Rafmögnuð óheppni

Ég get svarið það. Það koma dagar þegar ég er handviss um að ég er með eitthvað gígantískt segulsvið í kringum mig sem steikir öll rafmagnstæki á heimilinu.

Fartalvan mín hefur verið smám saman að missa sambandið að aftan við flest öll jaðartæki og það er frekar bagalegt, sérstaklega þegar rafmagnið fer að klikka líka.

Sambyggði DVD/myndbandsspilarinn okkar er nýfallinn úr ábyrgð og hefur því tekið upp á því að bila, hver einasti geisladiskur sem settur er í hann snýst bara til eilífðarnóns.

Það lítur út fyrir viðgerðir í næstu viku.

Fórum í dag í fermingarveislu hjá frænku minni, Írisi Elvu. Fyrsta sinn sem Sigurrós fer í indjánatjaldið í Mjóddinni og í annað sinn hjá mér. Prýðisgaman, það eru mööörg ár síðan að ég lét sjá mig á fjölmennum samkomum og mörgum gekk illa að þekkja mig aftur, mér gekk einnig misvel að þekkja aftur fólkið í yngra kantinum sem var í neðri hluta grunnskóla síðast þegar ég sá það en núna orðið fjallmyndarlegt og jafnvel ráðsett. Það verður meira um mig á svona samkomum í framtíðinni.

Rökstuddur grunur leikur reyndar á því að ég hafi verið elsti einstaklingurinn á svæðinu sem ekki á afkvæmi, þessi fjölskylda er afar virk við fjölgun mannkyns.

Ekki var það verra að happadrætti var sett í gang og hlaut ég fría klippingu og Sigurrós fékk páskaegg númer 1.

Tengill dagsins er viðtal við Macy Gray.

Comments are closed.