Uncategorized

Áfram Ray Nagin og New Orleans!

Þessi maður er borgarstjóri New Orleans og hann er brjálaður yfir ruglinu sem er í gangi.

Hjálp berst seint og illa og fjölmiðlar virðast hafa meiri áhyggjur af vatnsflöskum og mat, sem sveltandi fólk í lífshættu tekur úr yfirgefnum verslunum, en af lífi þúsunda sem hanga á bláþræði.

Zero-tolerance policy kalla þeir þetta, skjóta alla sem reyna að halda lífi með því að ná sér í mat sem ENGINN er að nota og eiganda er nokk sama um, hann er bara feginn að hafa komist lifandi í burtu!

Þetta er endanleg sönnun þess að í Bandaríkjunum skiptir hlutur, eign, niðursuðudós, mun meira máli en líf fólks sem er í lífshættu.

Já það eru nokkrir idjótar á sveimi, þrælvopnaðir (guns don’t kill people hmmm…) en meirihlutinn er bara að reyna að halda sér á lífi í hrikalegum aðstæðum.

Kíkið á þetta viðtal, þetta er refsivert athæfi leiðtoga þjóðar, alvarlegra en að hann sé að dúllast með einhverri stúlku. Mun alvarlegra.

Kannski það þurfi að slá hausunum á fréttamönnum saman nokkrum sinnum og það duglega til að þeir fari að fatta hvað skipti máli. Lífið.

Uncategorized

Wikimania

Eins og Guardian greinir frá þá er Worldwide Wikimania í gangi. Þetta frábæra framtak, sem er alfræðiorðabók almennings, gerð af almenningi, er alveg tær snilld.

Sjáið bara þessa ítarlegu færslu um gæsalappir (ritmáls, ekki fuglsins)!

Enska útgáfan er orðin risavaxin, sú íslenska á enn langt í land.

Ritfrelsi fyrir alla, þekking fyrir alla, upplýsingar fyrir alla!

Tyrkir eru reyndar ekki alveg á þessari línu, menn kærðir fyrir undarlegustu sakir.

Að lokum er hér að finna aðvörun frá 2001 um yfirvofandi drukknun New Orleans. Bush las greinina sennilega ekki, fyrst að hann skar niður fé til flóðvarna um 80%.

Uncategorized

DP 5 ára!

Í dag eru 5 ár síðan að Distributed Proofreaders komu fram á sjónarsviðið, í eldri færslu fór ég ítarlega yfir hvað það er.

Á þessum 5 árum hafa tæplega 8000 titlar verið prófarkalesnir og gerðir aðgengilegir núverandi og komandi kynslóðum. Sífellt fleiri leggja hönd á plóg og nú er Google að vasast í skyldum efnum.

Á netinu er því að finna sífellt meira efni sem annars myndi týnast, gamlar bækur morkna, er hent eða verða tímanum að bráð með öðrum hætti. Með því að koma efni þeirra á stafrænt form er mikill sigur unnin, hvort sem efnið telst til stórbókmennta, fræðslurita eða dægurdvalar.

Sjálfur mun ég fagna ársafmæli hjá DP í næsta mánuði, það var þó ekki fyrr en í vor og sumar sem ég tók af alvöru að einbeita mér að því.

Vek athygli á King Alfred bókinni sem tengt er á hér að neðan, lærði um upphaf breska heimsveldisins og fékk að vita það að engilsaxneskt fólk væri öllum öðrum þjóðflokkum æðri!

Uncategorized

Flott dót!

Fyrir það fyrsta þá er LifeDrive-ið mitt að halda mér alveg ógurlega ánægðum þessa dagana. Náði mér til dæmis í mikið safn af verkum P.G. Wodehouse og skemmti mér konunglega við lesturinn.

Eins erfitt og það var að ná sér í þessa græju (PalmStore sendir ekki til Íslands) þá var allt vesenið þess virði. Bestu þakkir til pdaShop fyrir að vera með næstum allt á lager þannig að maður gat gengið þaðan út með allt sem vantaði. Núna þarf ég bara að versla mér þráðlaust lyklaborð og svo skemmtilegt “man bag“.

Rak augun í alveg magnað leikfang á netinu, það heitir HydroFoam og er svakalegasta fjarstýrða tæki sem ég hef séð. Samkvæmt þeim sem búa það til þá eru þeir í viðræðum um að koma því í fjöldaframleiðslu. Ég væri alveg til í eitt eintak!

Uncategorized

Gísli Marteinn

Í útvarpinu heyrði ég spekingana ræða um það að Gísli Marteinn væri fulltrúi ungu kynslóðarinnar, vel skriðinn yfir þrítugt.

