Monthly Archives: February 2002

Uncategorized

Sjónvarpsþáttur æðri mannslífi?

Á flakki mínu rakst ég á þessa síðu þar sem að kemur fram að kvöldið sem að kosningin um sigurvegarann í fyrsta Survivor fór fram þá voru malasískir málaliðar sem að umkringdu staðinn, “Every man carries an automatic weapon”. Þessi viðbúnaður var til þess að enginn gæti laumað sér að svæðinu til þess að sjá hver var kosinn sigurvegari. Spurningin er hvort að “shoot to kill” hafi verið dagskipunin?

Í dag er annars búið að vera illþolandi við á #niceland og einstaka vefleiðarar öpuðu meira að segja eftir vonda manni dagsins, sem að heitir Tolli. Venjulega hinn vænsti drengur, í dag fékk hann alvarlegt andlegt áfall og tók þó nokkra aðra með sér í þá djúpu gjá. Í dag var hástafadagur hjá honum og meðþolendum hans. Mér var eigi skemmt.

Yfirfærslan á Garrincha tefst í einn dag í viðbót vegna anna við vinnu.

Uncategorized

Garrincha

Garrincha er nú kominn í gang (en það er nýja nafnið á vefþjóninum mínum), sem áður var það Egill sem að flýtti fyrir öllu, ég er núna að fikta mig áfram með Postgre-uppsetninguna, og á morgun flyt ég öll lénin aftur yfir, á þessa líka mun hraðvirkari vél en grey varaþjónninn er.

Uncategorized

Rauðhöttur snýr aftur

Í dag gafst ég upp á því að setja vefþjóninn í gang með Debian. Að setja allt upp var í sjálfu sér ekkert vandamál, en RAID-ið komst aldrei í gang. Egill skutlaði Red Hat 7.2 diskum til mín og á 10 mínútum eða svo var ég búinn að setja upp stýrikerfi með RAID-1 stuðningi, og það í mjög notendavænu umhverfi. Red Hat install er einfaldara en Windows svei mér þá.

Í kvöld skruppum við Sigurrós í innflutningspartý hjá Gumma og frú. Flott 126 fermetra íbúð í Ásahverfinu í Hafnarfirði með svaka útsýni, verst að það er eiginlega uppá heiði :p . Sigurrós var með hálsbólgu og ég nenni ekki að djamma á veturna (snjór og kuldi fara ekki vel saman með áfengi) þannig að við fórum rétt fyrir miðnætti.

Ekkert miðar í baráttunni gegn reykingum, ég held að hérna segi fyrirsögnin allt sem segja þarf. Ef að þetta er titlað barátta gegn reykingum, þá er auðvitað borin von að hún vinnist, því að ef það er eitthvað sem að er ungu fólki að skapi þá er það uppreisn og barátta. Þetta ætti frekar að vera svona “ég er ekki vitlaus” herferð eða eitthvað álíka sem að sýnir bara fram á það hversu hrikalega heimskulegar reykingar eru (“ógeðs”auglýsingarnar eru skref í þá átt). Svo lengi sem orðin barátta, stríð og herferð eru ekki notuð þá á er von til þess að eitthvað gangi.

Uncategorized

Swordfish

Tókum Swordfish á DVD í kvöld og hvílík ógnarinnar skelfing er sú ræma. Eftir að hafa sýnt aðdáunarverða þolinmæði gáfumst við upp og flettum á lokaatriðin, suddalega vond mynd, sem að fær þumla og stórutær niður.

Áhugavert:

  • Pump up your laptop
  • Enga smokka takk, segja greddu… uhh.. kreddukallar
  • Uncategorized

    Miðannarpróf og WinXP

    Fór í miðannarprófin, var inni í 20 mínútur í Gluggakerfum 1 og held að það hafi gengið bærilega, prófið í Stýrikerfum 1 var undarlega orðað, hef ekki hugmynd hvort ég svaraði því sem spurt var um.

    Eftir prófin skrapp ég á skrifstofuna og fékk WinXP, sem ég er búinn að setja upp í dag, nokkrum sinnum (fiktandi við ýmsar stillingar og drivera-samsetningar, sem sumar hverjar fóru illa).

    Vandamálið með bendilinn(caret) sem hverfur í sumum forritum er ekki að leysast, ég skil ekki hvað er í gangi, kannski einhver sniðugur notendafítus sem að MS bætti við.

    WinXP lítur sæmilega út, það er mikill minnishákur en ég sé hvert MS er að stefna með þessu, og það er sæmileg þróun hvað góð notendaskil varðar. Margt slæmt sem að MS gerir, en margt áhugavert líka sem að færir okkur nær samfélagi þar sem talvan er jafn auðveld í notkun og síminn.

    P.S. Ég á ennþá eftir að hamra það ofan í íslenska málnefnd að talva er jafnrétthátt og tölva (völva… ég bara spyr…).

    Uncategorized

    Próflestur… takmarkaður

    Ætlaði að lesa undir miðannarprófin sem eru á morgun, en gekk illa að koma mér að því, renndi yfir einhverjar glósur en þess utan gerði fátt af viti.

