Hugbúnaðarhelvíti

Þetta er búin að vera hrikaleg helgi . Debian-uppsetningin hefur klúðrast nokkrum sinnum sökum þess að RAID-1 er ekki að fara í gang hjá okkur, og höfum þó lesið einar 4-5 How-To greinar á netinu. Allt annað var komið í himnalag, en raid-fimleikarnir þurrkuðu það allt út (bókstaflega).

Kiddi benti mér á að ég er með TV-Out á fartölvunni, þannig að í dag prófaði ég það. Það virkaði ágætlega, nema að allt varð svarthvítt þegar ég fór í “Full screen”, þannig að ég fór á opinberan uppfærsluvef Microsoft, og náði þar í nýja skjárekla sem að opinber uppfærsluvefur Microsoft mælti með. Opinberi uppfærsluvefur Microsoft má núna éta það sem úti frýs fyrir mér, því að núna krassar fartölvan í hvert sinn sem hún er ræst eðlilega upp, og bláskjárinn sem kemur vísar á… nýja skjárekilinn sem að hinn æruverðugi opinberi uppfærsluvefur Microsoft benti á. Ég er búinn að taka þennan skjárekil út og setja hann inn aftur, ég er búinn að setja eldri skjárekla inn og alltaf er sama niðurstaðan, bláskjár þar sem að nýi/gamli skjárekillinn er tilfnenfndur sökudólgur. Ég er orðinn hrikalega pirraður á þessu, síðasta alvarlega reklavandamálið frá Microsoft sem að ég (og Sigurrós) lenti í var ekki lagað fyrr en mörgum mánuðum seinna, í nokkru sem nú er þekkt sem Þjónustupakki 2.

Ég neita að lifa við það að þurfa að keyra fartölvuna mína í svokölluðu VGA-mode (en þá eru skjágæðin afskaplega takmörkuð), ég er farinn til Seattle að öskra á nokkra vel valda einstaklinga.

En vitiði hvað… Sheffield Wednesday vann um helgina… og það er ekkert að hjálpa mér.

Comments are closed.