• Uncategorized

Lúxussalur, brú og box

Hugvit var með smá kynningu fyrir okkur starfsmennina í Lúxussal Smárabíós í dag. Fyrsta sinn sem ég kem þar inn (við erum búin að vera mjög sparsöm og lítið farið í bíó yfirhöfuð) og verð að segja það að sætin eru frábær, vil fá svona heim. Fengum svo popp og kók í hléinu.

Keypti mér fjóra geisladiska í dag, sá “2 fyrir 2.200” tilboðsauglýsingu og leit við í Skífunni, keypti mér Surrender (Chemical Brothers) og Discovery (Daft Punk) í fyrra hollinu, átti reyndar Surrender fyrir en hann hvarf fyrir mörgum vikum síðan og ég sætti mig ekkert við það. Discovery hef ég svo hlustað á aftur og aftur undanfarnar vikur, fékk þann disk nefnilega á MP3-formi þegar hann kom út, og líkaði svo vel að ég fékk mér hann núna.

Í seinna hollinu (eftir Hugvitskynninguna) skrapp ég svo í Skífuna í Smáralind, sá þar Melody A.M. (Röyksopp) og Live On Brighton Beach (Fatboy Slim), á tilboði sem “Heitt! 2 = 1.000 kr. afsláttur” og smellti mér á það. Líklega langt þangað til að ég kaupi mér aftur diska nú þegar að veruleiki íbúðareigandans er á næsta leiti.

Í kvöld skaust ég svo í Seljahverfið í fyrsta sinn í 3-4 ár, fór í fyrsta sinn yfir nýju brúna (Breiddin-Mjóddin) og Egill lóðsaði mig svo um Seljahverfið á áfangastað í gegnum gemsann. Kolólöglegt athæfi en refsilaust þangað til á næsta ári.

Talandi um lög, okkur hefur nokkra grunað sterklega um árabil að boxsalur væri á ákveðnum stað í bænum, við höfum heyrt í höggum og ískri ýmiss konar koma af neðri hæðinni. Í kvöld sá ég svo að þar var opið inn og kíkti, sá þá staðfestinguna á grun okkar. Fullbúinn og stór boxsalur með allt sem ég get ímyndað mér að boxarar vilji. Núna þarf þessi aðili ekki lengur að fela sig og sínar tómstundir, sem er gott mál. Sjálfur mun ég hins vegar ekki stunda þessa íþrótt, mér er annt um hausinn á mér.

You may also like...