• Uncategorized

Frelsið í dag

Áhugavert er að fylgjast með Magnúsi í Afganistan en hann er þar staddur við uppbyggingarstarf. Ég væri til í að leggja mitt af mörkum en tölvuþekking mín er kannski ekki alveg það sem þarf þessa dagana þarna fyrir austan.

Á meðan slátrarar Bandaríkjamanna og Breta “frelsa” írösku þjóðina frá sjálfri sér er verið að taka fyrir mál samkynhneigðra í Texas en þar er BANNAÐ að eiga mök við aðila af sama kyni, hvort sem er í heimahúsi eður ei.

Það brýtur víst ekki í bága við þessa heilögu stjórnarskrá Bandaríkjanna að gera samkynhneigt kynlíf (ekki samkynhneigð, bara kynlífið sko… ) ólöglegt og handtaka fólk fyrir það á þeirra eigin heimilum.

Ég sá einmitt síðustu mínútuna af ræðu sem Bush hélt í dag á meðal hermanna, þar sagði hann frómlega frá því að frelsi væri ekki gjöf Bandaríkjanna til heimsins, heldur gjöf til mannkyns frá guði.

Ég ældi í huga mínum.

Bandaríkin eru “Land hinna frjálsu”, nema þú sért samkynhneigður, fátækur nú eða styður ekki ríkisstjórnina 100%. Þá ertu and-amerískur réttdræpur andskoti.

Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera virðist vera vonarglæta í Arabaheiminum, hún pirrar bæði Ísraelsmenn, Bandaríkjamenn, Sádi-Araba og aðrar fúlmennskustjórnir og er því greinilega að gera eitthvað af viti. Kauphöllin í New York hefur hins vegar hent fréttamönnum hennar út, segir að það sé ekki lengur pláss fyrir þá. Einnig hafa tölvuþrjótar herjað á vefsetur stöðvarinnar og tekið þau niður auk þess sem hýsingaraðili enska hluta Al-Jaazera hefur sagt þeim upp, Bandaríkjamenn vilja ekki hýsa fjölmiðil sem dregur ekki taum Bandaríkjanna í einu og öllu og sýnir þá jafnvel í slæmu ljósi!

Þetta er frelsið í dag gott fólk. Frelsið til að hugsa eins og George W. Bush og Davíð Oddsson eða deyja smánardauða ella, hvort sem af völdum veikinda, fátæktar eða sprengikúlu.

You may also like...