Ég veit ekki alveg hvernig mér líst á hann, í den tid þegar ég var í hringiðu starfs SUS kom fátt frá honum, það eina sem mig rámar í var að á flokksþingi í Laugardalshöll óð hann um allt með myndatökumann og með hljóðnema og tók viðtöl við menn og örfáar konur. Þetta var áður en hann varð sjónvarpsstjarna.

Sem sjónvarpsstjarna hefur hann gífurlegt fylgi eldri borgara sem finnst voðalega gaman að sjá svona hressan strák, FM957 fyrir sjónvarpið nema hvað hann blótar ekki.

Hins vegar varð ég lítið var við það að fólk á aldri okkar beggja væru aðdáendur, frekar var það pirrað á honum enda hrikalega vondur sjónvarpsmaður og virtist ekki heyra orð af því sem gestirnir sögðu, hann var með handrit fyrir framan sig og eftir því fór hann hvað svo sem kom upp úr gestunum. Aulabrandararnir voru svo hver öðrum pínlegri og afhjúpuðu óskaplega mikla smásál. Þetta sá ég nú allt í þau örfáu skipti sem að ég var í heimsókn hjá tengdó.

Mér líst ekkert allt of vel á hann sem mann sem Reykjavíkurbúar ættu að treysta, verra að fulltrúi borgarbúa hlusti ekki á viðmælendur sína. Núverandi keppinautur hans er kannski ekki betri kostur, en ég veit færri lesti á honum sem stendur.

Sjálfur er ég alveg dauðfeginn því að vera kominn aftur í Kópavoginn þar sem ég þekki mun betur til pólitíkusanna. Þeir eru auðvitað misjafnir greyin, en ég er alls óákveðinn hvað skal gera í næstu kosningum.

Úff.. var rétt að reka augun í þetta á Textavarpinu:

Óskar (Bjartmarz yfirlögregluþjónn) segir lögreglu hafa fylgst með mótmælendum, ekki heimilisfólki. Hann segir að þó búðirnar hafi ekki sést frá bænum, þá hafi mótmælendur verið þar tíðir gestir og því ekkert óeðlilegt við að fylgst hafi verið með þeim þar.

Nei nei, það er sko ekkert óeðlilegt við það að fylgst sé með fólki sem er á landinu, hvert sem það stígur sko. Það er ekki eins og að það séu til möppur með nafni þeirra sem að skráð er í eins og hjá Stasi í gamla daga sko. Það voru nefnilega kommúnistadjöflar, í dag erum við siðaðri en svo og notum tölvutækni!

Uncategorized

Ísland-Holland

Við erum sumsé nýkomin úr seinni utanlandsferð okkar í ár (þá er minn kvóti búinn en Sigurrós á eina enn í handraðanum).

Að þessu sinni fórum við til Hollands til að mæta í brúðkaup vina okkar, þeirra Jolöndu og Jeroen. Ætli myndirnar, myndböndin og sagan af því brúðkaupi detti ekki inn síðar, 16 tíma brúðkaup eru ekki algeng á Íslandi.

Þegar maður er erlendis, einkum í stórborgum, tekur maður eftir því hvað umferðin er mikil, en líka eftir því að ökumenn aka eins og aðrir séu í kringum þá og gefa sénsa þegar á þarf að halda.

Þessi vika hefur minnt mig á hversu miklir villimenn við erum í umferðinni hér heima, bílar sem svína þvert fyrir þrjár akreinar rétt áður en komið er að ljósum til að beygja, svigfífl sem skjóta sér í gegnum nálaraugu í umferðinni til að komast auka bíllengd áfram og aðrir fávitar sem að stofna öllum í hættu við þá viðleitni sína að bæta fyrir skort á skynsemi með því að vera á undan næsta bíl.

Ef ég væri umferðarlögreglumaður væri ég þegar búinn að svipta þrjá ökumenn leyfi fyrir að vera ófærir um að vera í umferð og sekta nokkra í viðbót fyrir gáleysi.

Já umferðin hérna heima pirrar mig alltaf þegar ég kem heim og sé fávitaskapinn hérna og ber saman við alvöru umferðarlönd þar sem að almenningssamgöngur eru til fyrirmyndar og ökumenn vita það vel að þeirra líf og annara hangir á bláþræði í hraðskreiðum málmklumpum.

Uncategorized

Lögfræðibrölt

Það er áratugur síðan ég var að væflast um í lagadeild HÍ og sá fljótlega að þetta fag var ekki alveg að heilla mig.

Þessa dagana er ég hins vegar að grafa í gegnum lagabálka til þess að fullvissa mig um að enn sé tjáningarfrelsi í landinu. Að auki hef ég verið að koma auga á ýmsar forneskjulegar klausur sem benda til alræðishyggju þingmanna sem upphaflegu settu lögin, eitthvað sem mætti bæta svo að við komumst endanlega frá haftatímabilinu þegar að sækja þurfti um leyfi til þess að eyða peningunum sínum og almenningur var ofurseldur skriffinnum sem fannst fátt skemmtilegra en að hafna hlutum sem eðlilegir þykja í dag.

