Uncategorized

Sunnudagsræsingar

Já eitthvað er greyið mitt hann Pele að hvekkja sig á EVE, endurræsti sig þrisvar. Vonast er til þess að nýtt (og ódýrt) hljóðkort leysi þennan vanda á morgun.

Uncategorized

Laugardagstúrinn

Jújú við höfum tekið upp þann sið að fara saman í hjólatúr á laugardögum. Tvær helgar í röð og þetta lofar góðu.

Hreinsaði út eina hillu á bókasafninu og hef því nóg lesefni næsta mánuðinn. Hvenær lestrartími gefst er hins vegar annað mál. Það er nóg að gera í bæði EVE og ýmiss konar öðrum verkefnum.

Uncategorized

Tölvuraunir

Jæja ekki var þetta góður dagur á því sviði í einkalífinu (allt í sómanum í starfinu).

Náði í Maradona (fartalvan) en hann hafði verið í skoðun. Í ljós kom að móðurborðið er að bila illa og skipta þarf um það. Samtals er það 60 þúsund króna pakki. Þar sem hann er ekki lengur aðalvélin mín þá eru litlar líkur á að ég fari í þvílíka fjárfestingu.

Pele (aðalvélin) kom líka úr skoðun, hann hafði verið látin spila tölvuleiki við sjálfa sig og alls konar próf keyrð en aldrei restartaði hann sér eins og hann gerir einstaka sinnum hér heima, mjög hvimleitt að finna ekki ástæðuna, þetta gerist “bara af því bara” stundum. Þegar hann hins vegar fær ekki svona ruglhugmynd þá er hann alveg brilljant.

Diseases which kill millions of poor people every year are ignored by western firms because drugs to combat them make no money, a new research body said yesterday. (src)

Jamm. Fátækir borga ekki peninga fyrir lífsnauðsynleg lyf og að selja þeim lyfin á viðráðanlegu verði eyðileggur alveg fullt af viðskiptafræðilegum hugtökum.

Uncategorized

40 sólarhringar og svo miklu meira

Myndin 40 days and 40 nights varð fyrir valinu í myndbandstækið í kvöld. Fínasta skemmtun.

Talandi um kynhvöt og kynlíf (sem ofangreind mynd er um… eða réttara sagt ofgnótt af því fyrrnefnda og skort á hinu síðarnefnda) þá sá ég í dag niðurstöður rannsóknar sem bar saman kynlífshegðan Frakka og Bandaríkjamanna. Kanarnir eru lauslátari og meira fyrir skyndikynni á meðan að Frakkarnir eru meira fyrir langtímasambönd. Þetta vekur furðu margra Bandaríkjamanna. Konur yfir miðjan aldur lifa líka mun meira kynlífi í Frakklandi en í Bandaríkjunum.

Demókratar hafa nú hafið baráttu um hver hlýtur forsetakjörstilnefningu. Einn maður hefur tekið vefinn og blogg með trompi, réttara sagt starfslið hans.

Margir bíða líka spenntir eftir því hvort að Wesley Clark, fyrrum yfirhershöfðingi NATO, bjóði sig fram en hann þykir fluggáfaður og með viðamikla þekkingu á efnahags-, hernaðar-, mennta- og heilbrigðismálum svo lítið eitt sé nefnt. Vefir eins og þessi hafa verið settir upp þar sem þrýst er á hann að bjóða sig fram. Hann lítur að minnsta kosti mun betur út en litli Stalínistinn hann Bush.

Talandi um ný-alræðisöflin sem eru að rjúka upp vestanhafs og austan sem og hér á landi. Ef menn halda svo að algjörlega blind og hundsholl skrif þeirra Hannesar Hólmsteins og Stefán Einars séu einsdæmi þá verð ég að hryggja þá með því að benda á enn meiri vitleysing fyrir vestan, þar er Ann Coulter að fagna merkustu Bandaríkjamönnum 20. aldarinnar, þeim Joseph McCarthy, J. Edgar Hoover, Richard Nixon, Whittaker Chambers og Ronald Reagan.

Frá mörgu öðru fróðlegu er að segja, best að stytta þetta þó aðeins og benda á að:

Það var og – og er svo.

Uncategorized

Syndir og grjótkast úr glerhúsum

Kvöldið fór í að reyna að bæta fyrir syndir Microsoft-manna. Ekki tókst það og hvorugur aðilinn sem sóttur var heim í kvöld er kominn með allt sitt í lag, þökk sé kenjum Windows og reklum sem því fylgja.

Af Linux er það að segja að gleðilegri tíðindi komu úr þeirri átt.

Er það bara ég eða eru Ítalía og Bandaríkin farin að minna meira en örlítið á Sovétríkin og Austur-Þýskaland hvað varðar spillingu valdhafa, skert frelsi einstaklinga, hótanir í garð annara þjóða, ríkið ofaní hvers manns koppi og svo framvegis svo ekki sé minnst á allt Orwellian newspeak sem þaðan kemur?

