HM:D23 – Ekki minn dagur

Ekki byrjaði dagurinn vel, fyrst náðum við okkur varla upp úr rúmi, svo eftir að hafa skutlað Sigurrós dó pústið á leið í vinnuna.

Ég er enn draghaltur, Brasilíumenn unnu Tyrki, mig vantar fleiri millistykki út af loftnetinu og svo er hitt og þetta vesen í gangi varðandi það að koma íbúðinni í tipp topp lag.

Ljós punktur við daginn í dag var að finna tónlist með Terranova, fyrirtaks tripp-hopparar með talsverðu hipp-hopp ívafi. Er að hlusta á plötuna “Close the Door”.

Brasilía 1-0 Tyrkland
Vandamálið hjá Tyrkjunum var einfalt, það heitir Hakan Sukur. Hann er búinn að vera arfaslakur allt HM en liðið hefur fylkt sér að baki hans og reynt að koma honum í gang. Það hefur ekki gengið hingað til og gerði það ekki heldur í þessum leik. Í staðinn fyrir að reyna sífellt að koma honum í gang átti að taka hann út af og setja lifandi sóknarmann inn á í staðinn fyrir svefngengilinn. Tyrkirnir spila fantafínan fótbolta og mun betri en Brasilíumenn. Það sem færir Brasilíumenn hins vegar í úrslitaleikinn er galdramáttur framherjanna þeirra. Þeir þurfa ekki að gera einn einasta hlut allan leikinn fyrir utan þrjár sekúndur þegar að þeir galdra eitthvað og úr verður mark. Ronaldo bjó sitt mark til sjálfur með fínu hlaupi og skotið kom öllum að óvörum, einfalt táarskot sem að Rüstü var nálægt því að halda úti en vantaði aðeins uppá.

Reyndar er ég ánægður með þetta táarskot per se, sjálfur hef ég oft gripið til táarskota í fótbolta og skorað nokkur flott mörk þannig, í vinklana og svona. Það hefur ekki breytt því að menn hafa litið á mig og hnussað fyrir að hafa ekki skorað sama mark á sama glæsilega hátt nema hvað með innafótar-/utanfótar-/ristarskoti. Ég hef aldrei skilið þetta, af hverju þykir ófínt að skjóta með tánni þegar að það skilar góðu og jafnvel glæsilegu marki? Þegar táarskot er tekið þarf meira að segja meiri nákvæmni til að boltinn fari þangað sem honum er ætlað, smá ónákvæmni og boltinn getur farið í 90° beygju.

Lifi táarskot, merki manna sem kunna fótbolta og hafa ekki fordóma.

Áhugavert:

  • FIFA’s comedy of errors
  • Noble Korea bow out at last
  • Most loyal football fan in the world
  • Comments are closed.