Gunnar Birgisson

Sá glitta í Gunnar I. “Box” Birgisson í sjónvarpinu áðan. Þar talaði hann um hvernig “þjóðfélagið færi úr skorðum og verðbólga á flug” ef að kennarar fengju þær launahækkanir sem þeir krefjast.

Við skulum hafa eitt á hreinu. Gunnar Birgisson, minn fyrrum samstarfsmaður í Kópavogspólitíkinni (fyrir 8-12 árum) er með síðustu mönnum sem getur gagnrýnt kennara. Fyrir utan það að þiggja laun sem þingmaður, forseti bæjarstjórnar, reka eigið fyrirtæki og vera að auki í ótal nefndum (allt kemst þetta fyrir í 8 tímum á dag? ætti hann ekki að vera í hlutastarfi í þessu öllu til samræmis við vinnuframlag?) þá sat hann beggja megin borðs þegar ríkið flutti grunnskólakennara yfir til sveitarfélaga.

Hann veit því fullvel að ríkið reyndi að losna ódýrt úr þessu, flutti grunnskóla til sveitarfélaga en voða lítinn pening til að vega upp á móti þessu.

Þegar forystumenn sveitarfélaga barma sér yfir því að eiga ekki pening til að borga kennurum þá eiga þeir að gera kröfu á ríkið, ekki kennara, að taka það á sig.

Eiga kennarar að líða fyrir það að Alþingi og sveitarfélög klúðruðu þessum flutningi grunnskólanna? Er það þeim að kenna að sveitarfélög líta á þá sem ígildi barnapía, láglaunafólk sem á ekki að ybba sig heldur bara passa börnin á meðan að foreldrarnir eru að vinna í “alvöru vinnu” (sumsé ekki kennslu…) ?

Þetta klúður, þar sem Gunnar Birgisson samdi meðal annars við sjálfan sig, er komið frá Alþingi og sveitarfélögum. 75% landsmanna telja að kennarar hafi það þegar nógu gott, 75% landsmanna vita greinilega ekki betur.

Launakönnun VR sýndi að lægstu meðallaunin voru hjá starfsmönnum á kassa, 156 þúsund meðalgrunnlaun. Þetta eru byrjunarlaun nýútskrifaðs kennara. Kassastarfsmenn njóta samúðar minnar, þetta er líklega taugatrekkjandi starf. En ábyrgðin sem felst í því að afgreiða viðskiptavini er langt í frá sú sama og að sjá til þess að 18 til 28 nemendur fái einstaklingsmiðaða kennslu. Kassastarfsfólk tekur ekki vinnuna með sér heim, fer yfir kassakvittanir og býr til nýjar. Það gera kennarar með heimavinnuna og fá ekki borgað fyrir. Kassastarfsfólk hefur ekki lokið háskólanámi til að stunda vinnu sína.

Launakönnun VR sýnir svo allan þann fjölda starfa þar sem ólært starfsfólk fær mun meira borgað en kennarar með 40 ára starfsreynslu, kassafólkið er bara lægst launað og samt með sama og nýútskrifaðir kennarar.

Skoðaðu það Gunnar Birgisson. Þú vilt líklega vel en þú veist ekki betur. Lesið svo nýjasta pistilinn hjá Sigurrós.

Comments are closed.