Týnda skrifstofan

Fínn dagur í vinnunni, það fannst skrifstofa þar sem ég mun hafa aðsetur. Fannst í bókstaflegri merkingu, allir höfðu gleymt henni þar sem hún var bak við skáp og kaffivélin þar nálægt þannig að enginn hafði augun hjá sér til að taka eftir skrifstofunni.

Ég var því snöggur að koma mér upp aðstöðu og setti upp nýju flottu vélina sem ég mun nota, hún er með verulega flottum TFT-flatskjá. Já mér finnst tölvur oft verulega flottar, 17″ PowerBook frá Apple er til dæmis geggjuð. Bílaáhugamenn geta skipt þessum nafnorðum út fyrir Porsche og Ferrari Mercedes.

Það er mikið að gerast í heimi karlmennskunnar. David Beckham sem er leikmaður Manchester United (foj) er allra manna duglegastur að innleiða virðingu fyrir mjúka manninum í Bretlandi. Hann fær ótal prik í kladdann frá mér fyrir frammistöðu sína í því efni.

Ofurhjartaknúsarinn Richard Chamberlain hefur loksins viðurkennt það að hann er samkynhneigður, hann er orðinn ern karlinn en það eru margar stúlkurnar á miðjum aldri sem kiknuðu í hnjánum oftar en einu sinni vegna hans á síðustu öld.

Það eru stundum birtir ágætis pistlar á vef fyrirtækisins með ljóta lógóið og bæklaða nafnið, þessi grein um viðbrögð við niðurstöðum rannsóknar á netnotkun barna er til dæmis prýðisgóð og bendir á barlóminn sem hér viðgengst (og ofanritaður iðkar vissulega enda auðveldara að benda á það sem er að).

Að lokum er merkilegt að sjá hægrisinnaða (óháða haha!) vefritið Deigluna lýsa eftir minni samkeppni og meiri samhug á meðal íslenskra fyrirtækja! Deiglupennarnir eru flestir svo sem ágætir greyin, þeir gera sér grein fyrir því að hér var stofnað samfélag, ekki frumskógur eins og öfgamennirnir á tveim eða þrem ónefndum vefritum halda.

Comments are closed.