Verð nú aðeins að blása meira, Borgar Þór sem var aðstoðarmaður Tómasar Inga Olrich og er nátengdur núverandi ráðherra Sjálfstæðisflokks er einn aðalmannanna á bak við Deigluna sem hefur þó verið dugmikil í umræðum varðandi rétt forseta. Borgar er ekki sammála félögum sínum og ræðir það í grein í dag þar sem hann virðist halda að ákvörðun forseta að nota stjórnarskrárbundinn rétt sé að eyðileggja þá grein stjórnarskrár, grafa undan þingræði og veit ekki hvað.
Röksemdin sem taglhnýtingar hamra á sífellt er að lýðræðislega kjörinn forseti megi ekki nota stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að vísa lagasetningu frá þingi til lýðræðislegra kosninga því að það sé brot á þingræði. Þeir bíta höfuðið af algjörri skömm sinni með því að segja að þetta sé aðför að lýðræði í landinu… að lýðræðislega kjörinn embættismaður megi ekki efna til lýðræðislegra kosninga því að það skaðar lýðræðið?
Ríkisstjórnin var aldrei kosin sem ríkisstjórn, flokkar fengu ákveðið fylgi og ákvaðu svo hverjir þeirra myndu mynda ríkisstjórn.
Forsetinn var kosinn sem forseti og er því í lýðræðislegri stöðu en ráðherrar geta nokkru sinni verið.
Auk þess tel ég að ríkisstjórnir hafi yfir höfuð verið á skjön við þrískiptingu ríkisvaldsins. Hvernig geta sömu menn verið framkvæmdavald (ráðherrar) og löggjafarvald (alþingismenn)? Mér hefur alltaf fundist þetta ofboðslega loðið dæmi og ekki batnar það þegar að ráðherra (sem er jafnframt alþingismaður) getur skipað dómara (dómsvald) þvert gegn álitum þeirra sem gefa umsækjendum hæfnismat. Jamm, þetta á við Björn Bjarnason sem er samkvæmt þessu öllu samtímis í dóms-, framkvæmda- og löggjafarvaldi og því frekar tæpur til að kasta grjóti úr sínu glerhúsi að mínu mati.
Sá að Davíð minntist hróðugur á það að enginn hefði andmælt þeirri “athugasemd” hans að forsetinn væri óhæfur til að neita undirskrift vegna fjölskyldutengsla við Baug . Í fyrsta lagi Davíð, þá andmælti enginn þessari setningu þinni þar sem hún var það fáránleg að hún var ekki þess virði að einu sinni endurtaka, hvað þá andmæla. Í öðru lagi, þá er bannað að setja fram lög sem beinast gegn einum aðila, en samt dregur þú engann dul á það að þessu er stefnt gegn fyrirtæki sem hefur gert meira fyrir kaupmátt almennings en aðgerðir ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug. Í þriðja lagi skaltu fara afar varlega með að tala um óhæfi og fjölskyldutengsl, sjá bara hann Björn og frænda þinn hér að ofan svo ekki sé fleira dregið úr beinagrindahvelfingu þinni.
Nýjasta útspilið er svo að heimta 75% kosningaþátttöku, á Alþingi dugar einfaldur meirihluti fyrir samþykki laga, í Alþingiskosningum eru engin takmörk á kosningaþáttöku en allt í einu þegar kosið er um lög þarf að setja prósentu takmörk? Sér enginn annar hvers konar hræsnarar þetta eru? Ummæli Davíðs um einokun fjölmiðla á Íslandi eftir að hafa heimsótt vin sinn Berlusconi sem ER einvaldur fjölmiðla á Ítalíu er svo enn ein beinagrindin í þessari ógnarstóru hvelfingu Davíðs.
Ef ég ætti ennþá flokksskírteini frá Sjálfstæðisflokknum myndi ég glaður afrita það og brenna eitt á dag. Þvílíkur mafíósahópur sem þetta er orðinn.
Þetta apaleikrit hérna heima jafnast fyllilega á við ruglið í Ísrael þar sem ráðherrar fela sig svo ekki sé hægt að afhenda þeim uppsagnarbréf sitt.
Nú bíð ég bara spenntur eftir hertu eftirliti Björns með almenning í landinu, nokkuð sem hefur verið honum mikið kappsmál. Þá lendum við kannski í svona skemmtilegum eða þannig atburðum.
Jæja, ég er að fara í brúðkaup á eftir. Gott að losa sig við svona kjaftæði í smá tíma og samgleðjast heilbrigðu fólki.