Fyrir utan skandalinn með Falun Gong og það að landinu var lokað fyrir öllum Asíubúum sem ekki voru kínverskir embættismenn hérna um árið, þá er farið að grafa allverulega undan þeirri stöðu sem lögreglan ætti að hafa.
Nýlegar fregnir af aðgerðum hennar, þar sem hún bókstaflega leggur fólk í einelti vegna skoðana þeirra, minna allsvakalega á bananalýðveldin sem Íslandi var oft líkt við.
Ég á eftir að krefja ríkislögreglustjóra um svör, er ánægður að sjá að Össur er líka óhress með þetta (sjá einnig Fréttablaðið í dag).
Svona til þess að árétta það fyrir laganna vörðum, sem nú virðast vera orðnir pólitískar vaktsveitir, þá er þeim samkvæmt lögreglulögum heimilt að krefja fólk um nafn, kennitölu, heimilisfang og skilríki.
ANNAÐ ÞARF EKKI AÐ GEFA UPP. Ef þú neitar að svara þeim hvert þú ert að fara, hvers vegna, með hverjum, hverja þú ætlar að hitta þar og þess háttar, þá ertu í fullum rétti þar, eðlilega.
Það að neita að gefa óviðkomandi þessar upplýsingar þýðir ekki að ég sé að fela eitthvað, þvert á móti er ég að verja einkalíf mitt gegn innrás, þar sem innrásaraðilinn á akkúrat engan rétt til þess að snuðra af pólitískum ástæðum. Það er spyrjandinn sem þarf að réttlæta spurninguna.
Ef að verið er að yfirheyra þig sem vitni eða sem grunaðan vegna glæpsamlegs hátternis sem þú gætir hafa séð eða tekið þátt í, og þú neitar að svara, þá hafa þeir hugsanlega ástæðu til þess að taka þig á lögreglustöð. Slík frelsissvipting verður alltaf að eiga sér heimild í lögum, að öðru leyti er um ólögmæta frelsissviptingu að ræða.
Það er ekki á skilgreindu verksviði lögreglunnar að vera pólitískt ógnarafl sem hundeltir fólk vegna pólitískra skoðana þeirra. Ef að einhver aðili sem hefur ákveðna skoðun fremur afbrot, þá eru til aðrir lagabálkar sem ná yfir það.
Lögreglan þarf að svara mörgum brennandi spurningum, hver fyrirskipaði þessar pólitísku ofsóknir gegn Falun Gong, gegn náttúruverndarsinnum og öðrum sem hafa skoðanir sem eru ekki þóknanlegar ráðamönnum? Er Björn Bjarnason þarna á bak við, æðsti ráðamaður lögreglumála? Er þetta eitthvað sem ríkislögreglustjóri ákvað?
Í lýðræðisríki sem treystir á lögin, þá þarf ekki bara að passa að fáránleg og ólögleg lög sleppi í gegn, það þarf líka að passa það að núverandi lögum sé framfylgt og að tjáningar- og skoðanafrelsi ríki í landinu.
Það eru ein lög sem ég vildi láta sjá reyna á, að það fólk sem kallað hefur verið hryðjuverkamenn af ráðamönnum í fjölmiðlum kæri þá fyrir meiðyrði. Ráðamenn nú til dags virðast komast upp með það að henda fram fáránlegum fullyrðingum framan í fréttamenn sem koma orðunum áfram en spyrja viðkomandi ekki út í hvað heimildir hann hafi fyrir stóru orðunum. Lélegir fréttamennska, ljósritunarvélar og hljóðnemar gætu komið í stað fréttamannanna án þess að við tækjum eftir breyttum "fréttaflutningi".
Ráðamenn margra þjóða virðast orðnir hálfgeggjaðir af hræðslu við alla sem hafa aðra skoðun en þeir, allt vegna hóps manna sem líklega telur vart þúsund hræður en náði að drepa nokkur þúsund manns, minni fjölda en deyr daglega sökum vanrækslu ráðamanna. Vissulega hrikalegir atburðir, en að sjá tugmilljónir manna, þar á meðal okkur, læsast inni í lögregluríkjum, er enn verra og hæðir dauða þeirra sem létust sem frjálsir borgarar.
Að lokum þá ættu mál eins og þetta að brýna fyrir fjölmiðlum og lögregluyfirvöldum að hafa sig hæg í að nafn- og myndgreina grunaða aðila. Allt of oft hefur birst mynd og fyrirsögn "X grunaður um Y", svo dögum síðar birtist á síðu 11, neðst í vinstra horni, pínulítil klausa sem segir "Y er saklaus af ásökunum um X".
Orðspor viðkomandi aðila bíður óbætanlegan hnekki, þó svo að sannað sé að hann sé saklausari en lamb, þá mun tjaran sem á hann var slett alltaf hanga utan á honum í hugum samborgara hans, hversu gáfulegt sem það nú er.
Bækur dagsins:
1984 eftir George Orwell
Brave New World eftir Aldous Huxley