Íslendingar eru reyndar að fikra sig í þessa átt eins og aukin harka lögreglunnar gegn þeim sem hafa aðrar hugmyndir en hún og valdhafar. “Stöðugleiki” er svo auðvitað margnotað Orwellian newspeak nema það sé hægt að segja að það sé stöðugleiki að nærri öll fyrirtæki eru að segja fólki upp? Það eru stöðugar uppsagnir og því hlýtur það að vera þessi stöðugleiki sem undarlegir menn hamra á að sé í gangi og ekki megi missa. Þetta væri fyndið ef þetta væri ekki svona sorglegt og satt.

Kláraði í gær að lesa aftur (óvart) Isaac Asimov’s Universe – Volume 1: The Diplomacy Guild. Rámaði í bókina en var ekki viss hvort það væri þessi eða önnur, ákvað að klára hana bara aftur, það var hvort eð er bara síðasta sagan sem ég kunni næstum utanað (þetta er smásagnasafn um heim sem Isaac Asimov skóp fyrir aðra höfunda).

Uncategorized

Í góðum hóp

Kíktum í kvöld í afmæli Stefu og þar hitti ég nokkra tölvugaura og náðum við að einoka umræðurnar að miklu leyti þannig að stúlkurnar fóru að tala í kross á milli okkar um sín mál. Fín kvöldstund með fínu fólki.

Uncategorized

Smáir, örsmáir og stórir

Las um lífið í Hong Kong í dag en þar eru menn farnir að sótthreinsa allt og vona að þannig losni þeir við að fá HABL (SARS) aftur. Óhófleg sótthreinsun og notkun sýklalyfja er víst einmitt að veikja ónæmiskerfin okkar sem og að gera bakteríurnar harðgerari.

Frá Austur-Evrópu berst hins vegar vonarglæta í baráttunni en þar hafa menn lengi notað vírusa sem drepa bakteríur, reyndar drepur hver vírus akkúrat bara eina týpu af bakteríu.

Frá Bandaríkjunum er það svo æsispennandi rimma milli náttúruverndarsamtaka og hersins. Herinn er að þróa sónartæki sem gefa frá sér ógnarlegan hávaða og drápu óvart 8 hvali í tilraun árið 2000.

Uncategorized

Strom aftur

Fátt markvert gerðist í dag.

Doug Marlette með góðan punkt… tekur orð Strom Thurmonds sjálfs upp og setur hann í þessa aðstöðu.

Uncategorized

Fyrsti hjólatúrinn

Undanfarinn mánuð hef ég nú hjólað í og úr vinnu en í dag var það alvöru hjólatúr sem var farið í.

Frá Betrabóli var haldið niður Skipholtið og því næst Hverfisgötuna. Smá túr í gegnum miðbæinn og svo var farið meðfram Hringbraut lengst upp í Seilugranda. Þaðan var svo farið inn í hverfið og hjólastígar teknir í von um að þeir lægju nokkurn veginn í rétta átt. Dúkkuðum svo upp við Hótel Sögu og þaðan var tekinn smá krókur áður en Miklubrautin var tekin heim og svo í gegnum Miklatúnið áður en Flókagatan var kláruð.

Erfiðasti hjallinn voru stigarnir úr kjallaranum upp í risið.

Uncategorized

Stórviðskipti, bíó og Strommi

Í gær var pabbi stórtækur og seldi íbúðina sína og keypti aðra. Svo er það flutningar í júlí, hlutirnir gerast hratt hjá föður mínum.

Nýja Charlie’s Angels myndin fær, umm…, áhugaverða dóma.

Mig fýsir sífellt minna og minna að ferðast til Bandaríkjanna. Ekki endilega vegna hryðjuverkaógna heldur sökum alls eftirlitsins sem er í gangi. Núna eru þeir meira segja farnir að spá í að nota tæki sem taka í raun nektarmyndir af manni.

Strom Thurmond lést, karlinn nýhættur á þingi og orðinn 100 ára. Hann kvæntist tvisvar tvítugum stúlkum, í fyrra skiptið bað hann einkaritarans þegar hún tók niður minnispunkta hjá honum með því að lesa fyrir bónorðið. Hún svaraði því með minnisblaði. Hann var rúmlega fertugur þá. Hún lést mörgum árum seinna og eftir átta ára piparsveinslíf bað hann annarar tvítugrar konu, nú orðinn 66 ára. Þau skildu að ég held 20 árum síðar.

Karlinn var þekktur fyrir það að káfa á kvenfólki í lyftum þinghússins, mest hissa varð hann þó þegar hann komst að því að konan sem hann var að þukla var þingmaður! Hann var ötull andstæðingur laga fyrir jafnrétti kynþátta, sagðist þó ekki vera rasisti og barðist gegn Klu Klux Klan. Skrautlegur karl, vart þó til fyrirmyndar.