain hefur loksins viðurkennt það að hann er samkynhneigður, hann er orðinn ern karlinn en það eru margar stúlkurnar á miðjum aldri sem kiknuðu í hnjánum oftar en einu sinni vegna hans á síðustu öld.

Það eru stundum birtir ágætis pistlar á vef fyrirtækisins með ljóta lógóið og bæklaða nafnið, þessi grein um viðbrögð við niðurstöðum rannsóknar á netnotkun barna er til dæmis prýðisgóð og bendir á barlóminn sem hér viðgengst (og ofanritaður iðkar vissulega enda auðveldara að benda á það sem er að).

Að lokum er merkilegt að sjá hægrisinnaða (óháða haha!) vefritið Deigluna lýsa eftir minni samkeppni og meiri samhug á meðal íslenskra fyrirtækja! Deiglupennarnir eru flestir svo sem ágætir greyin, þeir gera sér grein fyrir því að hér var stofnað samfélag, ekki frumskógur eins og öfgamennirnir á tveim eða þrem ónefndum vefritum halda.

Uncategorized

Heillaóskir

Já, heillaóskir til Bjarna og Unnar. Ég hef heyrt því fleygt að ég gangi upp að altarinu á þessum áratug en sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Uncategorized

Rassaspark

Allur að verða hinn kátasti núna, öndun að komast í lag. Fyrsta grill sumarsins í dag, grilltæknin aðeins farin að ryðga en kemst fljótlega í lag.

Í gær gleymdi ég auðvitað að minnast á það að mamma vann sitt fyrsta alvöru golfmót, efst af 60-og eitthvað keppendum.

Í gær gleymdi ég líka að lýsa yfir viðbjóðinum sem eru sólarhringsvaktir unglækna. Hvers konar heiladauðir apakettir komu því á? Ég vil endilega hafa þá sem eru með mitt líf og annara í höndunum ferska og færa um að taka réttar ákvarðanir, ekki örþreytta og útkeyrða. Það þarf að fara með vönd inn í þetta heilbrigðiskerfi og taka til, hellingur af því sem þar er að eru smákóngasamningar sem gera allt hægvirkara og verra en það þyrfti að vera.

Í gær gleymdi ég líka að lýsa yfir “aðdáun” minni á tollyfirvöldum sem leggja háa tolla á rándýr hljóðfæri sem afreksfólk í tónlist þarf að notast við til að geta tekið þeim framförum sem það þarf. Tollverðir eru svo að nappa fólk með þetta, gera hljóðfærin upptæk og sekta að auki greyin sem vilja bara bæta sig.

Þessi grein á Deiglunni er einhver sú tilgerðarlegasta sem ég hef séð. Kaffi er vín hins vinnandi manns… eru þá þeir sem ekki vinna rónar?

Erfitt er að finna góðan samanburðarhóp sem drekkur ekki kaffi. Þeir fáu sem ekki drekka kaffi skera sig úr að mörgu öðru leyti líka

Já ætli ég skeri mig ekki úr að mörgu öðru leyti líka, ég drekk til dæmis ekki heldur bjór! Ég er því alveg svakalegur í samanburðarhóp.

Jamm.. ég er vaknaður og alveg urrandi yfir öllu ruglinu sem er í gangi og nefni þó hvergi ákveðna litla stjórnmálamenn með prik í rassinum og kver fyrir framan sig sem þeir jarma upp úr.

Uncategorized

Framför

Allur að skána enda helgin að enda og vinnuvika að byrja… dæmigert.

Jæja, hitinn að mestu farinn og þá fer heilastarfsemin aftur í gang… að mestu. Það var eitthvað sem ég ætlaði að tjá mig um en man ei lengur hvað það var. Komst á (ein) endimörk EVE í dag þó.

Formúlan á morgun! Tékka á henni loksins.

Uncategorized

Bilaður

Hiti, kvef í auga og nefi. Hef verið í betra ástandi, þessi kósíhelgi fer víst ekki langt í það að ná því markmiði.

Duglega konan mín snýst í kringum mig og heldur öllu gangandi.

Það væri ágætt að tjá sig um Davíð sem lýsti um daginn yfir vonbrigðum með kosningabaráttu sem snérist um skítkast í valda aðila, ég man ekki eftir neinu svoleiðis nema idjótískum auglýsingum ungra sjálfstæðismanna þannig að hann hlýtur að hafa meint þá… eða hvað?

Uncategorized

Stíbblaður

Stíflaður, með hellu fyrir eyrum og veit ekki hvað. Súper.

    Ljósu punktarnir:

  • Pabbi stillti hjólin okkar
  • Píparinn lagaði klósettið sem stíflaðist vegna framkvæmda í húsinu
  • Grillið er tilbúið fyrir sumarið
    Dökku punktarnir:

  • Hjólið mitt þarf að fá nýjar legur
  • Ég er drullukvefaður
Uncategorized

Fullur

Stútfullur reyndar. Kvefaður upp fyrir augnlok, reyndar er kvefið mest þar fyrir ofan.

Ljósi punkturinn í dag var að horfa á Stuðbolta-stelpurnar á myndbandi. Þessi mynd kom víst ekki í kvikmyndahús eins og maður vonaðist eftir fyrir nokkrum mánuðum síðan. Launfyndnar teiknimyndir, fullorðnir og börn eru ekki að sjá sömu myndina í raun.

Slappleiki undanfarinna daga hefur nú brotist fram í almennum aumingjahætti með massakvefi, hausverk og viðlíka ófögnuði.

Fékk umsögnina um lokaverkefnið í dag og þar var auðvitað öllu hrósað enda fengum við tíu. Eina sem mátti finna að var hvernig útskýringar okkar á verkefninu fóru fyrir ofan garð og neðan hjá kennurum við verkefnisskoðanirnar. Við leystum það mál í lokasýningunni þegar mest á reyndi með því að harðsjóða staðreyndirnar og koma með einstaklega almenna lýsingu.

Við Sigurrós ætluðum að hafa það náðugt saman núna í 4-daga helgi en það er spurning hversu skemmtilegt fríið verður með okkur bæði hálfslöpp… hún er vonandi ekki að smitast af mér.

Helvítin í AC Milan unnu víst keppni stórliða Evrópu í kvöld. Leikurinn var víst markalaus og leiðinlegur er mér sagt. Helvíti blóðugt að minn maður, Pavel Nedved, skuli hafa komið sér í bann… hann hefði skorað bæði mörkin í 2-0 sigri Juventus annars (sem mér er ekki illa við þó þeir séu ekki Lazio).