Á föstudaginn sendi ég Útlendingastofnun smá samantekt um stjórnarskrána og upplýsingalög þar sem ég benti á nokkur af grundvallarréttindum þegna landsins, sem væntanlega eiga að ná til gesta einnig.

Ekki hef ég fengið svar, kannski tekur þá smá tíma að grafa upp gögn til að svara nokkrum spurningum sem ég setti fram, en sá að Hildur Dungal kvartaði undan því að lög voru frekar loðin og hvergi stóð “henda má fólki úr landinu sem er ósammála ríkisstjórninni og handbendum hennar”.

Ég bíð enn eftir svari frá forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti varðandi spurningar mínar um hvaða ótrúlegu sönnunargögn þeim voru sýnd sem fengu þá til þess að lýsa yfir stríði gegn Írak.

Nýjasta viðbótin var svo hótun lögfræðistofu í Bretlandi gegn íslenska Sheffield Wednesday vefnum, þar sem við vogum okkur að birta leikjalista Uglanna fram í desember. Mér fannst ógurlega gaman að safna saman helstu lögfræðiálitum og dómum varðandi þetta mál og senda til baka, því miður hefur ekkert svar borist, hvorki afsökunarbeiðni né frekari rökstuðningur. Smá brot af svari mínu má lesa á vefnum.

Ég er farinn að óska þess að við tökum upp hið breska einmenningskjördæmakerfi. Það kemur illa út á heildarvísu varðandi fylgi flokka, en aftur á móti gerir það hvern þingmann ábyrgari fyrir stefnu sinni og gerir að auki fleirum kleift að sækjast eftir embættinu án þess að þurfa að fara í gegnum flokksvélar sem spýta út úr sér já-mennum.

Það eru nefnilega nokkur lagafrumvörpin sem þarf að taka til í og sum mætti jafnvel taka alveg úr umferð og láta falla í gleymskunnar dá.

Endum þetta á léttu nótunum, smábílar eru farin að verða varhugaverð farartæki í breskum safarí-garði, ljónunum finnst þeir líkjast bráð.

Uncategorized

5, 6 og 30 ár!

Þá er dagbókin orðin 5 ára, sem þýðir að ég er þrítugur í dag. Fyrir forvitna þá er þetta færsla 1283 í dagbókinni.

Skutumst á Selfoss í dag þar sem við mættum í 6 ára afmæli Odds og fengum kökur.

Heima var svo kvöldmatarboð með foreldrum mínum, bræðrum og ömmu.

Fínasti dagur, nema hvað veðrið í dag dró niður meðaltal 14. ágústs sem besta dags sumars. Sökum annríkis verður afmælispartýið að bíða í nokkrar vikur eða mánuði. Meira um það síðar.

Uncategorized

Flott lyklaborð

Rakst á þessi skemmtilegu lyklaborð, mér finnst ErgoDex mjög spennandi valkostur fyrir sértæk verkefni þar sem er verið að nota ekki mjög marga takka en mjög oft.

Svo er verið að þróa stórsniðugt lyklaborð sem heitir Optimus þar sem takkarnir eru skjáir (LED) sem sýna hvað gerist þegar ýtt er á þá, skoðið myndirnar á síðunni til að sjá þessa snilld.

Optimus minnir mig reyndar á skissur frá því í desember 2003, sem ég gerði í Notendahönnun, þar áttum við að gera altæka fjarstýringu (universal remote) sem dygði á allar heimilisgræjurnar, mín útgáfa var með ljóstökkum (LED) sem breyttu um “andlit” eftir því hvaða tæki var verið að stjórna, hvort sem það var sjónvarp eða myndbandstæki og svo framvegis. Náskylt Optimus alveg, þeir gera bara flottari skissur 🙂

Svo er hægt að fara alveg í hina áttina og fá sér lyklaborð sem er alveg svart (Das Keyboard) eða alveg hvítt (HHKB Blank Key Top). Við sem kunnum fingrasetninguna yrðum ekki í vandræðum með þetta, en þeir eiga bara ekki Natural útgáfur (þar sem lyklaborðið svignar og stafaborðinu er tvískipt) sem er lífsnauðsynlegt fyrir mig.

Uncategorized

Lögregluríki?

Fyrir utan skandalinn með Falun Gong og það að landinu var lokað fyrir öllum Asíubúum sem ekki voru kínverskir embættismenn hérna um árið, þá er farið að grafa allverulega undan þeirri stöðu sem lögreglan ætti að hafa.

