Uncategorized

GoPro karfa

Eftir 6 mánaða hreyfingarleysi fór ég í dag aðeins að sprikla í GoPro-Landsteina körfu. Síðast þegar ég mætti í körfu minnir mig að það hafi verið í ÍR-húsinu gamla á móti Landakoti. Það hús er víst löngu flutt þannig að nokkur ár eru síðan ég snerti síðast körfubolta. Við vorum 8, þar af tveir Jóh-arar, Kiddi Jóh er hjá Landsteinum og greip Gumma Jóh með sér. Skondið að hitta menn sem að maður hefur séð myndir af og veit svona eitthvað um, þeir voru reyndar minni en ég hélt :p

Ég var auðvitað farinn að spýja galli eftir 10 mínútur, og eftir klukkutíma var ég farinn að finna fyrir því að blaðra væri að myndast, setti innleggin ekki nógu vel í. Hittnin var auðvitað engin fyrsta hálftímann, nokkrir “airballs” flugu en undir lokin setti ég nokkrar niður í röð, þó ekki væru þær fallegar. Notaði í fyrsta sinn í körfubolta íþróttagleraugun mín, virkuðu ágætlega en verst hvað það fer að svíða undan þeim þegar maður svitnar. Skárra þó en darraðadansinn sem fylgir því að setja linsurnar í.

Þegar ég kom heim hóstandi eins og venjulega eftir átök þá benti Sigurrós mér á að ég væri kannski með áreynsluasma. Það útskýrir margt. Spurning um að fara að panta tíma og tékka á því.

Ilsig, beinhimnubólga, staurblindur og með áreynsluasma. Ég var fæddur til að vera íþróttastjarna 🙂

Uncategorized

Eyðimerkurblómið

Sigurrós tók um síðustu helgi mynd af framtíðarheimilinu okkar, ég skannaði hana svo inn í gær. Eins og sjá má er Sigurrós miklu betri ljósmyndari en sá sem tók hina myndina.

Ég vissi það, Björgvin er of forfallinn til þess að hætta.

Las í kvöld bókina Eyðimerkurblómið, sögu Waris Dirie. Áhugaverð bók um stúlku sem hefur átt óvenjulegt lífshlaup. Frásagnir hennar af umskurði kvenna í Sómalíu eru skuggalegar, á hverjum degi er áætlað að 6.000 stúlkubörn séu umskornar. Verkfærin til þessara limlestinga eru ryðguð rakvélarblöð, steinar og stundum eru tennur notaðar (snípur og skapabarmar bitnir af…). Eftir þessa slátrun á líkama þeirra tekur svo ekki betra við, þær eru saumaðar saman þannig að aðeins pínuhola verður eftir, sem að leyfir aðeins einum dropa í einu
að falla út um, hvort sem það er tíðablóð eða þvag. Ég gæti ritað margt fleira um þetta, en geri það ekki núna. Maður hefur lengi vitað af þessum pyntingum (sem að nota bene er hvergi minnst á í neinu trúarriti að eigi að gera, heldur eru þetta siðir sem karlmenn hafa komið sér upp til þess að tryggja þess að konur þeirra séu ekki að eignast börn annara manna (að barnsburði afloknum eru þær saumaðar aftur saman.. ef þær hafa lifað allt að framan af það er)), en að lesa frásögn um þetta í fyrstu persónu varpar enn betra ljósi á þetta. Waris var víst hérna á landinu um daginn, barátta hennar gegn umskurði mun vonandi bjarga lífum og heilsu margra margra barna í Afríku, en það er langt í land.

6.000 á dag. Í dag voru 6.000 stúlkur (margar 4 ára, margar 10 ára og allt þar á milli) limlestar, sýking hefur þegar tekið sér bólfestu. Á morgun verða kannski 1.000 þeirra látnar, á hinn kannski 500 aðrar og svo koll af kolli. Ef að helmingurinn lifir af þá er það kraftaverk, sé litið á aðfarirnar.

