Rannsóknarblaðamennska

Hitamálin eru fyrir neðan strikið en fyrst koma léttari tíðindi.

48 pör ætla að gifta sig nakin á Jamaica (Deiglan segir reyndar Hawaii, léleg rannsóknarblaðamennska á ferð þar). Mér finnst þetta stórsniðugt en held að ég kæmist ekki langt með hugmyndir í þessa veru hvað mitt brúðkaup varðar 🙂

Apple-notendur geta nú smíðað eigin vefþjónustur á einfaldan hátt með Konfabulator. Þannig getur venjulegt fólk með litla tölvuþekkingu smíðað smáforrit sem að uppfæra stöðugt það sem viðkomandi hefur áhuga á, auðvelt á að vera að fá veðurfréttir, verðbréfafréttir og fleira til að birtast uppfært og jafnvel smíða stærri forrit. Mér finnst þetta óhemju svalt, valdið til venjulegra notenda.

Englendingar töpuðu 3-1 fyrir Áströlum í kvöld, fyrsta tap þeirra í knattspyrnu fyrir gömlu nýlendunni. Wayne Rooney lék seinni hálfleikinn og varð þar með yngsti landsliðsmaður Englands. Fyrir leikinn efuðust margir um gildi þess að hafa 17 ára táning í landsliðinu en eins og bent er á hér þá er ekki hikað við að senda 17 ára gutta í stríð. Skrítinn heimur.

Útvarpsmaður í Frakklandi hefur hafið framleiðslu á Mecca-Cola og beinir því gegn Coca-Cola sem hann segir styðji Zíonistana í Ísrael (Zíonismi er stefna meðal harðlínugyðinga og á hvað mestan þátt í stofnun Ísrael og fantalegri framgöngu gegn öðrum en gyðingum í “landinu helga”). Samkvæmt þessari frétt (frá WND sem er mikið vígi bandarískra hægri harðlínumanna) eru til Arafat-snakkflögur og fleiri vörur sem stefnt er gegn vestrænum vörum.

Vladimír Pútín fær bráðum afhenta nýja forsetaþotu sína sem kostar 300 milljón dollara enda eru þrír barir og klósettið jafnast í verði á við gullklósett dómsmálaráðherrans okkar, 75.000 dollarar sem eru tæpar 6 milljónir. Reyndar eru áfengiskaup ekki innifalin í verði þotunnar.


Þegar ég var yngri velti ég því fyrir mér að gerast blaðamaður, tilvalið til að fletta ofan af meinum samfélagsins. Þessa dagana er ég greinilega í þeim gír, ætli það haldi ekki aðeins áfram í rannsóknafréttamennsku minni.

Til eru samtök í Bandaríkjunum sem vilja að 21. öldin verði hin nýja öld Ameríku, þeir eru staðfastir á því að forysta Bandaríkjanna í nýjum heimi sé þeim og öllum öðrum fyrir bestu.

Þarna má meðal annars lesa þessa ítarlegu langloku um eðlismuninn á milli stefnu Bandaríkjanna og Evrópu í alþjóðamálum en ætli heimurinn verði betri þegar að stóri bróðir er farinn að anda ofan í hálsmálið á hverjum þeim einstaklingi sem gæti haft aðrar skoðanir en valdhafar í Bandaríkjunum?

Bandaríkin sem lögregla heimsins er ekki rétt hugtak, hlutverk þeirra er nær því að vera mafía, þegar að lýðræðislega kjörnir valdhafar annara landa eru ekki þóknanlegir Bandaríkjunum leysa Bandaríkin málið með íhlutun (Salvador Allende í Síle 1973, Mohammed Mossadegh í Íran 1953, Jacobo Arbenz í Gvatemala 1954, Cheddi Jagan í Gíana 1964, Patrice Lumumba í Kongó 1964 og fleiri og fleiri og fleiri) og algjör einvaldsstaða þeirra nú um mundir eykur hættuna á því til muna.

Eins og liðið hjá New American Century og fleiri benda á þá gætu Bandaríkin hegðað sér enn verr en þau gera núna, það hins vegar þýðir ekki að ráðamenn þar hagi sér til fyrirmyndar. Þeir eru með langan syndalista og hika ekki við að bæta við hann.

Það er þó ekki allt slæmt við Bandaríkin þó að utanríkisstefna þeirra sé oftast svona gerræðisleg og ég fari hér mörgum ófögrum orðum um ráðamenn þar. Í Kentucky eru ráðamenn nú að setja reglur sem segja að allt íbúðarhúsnæði sem er byggt þar sem að ríkið hefur hönd í bagga verður að hafa aðgang að háhraða nettengingum. Þar sem það eru aðallega íbúðir fyrir þá verr settu sem að ríkið kemur að þá er þetta augljóslega til að tryggja netaðgang efnaminna fólks. Netaðgangurinn gefur þeim tækifæri á að finna vinnu og mennta sig. Netaðgangur er orðinn að mannréttindum, mikilvægið er sama og læsi hefur.

Comments are closed.