GoPro karfa

Eftir 6 mánaða hreyfingarleysi fór ég í dag aðeins að sprikla í GoPro-Landsteina körfu. Síðast þegar ég mætti í körfu minnir mig að það hafi verið í ÍR-húsinu gamla á móti Landakoti. Það hús er víst löngu flutt þannig að nokkur ár eru síðan ég snerti síðast körfubolta. Við vorum 8, þar af tveir Jóh-arar, Kiddi Jóh er hjá Landsteinum og greip Gumma Jóh með sér. Skondið að hitta menn sem að maður hefur séð myndir af og veit svona eitthvað um, þeir voru reyndar minni en ég hélt :p

Ég var auðvitað farinn að spýja galli eftir 10 mínútur, og eftir klukkutíma var ég farinn að finna fyrir því að blaðra væri að myndast, setti innleggin ekki nógu vel í. Hittnin var auðvitað engin fyrsta hálftímann, nokkrir “airballs” flugu en undir lokin setti ég nokkrar niður í röð, þó ekki væru þær fallegar. Notaði í fyrsta sinn í körfubolta íþróttagleraugun mín, virkuðu ágætlega en verst hvað það fer að svíða undan þeim þegar maður svitnar. Skárra þó en darraðadansinn sem fylgir því að setja linsurnar í.

Þegar ég kom heim hóstandi eins og venjulega eftir átök þá benti Sigurrós mér á að ég væri kannski með áreynsluasma. Það útskýrir margt. Spurning um að fara að panta tíma og tékka á því.

Ilsig, beinhimnubólga, staurblindur og með áreynsluasma. Ég var fæddur til að vera íþróttastjarna 🙂

Comments are closed.