Uncategorized

Lúxussalur, brú og box

Hugvit var með smá kynningu fyrir okkur starfsmennina í Lúxussal Smárabíós í dag. Fyrsta sinn sem ég kem þar inn (við erum búin að vera mjög sparsöm og lítið farið í bíó yfirhöfuð) og verð að segja það að sætin eru frábær, vil fá svona heim. Fengum svo popp og kók í hléinu.

Keypti mér fjóra geisladiska í dag, sá “2 fyrir 2.200” tilboðsauglýsingu og leit við í Skífunni, keypti mér Surrender (Chemical Brothers) og Discovery (Daft Punk) í fyrra hollinu, átti reyndar Surrender fyrir en hann hvarf fyrir mörgum vikum síðan og ég sætti mig ekkert við það. Discovery hef ég svo hlustað á aftur og aftur undanfarnar vikur, fékk þann disk nefnilega á MP3-formi þegar hann kom út, og líkaði svo vel að ég fékk mér hann núna.

Í seinna hollinu (eftir Hugvitskynninguna) skrapp ég svo í Skífuna í Smáralind, sá þar Melody A.M. (Röyksopp) og Live On Brighton Beach (Fatboy Slim), á tilboði sem “Heitt! 2 = 1.000 kr. afsláttur” og smellti mér á það. Líklega langt þangað til að ég kaupi mér aftur diska nú þegar að veruleiki íbúðareigandans er á næsta leiti.

Í kvöld skaust ég svo í Seljahverfið í fyrsta sinn í 3-4 ár, fór í fyrsta sinn yfir nýju brúna (Breiddin-Mjóddin) og Egill lóðsaði mig svo um Seljahverfið á áfangastað í gegnum gemsann. Kolólöglegt athæfi en refsilaust þangað til á næsta ári.

Talandi um lög, okkur hefur nokkra grunað sterklega um árabil að boxsalur væri á ákveðnum stað í bænum, við höfum heyrt í höggum og ískri ýmiss konar koma af neðri hæðinni. Í kvöld sá ég svo að þar var opið inn og kíkti, sá þá staðfestinguna á grun okkar. Fullbúinn og stór boxsalur með allt sem ég get ímyndað mér að boxarar vilji. Núna þarf þessi aðili ekki lengur að fela sig og sínar tómstundir, sem er gott mál. Sjálfur mun ég hins vegar ekki stunda þessa íþrótt, mér er annt um hausinn á mér.

Uncategorized

Kaldasti febrúar síðan 1935

Nú var ég snöggur að redda mér og mínum, leysti þetta vandamál á örskotsstundu með því að smella inn PHP 4.1.2 á vefþjóninn, aleinn. Því minna sem ég þarf að bögga Egil því ánægðari erum við báðir. 🙂

Sissi er nú orðinn líkamsræktargoð íslenskra bloggera, hann er búinn að ná þrusuárangri á nokkrum vikum og sökum mikilla óska ætlar hann að smella upp leiðbeiningum fyrir okkur sem að erum að slást við nokkur aukakíló. Ég er að taka þetta núna hægt og rólega með því að breyta mataræðinu smám saman, en bíð spenntur eftir ráðum frá Sissa.

Svo er í dag víst síðasti dagurinn sem að Björgvin bloggar, … í bili. Okkar menn eru ekki að gera góða hluti í ár, frekar en síðustu 6 eða svo. Við Björgvin Ingi erum samt áfram harðir stuðningsmenn, það er víst svoleiðis að maður skiptir ekki um lið í fótboltanum, öðruvísi en í flestum öðrum málum.

Áhugavert:

  • Blatter hinn vondi
  • Uncategorized

    Greiðslumatið

    Fengum greiðslumatið til baka í dag, samkvæmt því höfum við heimild til að kaupa fyrir 12,3 milljónir, þannig að 10,2 milljóna íbúðin okkar er vel innan marka.

    Bara pappírsvinna sem stendur á milli okkar og Flókagötu 61!

