Uncategorized

Linuxnationalinn?

Linus Torvalds fær sæmilega umfjöllun um sig í Wired í greininni Leader of the Free World. Á sama tíma skrifar einhver dálkahöfundur hjá Forbes ansi kjarnyrta grein þar sem Linux-fólk virðist vera argandi kommúnistar sem syngja internationalinn?

Knattspyrnuvertíðin var að hefjast á Bermúda og það er ekki gæfulegra en svo að ribbaldar með hafnaboltakylfur réðust á annað liðið og eltu einn leikmann á jeppa yfir völlinn.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum er það svo ekki að virka að standa við hliðin á feitu fólki til að láta sjálfan sig líta út betur. Þvert á móti virðist það láta þig líta enn verr út (ef þú ert sá/sú granni/granna)!

Annars er eftirsóttasta starfið í Ameríku í dag núna þetta: Wanted: Master Lego Model Builder.

Annars er ég með einkenni inflúensu fyrir utan hita… þannig að það telst víst ekki með.

Uncategorized

Petabæt

Lærði nýtt orð í dag, petabyte (petabæt). Það eru sumsé milljón gígabæt eða rúmlega 8 þúsund harðir diskar eins og minn núverandi (120 GB). Orðið kom fyrir í þessari grein.

Er að braggast… en það gengur hægt.

Uncategorized

Vélbúnaðarvá

Þetta er búið að vera ógurlegt fjör, búinn að reyna að blása lífi í tvær dauðar vélar og pumpa meiru lífi í eina í viðbót. Tvö dánarvottorð voru að lokum gefin út eftir ítrekaðar tilraunir.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að pabbi er að lokum kominn aftur á netið og grefur nú í Íslendingabók sem aldrei fyrr.

Uncategorized

Afmælishald

Fórum í kvöld í afmælisfagnað Óskars sem varð þrítugur í vikunni. Gaman að hitta marga fyrrum vinnufélaga þar aftur.

Búinn að vera drulluslappur í allan dag og missti röddina loks alveg í fagnaðinum. Vona að þetta rjátli af mér á morgun.

Uncategorized

Rauðhöttur

Jæja, náði mér í Rauðhött 9 stýrikerfið og brenndi sjálfur eftir að diskarnir sem Hrafnkell brenndi og athugaði sérstaklega að væru í lagi stóðust ekki prófanir sem uppsetningarforritið gerði.

Reyndar endaði þetta á því að ég þurfti að taka músina úr sambandi á meðan að uppsetning fór fram því að einhver Python skrá krassaði uppsetningunni við að reyna að stilla músina (ósköp venjuleg 3ja takka Logitech).

Eftir 40 mínútna uppsetningaferil var allt komið nema músin sem ég þurfti að fikta aðeins til að koma inn.

Er núna að skrifa þessa færslu í Mozilla í Red Hat Linux stýrikerfinu, nota Mozilla reyndar í Windows líka þannig að þetta er lítil breyting… nema hvað letur varðar! Leturstærðirnar hjá Movable Type notendum eru fullstórar að mínu mati í Windows en í Linux er þetta fín stærð. Maður þarf að fara að skoða að gera “platform dependent” stílskrár vegna svona lagaðs, letrið á minni síðu er nefnilega í minni kantinum hérna í Rauðhöttnum! Þetta fer reyndar mikið til eftir hvaða letur er notað, ekki til sama letur á Windows og Linux iðullega.

Annars styður dálkahöfundurinn Nick Webster Ísland í leiknum á morgun, sem og Norðmenn, Dani og Svía. Hann vill nefnilega sjá allt ljóshærða léttklædda kvenfólkið í Portúgal 2004.

Uncategorized

Sjö litlir kassar

Þessa stundina mala 3 tölvukassar, 3 liggja sundurtættir og einn situr milli vonar og ótta um sín örlög.

Það er alltaf fjör í kringum mig, sjö tölvukassar í meters radíus frá mér. Meirihlutinn reyndar nokkuð forn en úr þessu má kannski búa til örlítið færri brúklega kassa.

Það eru ekki allir sem hafa samþykki annara heimilismeðlima til að stunda svona undarlegheit með kassa, ætli maður sé ekki bara heppinn.

Uncategorized

Töfrar og bananar

Jæja sum mál leystust betur í dag en leit út fyrir í gær.

Kom við í kvöld hjá Hrafnkeli sem gaf mér Red Hat 9 diska, sá við það tækifæri veikan gullfisk hjá þeim sem var í lyfjameðferð, greyið gat ekki haldið sér á réttum kili og var ýmist á hlið eða hvolfi.

Þá tók við grillveisla hjá Erni og Regínu. Grillið þeirra varð sem betur fer ekki fyrir sama tjóni og okkar og að auki í skjóli fyrir veðrinu þannig að rigning og önnur ofankoma öngruðu okkur ekkert. Svínakjötið með BBQ-sósunni var afbragð sem og bökuðu kartöflurnar. Eftirréttur voru svo grillaðir bananar með mars-súkkulaði.

Horfðum á David Blaine fremja mögnuð töfrabrögð, ekkert vitað um hann hingað til nema að hann hefur látið grafa sig lifandi, verið innilokaður í ís, húkt á staur og nú síðast hangið í kassa án matar.

Uncategorized

Vont, verra, ís

Alveg þoli ég ekki svona daga. Gasgrillið og svalahurðin tjónuðust og á öðrum vettvangi var vondur dagur í dag og varla betri á morgun.

Það má þó aðeins láta sjatna í sér með því að lesa til um að Kýpur hafi verið Atlantis sem og kynna sér enn einn idjótaháttinn frá Ameríku, “Stjörnum prýddi ísinn” er með rjómaís eins og Gun Nut, I Hate the French Vanilla, Nutty Environmentalist, Iraqi Road og Smaller Govern-mint.

Uncategorized

Haglél og Xupiter

Vöknuðum klukkan 4 í nótt við mikil læti, þar reyndist vera haglél á ferð ásamt hressilegum blæstri. Ég stökk á fætur og lokaði öllum gluggum heimilisins og skreið svo upp í rúm.

Þeim sem hafa lent í klóm Xupiter (forrit sem treður sér inn á tölvuna þína og breytir alls konar hlutum að þér forspurðum) geta glaðst yfir guttum eins og Jay Cross Jr. og Christopher Carlino sem berjast af krafti á móti því og eru meðal stefnenda í dómsmáli sem fer brátt í gang.

Uncategorized

Vöfflur

Skruppum í dag í vöfflur og kökur til pabba í tilefni afmælis Daða. Fínt að sleppa út úr húsi af og til.