Gísli Marteinn

Í útvarpinu heyrði ég spekingana ræða um það að Gísli Marteinn væri fulltrúi ungu kynslóðarinnar, vel skriðinn yfir þrítugt.

Ég veit ekki alveg hvernig mér líst á hann, í den tid þegar ég var í hringiðu starfs SUS kom fátt frá honum, það eina sem mig rámar í var að á flokksþingi í Laugardalshöll óð hann um allt með myndatökumann og með hljóðnema og tók viðtöl við menn og örfáar konur. Þetta var áður en hann varð sjónvarpsstjarna.

Sem sjónvarpsstjarna hefur hann gífurlegt fylgi eldri borgara sem finnst voðalega gaman að sjá svona hressan strák, FM957 fyrir sjónvarpið nema hvað hann blótar ekki.

Hins vegar varð ég lítið var við það að fólk á aldri okkar beggja væru aðdáendur, frekar var það pirrað á honum enda hrikalega vondur sjónvarpsmaður og virtist ekki heyra orð af því sem gestirnir sögðu, hann var með handrit fyrir framan sig og eftir því fór hann hvað svo sem kom upp úr gestunum. Aulabrandararnir voru svo hver öðrum pínlegri og afhjúpuðu óskaplega mikla smásál. Þetta sá ég nú allt í þau örfáu skipti sem að ég var í heimsókn hjá tengdó.

Mér líst ekkert allt of vel á hann sem mann sem Reykjavíkurbúar ættu að treysta, verra að fulltrúi borgarbúa hlusti ekki á viðmælendur sína. Núverandi keppinautur hans er kannski ekki betri kostur, en ég veit færri lesti á honum sem stendur.

Sjálfur er ég alveg dauðfeginn því að vera kominn aftur í Kópavoginn þar sem ég þekki mun betur til pólitíkusanna. Þeir eru auðvitað misjafnir greyin, en ég er alls óákveðinn hvað skal gera í næstu kosningum.

Úff.. var rétt að reka augun í þetta á Textavarpinu:

Óskar (Bjartmarz yfirlögregluþjónn) segir lögreglu hafa fylgst með mótmælendum, ekki heimilisfólki. Hann segir að þó búðirnar hafi ekki sést frá bænum, þá hafi mótmælendur verið þar tíðir gestir og því ekkert óeðlilegt við að fylgst hafi verið með þeim þar.

Nei nei, það er sko ekkert óeðlilegt við það að fylgst sé með fólki sem er á landinu, hvert sem það stígur sko. Það er ekki eins og að það séu til möppur með nafni þeirra sem að skráð er í eins og hjá Stasi í gamla daga sko. Það voru nefnilega kommúnistadjöflar, í dag erum við siðaðri en svo og notum tölvutækni!

Comments are closed.