    Uncategorized

    Erfðamengið

    Salon er oft með ágætis greinar, ég hef tengt talsvert í það rit hér og mun halda því áfram á meðan að gott efni kemur frá þeim. Áhugaverð grein í dag um erfðamengi manna og hverjir eigi það.

    Var að lesa nýjasta .net blaðið (ekkert skylt Microsoft .NET), þar má oft finna skemmtilega tengla innan um misgáfulegt efni.

    Áhugavert:

  • Everything Starts With E (sögubrot af danstónlistinni)
  • Topp danslistinn í Tékklandi (FM957-legur)
  • Classic Novels (kynntu þér þær klassísku, gerstu jafnvel áskrifandi að skáldsögum í tölvupósti)
  • SMS meiðslahætta
  • Uncategorized

    Leiðindatík, pólitíkin

    Það er svo mikið af efni um ódæði Ísraelsmanna á öllum fréttamiðlum að tenglalistinn myndi fylla marga skjái, læt mér nægja að vísa í frekar saklaust (á þeirra mælikvarða) atvik, þar sem að alþjóðlegur eftirlitsmaður segir frá því sem hann sá. Best að minnast ekkert á þegar að ófrískar konur eru skotnar á leiðinni á sjúkrahús til að eignast þar börn sín, né þegar að eiginmenn þeirra eru myrtir, og önnur voðaverk. Enginn þeirra þingmanna sem ég sendi erindi um daginn hefur látið svo lítið sem að svara þeim skrifum mínum, hvers vegna Ísland fordæmdi ekki þessa ódæðisstefnu.

    Einn af þeim mönnum sem ég sendi þann póst á heitir Davíð Oddsson. Samkvæmt þessari frétt var hann loksins núna að gera eitthvað meira en að segja “uss uss” vegna spillingarmálanna í Þjóðmenningarhúsinu. Það tók ekki nema 18 daga fyrir hann að skipta um skoðun eftir að allir fjölmiðlar og almenningur voru búnir að lýsa yfir hneykslun sinni. 7. febrúar sendi hann sumsé smá nótu, en í dag leysti hann viðkomandi frá störfum tímabundið.

    Bananalýðveldið Ísland……. há eff. Velkomin.

    Uncategorized

    Önnur skoðunarferð

    Skrapp í dag að skoða í annað sinn íbúðina sem að við höfum nú fest kaup á (eða allt að því… öll skriffinskan eftir), núna með mömmu og pabba sem og Sigurrós, mömmu hennar og kærasta.

    Eftir heimsóknina skissuðum við svo upp gróflega hvernig við gætum raðað þeim húsgögnum sem við eigum í íbúðina. 96 dagar í afhendingu (ef skriffinskan lofar).

    Uncategorized

    Kauptilboð samþykkt

    Eitthvað virðist byrjendaheppnin hafa gengið í lið með okkur. Í dag fórum við og tókum gagntilboði seljandans, verðið er 10.2 milljónir. Við erum að borga líklega 1.5 milljónir fyrir staðsetninguna en erum bara sátt við það. Þegar kemur svo að því fyrir okkur að selja þá ættum við að fá ekki minna fyrir hana, staðsetningin er það frábær.

    Þetta er sumsé Flókagata, nokkra metra frá Kennó í mjög fallegu húsi. Núna er líklega mánuður sem fer í alls konar skriffinsku áður en að kaupsamningur verður gerður.

    Við erum því mjög ánægð með lífið sem stendur, ætlum að fá okkur gúmmelaði og horfa saman á einhverja góða mynd í kvöld.

    Uncategorized

    Fyrsta tilboðið

    Í gær var Linux í dæmatíma í skólanum. Kom skemmtilega á óvart þar sem að allt þar er mjög svo Microsoft-baserað (svo ég sletti).

    Í morgun fórum við á fasteignasöluna og drógum upp tilboð, sem við sendum svo eftir hádegið. Fyrsta sinn sem við gerum tilboð í íbúð, vonum bara að við fáum smá byrjendaheppni með okkur og tryggjum okkur hana von bráðar.

    Áhugavert:

  • OK, George, make with the friendly bombs