Monthly Archives: February 2002

Uncategorized

Stafrænir flutningar

Það er víst svo að þegar að skipunina su vantar í linux stýrikerfið hjá manni, þá eru góðar líkur á að óprúttinn aðili hafi komist inn á hana og fiktað. Þá er öruggast að strauja gjörsamlega allt og byrja upp á nýtt. Í kvöld hef ég því verið að vinna í því að færa vefina aftur yfir á varavélina, áður en ég fer að setja upp Debian (linux-dreifing).

Mike benti mér á það að núna vilja G14 (stærstu lið Evrópu) fara að loka meistaradeildinni gjörsamlega fyrir minni þjóðum, svo að Íslendingar og Norðmenn (sem þeir nefna sérstaklega til sögunnar) fari ekki að þvælast fyrir flottu fótboltaliðunum þeirra. Þannig að skamm á Rosenborg fyrir að vera eitthvað að vinna þessi glæsilið, bara hættum að hafa Rosenborg með. Áhugaverð lausn. Ég tryllist ef þetta verður málið, Mike er nú þegar að semja yfirlýsingu fyrir hönd WFF.

Að lokum, þá er leiðinlegt að sjá hvað Bandaríkjamenn eru tilbúnir að stimpla allt með “Made in USA” og “USA No 1!” stimplunum sínum. Nú eru grey vetrarólympíuleikarnir að fá að kenna á því. 15.000 hermenn að auki ásamt herþyrlum og orustuþotum. Bush mælti svo fleyg orð: “I’m so confident about the security situation that I came,”.

Áhugavert:

  • Tölvukerfið fyrir Vetrarólympíuleikana
  • Scotland star was first black footballer
  • Fans banned for keeping Bayern up all night
  • Uncategorized

    Mazdan sem taldi sig Lödu

    Fann áhugaverðan miðil í dag, af Vefgáttinni minni fór ég á Salon (sem oftar áður), þaðan fann ég svo Phoenix New Times, mjög vandaðan fréttamiðil í Arizona. Þar fann ég svo aftur mjög áhugavert ritsafn um hvalveiðar, þar sem að þessi grein vakti mikinn áhuga minn. Góð blaðamennska, nokkuð sem að skortir hér á landi. Hugsa að ég kíki á þennan miðil oftar.

    Hitti pabba í dag þegar ég fór í bankann að ná í eyðublöð fyrir greiðslumat (já, maður er víst að fara að taka stökkið…). Hann skipti við mig á bíl og á meðan að ég var í vinnunni þreif hann bílinn og skrapp með hann til Brynjars pústkalls sem að lagaði verstu óhljóðin. Mazdan var farin að halda sig Lödu, og þó að eftirhermur séu ágætis skemmtikraftar þá var þessi orðin frekar þreytt.

    Áhugavert:

  • Altered estates
  • Bush Watch
  • Kylie Minogue auglýsir nærföt
  • Uncategorized

    Póstkort frá Sviss

    Það snjóaði það mikið í gærkveldi og í nótt að núna lítur allt út eins og á póstkortum frá Sviss og öðrum snjóþungum stöðum, 5 sentimetra lag ofan á hverri einustu trjágrein.

    Sigurrós var að opna bloggið hjá sér, ég óska henni að sjálfsögðu til hamingju með það, gaman að fá fleiri góða penna á netið, hún er annars búin að vera að skrifa síðan 1. janúar en opnaði það ekki fyrr en núna.

    Var þokkalegur í bakinu í dag, þar til að ég fór í skólann, verri vinnuaðstaða þar en heima.

    Sé að maður þarf að fá sér Stöð 2 og Sýn í júní og júlí til að sjá HM. Spurning hvort þeir ætli að vera ógeðslegir refir og selja bara 6 mánaða pakka… eða hvort þeir ætli að vera almennilegir og selja okkur bara þá 2 mánuði sem maður vill.

    Uncategorized

    Bakmeiðsli

    Var að færa vefþjóninn til og tengja aftur í hillu í þokkalegri hæð og var í undarlegri fettu þegar ég hélt turninum uppi með annari hendi og tengdi að aftan með hinni. Held ég hafi tognað í baki, fór snemma heim úr vinnu og geng nú um skakkur og skældur, aðeins skánað verkirnir með kvöldinu en samt helvíti vont.