Nýlegar fregnir af aðgerðum hennar, þar sem hún bókstaflega leggur fólk í einelti vegna skoðana þeirra, minna allsvakalega á bananalýðveldin sem Íslandi var oft líkt við.

Ég á eftir að krefja ríkislögreglustjóra um svör, er ánægður að sjá að Össur er líka óhress með þetta (sjá einnig Fréttablaðið í dag).

Svona til þess að árétta það fyrir laganna vörðum, sem nú virðast vera orðnir pólitískar vaktsveitir, þá er þeim samkvæmt lögreglulögum heimilt að krefja fólk um nafn, kennitölu, heimilisfang og skilríki.

ANNAÐ ÞARF EKKI AÐ GEFA UPP. Ef þú neitar að svara þeim hvert þú ert að fara, hvers vegna, með hverjum, hverja þú ætlar að hitta þar og þess háttar, þá ertu í fullum rétti þar, eðlilega.

Það að neita að gefa óviðkomandi þessar upplýsingar þýðir ekki að ég sé að fela eitthvað, þvert á móti er ég að verja einkalíf mitt gegn innrás, þar sem innrásaraðilinn á akkúrat engan rétt til þess að snuðra af pólitískum ástæðum. Það er spyrjandinn sem þarf að réttlæta spurninguna.

Ef að verið er að yfirheyra þig sem vitni eða sem grunaðan vegna glæpsamlegs hátternis sem þú gætir hafa séð eða tekið þátt í, og þú neitar að svara, þá hafa þeir hugsanlega ástæðu til þess að taka þig á lögreglustöð. Slík frelsissvipting verður alltaf að eiga sér heimild í lögum, að öðru leyti er um ólögmæta frelsissviptingu að ræða.

Það er ekki á skilgreindu verksviði lögreglunnar að vera pólitískt ógnarafl sem hundeltir fólk vegna pólitískra skoðana þeirra. Ef að einhver aðili sem hefur ákveðna skoðun fremur afbrot, þá eru til aðrir lagabálkar sem ná yfir það.

Lögreglan þarf að svara mörgum brennandi spurningum, hver fyrirskipaði þessar pólitísku ofsóknir gegn Falun Gong, gegn náttúruverndarsinnum og öðrum sem hafa skoðanir sem eru ekki þóknanlegar ráðamönnum? Er Björn Bjarnason þarna á bak við, æðsti ráðamaður lögreglumála? Er þetta eitthvað sem ríkislögreglustjóri ákvað?

Í lýðræðisríki sem treystir á lögin, þá þarf ekki bara að passa að fáránleg og ólögleg lög sleppi í gegn, það þarf líka að passa það að núverandi lögum sé framfylgt og að tjáningar- og skoðanafrelsi ríki í landinu.

Það eru ein lög sem ég vildi láta sjá reyna á, að það fólk sem kallað hefur verið hryðjuverkamenn af ráðamönnum í fjölmiðlum kæri þá fyrir meiðyrði. Ráðamenn nú til dags virðast komast upp með það að henda fram fáránlegum fullyrðingum framan í fréttamenn sem koma orðunum áfram en spyrja viðkomandi ekki út í hvað heimildir hann hafi fyrir stóru orðunum. Lélegir fréttamennska, ljósritunarvélar og hljóðnemar gætu komið í stað fréttamannanna án þess að við tækjum eftir breyttum "fréttaflutningi".

Ráðamenn margra þjóða virðast orðnir hálfgeggjaðir af hræðslu við alla sem hafa aðra skoðun en þeir, allt vegna hóps manna sem líklega telur vart þúsund hræður en náði að drepa nokkur þúsund manns, minni fjölda en deyr daglega sökum vanrækslu ráðamanna. Vissulega hrikalegir atburðir, en að sjá tugmilljónir manna, þar á meðal okkur, læsast inni í lögregluríkjum, er enn verra og hæðir dauða þeirra sem létust sem frjálsir borgarar.

Að lokum þá ættu mál eins og þetta að brýna fyrir fjölmiðlum og lögregluyfirvöldum að hafa sig hæg í að nafn- og myndgreina grunaða aðila. Allt of oft hefur birst mynd og fyrirsögn "X grunaður um Y", svo dögum síðar birtist á síðu 11, neðst í vinstra horni, pínulítil klausa sem segir "Y er saklaus af ásökunum um X".

Orðspor viðkomandi aðila bíður óbætanlegan hnekki, þó svo að sannað sé að hann sé saklausari en lamb, þá mun tjaran sem á hann var slett alltaf hanga utan á honum í hugum samborgara hans, hversu gáfulegt sem það nú er.

Bækur dagsins:
1984 eftir George Orwell
Brave New World eftir Aldous Huxley