    Minnir að Dune-bókin sem ég las (sjá færslu gærdagsins) hafi verið House of Harkonnen. Annar hluti seríunnar í kvöld, líst vel á þetta.
    Áhugavert:

  • Warming world ‘means longer days’
  • Olympic First: Father and Son Go Luge to Luge
  • Uncategorized

    Dune

    Fyrsti hluti af þremur í sjónvarpsseríunni sem gerð er eftir Dune-sagnabálknum var að enda á RÚV (langt síðan ég hef horft á eitthvað yfir höfuð á RÚV, og þó er nauðungaráskrift að henni). Virðast mjög vandaðir þættir í flesta staði. Hef lesið 2 bækur úr Dune-heiminum, það var fyrir tíma dagbókarinnar þannig að ég get ekki grafið upp nöfnin á þeim, en þær voru ágætis lesning minnir mig.

    Mike benti mér á áhugaverða frétt um nýjan knattspyrnuvöll í München, sem mun heita Allianz Arena og verða heimavöllur Bayern og TSV 1860. Mjög svo óvenjulegur völlur, þýskir gárungar hafa þegar uppnefnt hann björgunarvestið eða björgunarbátinn.

    Uncategorized

    Uppsetningardagur (aftur)

    Jæja já. Setti upp Debian einu sinni enn á vefþjóninum, ein lokatilraun í nánd við að setja upp RAID (tækniheiti).

    Ítrekaðar björgunartilraunir héldu áfram að bera engan árangur á fartölvunni, því var síðasta hálmstráið gripið og Gluggar (Windows) settir upp á nýtt. Öll gögnin héldust inni en núna þarf ég að keyra uppsetningu (setup) fyrir flestöll forritin sem ég notast við, aðeins einstaka sem að geta keyrt án þess að troða einherjum .dll skrám og fleiru í kerfismöppuna.

    Sigurrós er komin á RSS-listann.

    Þetta var íslensk færsla, með tveimur tækniskammstöfunum.

    Uncategorized

    Hugbúnaðarhelvíti

    Þetta er búin að vera hrikaleg helgi . Debian-uppsetningin hefur klúðrast nokkrum sinnum sökum þess að RAID-1 er ekki að fara í gang hjá okkur, og höfum þó lesið einar 4-5 How-To greinar á netinu. Allt annað var komið í himnalag, en raid-fimleikarnir þurrkuðu það allt út (bókstaflega).

    Kiddi benti mér á að ég er með TV-Out á fartölvunni, þannig að í dag prófaði ég það. Það virkaði ágætlega, nema að allt varð svarthvítt þegar ég fór í “Full screen”, þannig að ég fór á opinberan uppfærsluvef Microsoft, og náði þar í nýja skjárekla sem að opinber uppfærsluvefur Microsoft mælti með. Opinberi uppfærsluvefur Microsoft má núna éta það sem úti frýs fyrir mér, því að núna krassar fartölvan í hvert sinn sem hún er ræst eðlilega upp, og bláskjárinn sem kemur vísar á… nýja skjárekilinn sem að hinn æruverðugi opinberi uppfærsluvefur Microsoft benti á. Ég er búinn að taka þennan skjárekil út og setja hann inn aftur, ég er búinn að setja eldri skjárekla inn og alltaf er sama niðurstaðan, bláskjár þar sem að nýi/gamli skjárekillinn er tilfnenfndur sökudólgur. Ég er orðinn hrikalega pirraður á þessu, síðasta alvarlega reklavandamálið frá Microsoft sem að ég (og Sigurrós) lenti í var ekki lagað fyrr en mörgum mánuðum seinna, í nokkru sem nú er þekkt sem Þjónustupakki 2.

    Ég neita að lifa við það að þurfa að keyra fartölvuna mína í svokölluðu VGA-mode (en þá eru skjágæðin afskaplega takmörkuð), ég er farinn til Seattle að öskra á nokkra vel valda einstaklinga.

    En vitiði hvað… Sheffield Wednesday vann um helgina… og það er ekkert að hjálpa mér.

    Uncategorized

    Debian

    Svarti bíllinn minn sem pabbi gerði svo glæsilegan er orðinn öskugrár af salti og drullu, í örfáa klukkutíma var hann hreinn og flottur.

    Færði alla vefina yfir á varaþjóninn í dag, straujaði því næst aðalvefþjóninn og fór að byrja á Debian uppsetningu. Ætlaði að vera voðalega duglegur og lesa mig í gegnum allt og leysa ferlið sjálfur en þegar að netsamband lét á sér kræla kom Kiddi til bjargar. Hann tók við uppsetningunni og nú er aðeins eftir að gera vélina raidaða áður en ég fer að flytja vefina aftur yfir og stilla og svona á morgun.

    Mér finnst öll umgjörðin í kringum suður-ameríska dansa mjög fyndin, svona búningur held ég að sé standardinn, konurnar súkkulaðibrúnar í því sem næst engu, og karlarnir súkkulaðibrúnir með opið í bringu og löðrandi hár. Fínir dansar, fyndin umgjörð.

    Áfram með umræðuefni úr ölllum áttum, í Mogganum í dag voru auglýsingar vegna prófkjörs Sjálfstæðismanna í Kópavogi. Fyndið að sjá allt sama fólkið í þessu og síðast og þarsíðast (þegar að ég var viðriðinn þetta svo um munaði, er núna óflokksbundinn með öllu). Sá reyndar að einn frambjóðandinn til 1.-2. sætis var búinn að reyna að gera sig virðulegri með því að safna smá skeggi, mér fannst það ekki vera að virka (né kjósendum samkvæmt þessum tölum).

    Áhugavert:

  • The Battle of Bull Run, Take 2
  • EU’s Patten criticises US foreign policy
  • Arrogance and fear: the American Paradox