    Maður gleymir því alltaf eftir smá tíma að maður þarf að passa bakið á sér, eftir að hafa tognað tvisvar áður (körfubolta og fótbolta…).

    Áhugavert:

  • Listening to the Web on the Radio
  • Uncategorized

    Vefþjónn með hiksta

    Vefþjónninn byrjaður að hiksta enn meir en áður. Þurfti í dag fimm endurræsingar á tíu mínútum áður en hann komst loksins alveg upp. Fékk undarlegar villur eins og að RAID-ið væri ekki til staðar, SIG: sigfault og önnur undarlegheit við ræsingu. Spurning um að fara að uppfæra alla súpuna, bæði MySQL, PHP, Apache og linux-kjarnann sjálfan.

    Ef að það dugar ekki til þá er spurning um að færa sig yfir í annað stýrikerfi, FreeBSD eða… ahem… Windows.

    Áhugavert:

  • Bush með undarlega forgangsröð
  • Amelie hlýtur 13 tilnefningar til frönsku Cesar-verðlaunanna
  • Uncategorized

    Sunnudagur

    Sem oftar þá er mest bara dundað á sunnudögum, fátt af viti gert.

    Alltaf jafn áhugavert að sjá Bandaríkjamenn vera duglega að skrá sig á spjöld sögunnar sem níðinga, þessa athæfis þeirra sem nú er í gangi verður minnst sem eins svartasta bletts þeirra (og eru þeir þó nokkrir). Þetta er bara beint úr 1984.

    Uncategorized

    Árshátíð 002

    Fórum á árshátíð Hugvits, sem að núna hét Árshátíð 002 (Bond þema) og var sumsé haldinn 02.02.02 og miðaverð var 2002. Mikið gaman hjá skemmtinefndinni.

    Húllumhæið var haldið í félagsheimili Kópavogs, langt síðan að ég kom síðast þar inn um dyr. Flott atriði í byrjun, þegar að bak við rauða tjaldið birtust tvær stúlkur innan í ljóskeilum og fettu sig og brettu við Bond-tónlist. Alveg nauðalíkt byrjun í alvöru Bond-mynd.

    Verst að ég fékk smá magakveisu… var það kínverski maturinn síðan í gær eða var það humarsúpan?

    Áhugavert:

  • Reservists Balk at Occupation, Roiling Israel
  • Uncategorized

    Chemical Brothers

    Var aðeins andvaka í nótt (líklega spennufall vegna verkefnaskila og svo sykurinn á pönnukökunum) þannig að ég settist fram og hlustaði aftur á Come with Us, nýja diskinn frá Chemical Brothers. Fyrsta yfirferð var svona með hálfum huga þar sem ég var að dútla í hinu og þessu á meðan, en núna greip diskurinn mig heljartökum. Kannski 1-2 lög á honum sem ég flokka sem bara svona miðlungsdæmi, en restin er gargandi snilld (þetta er hæsta stig snilldar í mínum orðaforða).

    Fór enn og aftur að velta fyrir mér áhrifamætti tónlistar, og þess hvað hún virðist eiga sterk tök í mér, þó að laglaus sé sjálfur og falskur. Ég var nærri því að tárfella þegar ég hlustaði á Star Guitar, einhvern veginn þá snertir tónlist þeirra Efnabræðra (sem og margra annara) mig mjög svo. Er kannski takturinn sem notaður er takturinn minn (samanber að allir hlutir eiga sér ákveðna tíðni)? Er eitthvað í tónlistinni sem að hvetur ákveðin efnaskipti í heilanum á mér?

    Hvað svo sem það er, þá er það frábært og ég vona að ég tapi því aldrei. Einn diskanna sem að er týndur úr safni mínu er einmitt Surrender, ef hann finnst ekki bráðlega þá er málið að kaupa annað eintak.

    Chemical Brothers eru gargandi snillingar.

    Tenglar:

  • Chemical Movies and Audio
  • Chemical Brothers Spent Months Refining Formula For Come With Us