Enn eitt lénið

Lénið StarWars.is er nú komið á vefþjóninn minn. Ýmsar hugmyndir í gangi. Ekkert komið í gang. Reyndar ekki í fyrsta sinn sem að ég hef puttana í þessu léni, henti upp smá fréttasíðu þegar að lénið var fyrst skráð fyrir mörgum árum.

Tilvitnun dagsins:
“matters not that Padilla is a United States citizen captured on United States soil” (src)

Þarna er sumsé bandarískur ríkisborgari handtekinn í Bandaríkjunum fyrir hálfu ári síðan. Bush undirritar tilskipun þannig að hann er gerður að óvini ríkisins og settur í umsjón hersins þar sem hann hefur verið síðan án dóms. Þau eru lítil þessi mærðu réttindi ef að þetta er hægt, ein skipun frá forsetanum og dómstólar gerðir óþarfir. Flækjast örugglega bara fyrir.

Það er ekki að ManU mönnum að spyrja, nú vill rekstrarstjóri þeirra fækka atvinnuliðum í Englandi niður í 40. Hinir mega éta það sem úti frýs, þetta er gömul saga frá ManU en sjaldan verið orðað jafn nákvæmt og núna. Vissulega eru mörg félög í fjárhagskröggum en það er vegna vitleysunnar sem fór í gang, að borga mönnum tugmilljón króna laun á viku! Enginn rekstur stendur undir því, hvort sem það er knattspyrnulið, pizzastaður eða fjárfestingabanki. Áður en geðveikin fór í gang lifðu hins vegar öll deildarliðin 92 ágætis lífi.

Annan daginn í röð kemur sjálfsmorð við sögu, núna er það ung listakona sem að drepur sig á listsýningu en það tekur sinn tíma fyrir alla að átta sig á því að líkið sé alvöru og ekki hluti af gjörningi.

Þessir glæpamenn eru magnaðir, 15 manna hópur í Brasilíu réð ekki við fenginn sem voru tveir hraðbankar. Þeir redduðu sér því vinnuafli með því að ræna strætisvagni og neyða farþegana til að hjálpa sem og gesti á nálægum bar.

Áhugaverðar fréttir fyrir píanóleikara og kaldranalegar fyrir píanóstillingamenn. Það er búið að búa til píanó sem stillir sig sjálft!

Comments are closed.