Uncategorized

Allir eru Picasso

Listalíf

Allir geta nú hermt eftir Picasso. Verulega töff.

Löggulíf

Eitt sem ég skil ekki varðandi nýfallinn dóm um lögreglumann sem að handtók pilt fyrir að taka mynd af honum á skyndibitastað. Lögreglumenn segja (í blöðunum í dag, nafnlaust!) að þessi dómur (og annar svipaður) setji þegnana í hættu og erfiði þeim störf þeirra.

Mér er spurn í hverju hafa störf þeirra falist? Þarna var klárlega um að ræða ólöglegar handtökur og falsaðar skýrslur af hálfu lögreglumannanna, eru aðrir lögreglumenn að segja með yfirlýsingum sínum að þetta sé venjuleg hegðun þeirra?

Hvorugt tilfellið var vegna ofbeldis af hálfu þolenda en samt dirfast lögreglumenn að segja að þetta geri starf þeirra erfiðara við að halda niðri ofbeldi? Mig er farið að gruna að þeir séu orðnir sumir hverjir veikir fyrir álíka retórík og litla ljóta Hvíta Húsið ástundar, við megum allt og berum enga ábyrgð?

Uncategorized

Nemo fundinn

Kvikmyndir

Ótrúlegt en nokk en þá fórum við í bíó í kvöld, mánuðir síðan síðast. Fyrir valinu varð Finding Nemo með ensku tali. Prýðisgóð skemmtun og snillingarnir hjá Pixar eru magnaðir listamenn. Á undan myndinni er sýnd Knick, Knack sem er stórskemmtileg teiknimynd frá Pixar síðan 1989 um snjókarl og raunir hans inni í snjókúlu. Höfum séð hana nokkrum sinnum áður en alltaf vel skondin.

Skóli

Ég náði stærðfræðiprófinu þrátt fyrir að hafa kolfallið á tíma í því og sleppt tveim dæmum og klúðrað öðrum tveimur minnir mig.

Ekki glæsileg einkunn en ég er ekki að velta mér upp úr því lengur.

Uncategorized

Jújú

Allt í fínu og svona, hósta örlítið enn en allt á góðri leið.

Uncategorized

Magnað

Alveg mögnuð nótt. Sofnaði um eittleytið og fyrir utan smá gelt klukkan hálf-sex í morgun þá svaf ég til ellefu. Líklega jafnmikill svefn og alla síðastliðna viku samtals.

Lyfin eru að virka, lungu og háls að komast í samt lag hægt og rólega en grey maginn og nýrun fá virkilega að vinna fyrir því að brjóta niður lyfin. Úff… eins og það sé steypukúla föst við bringspalirnar.

Fengum í kvöld örheimsókn frá Bjarna og Unni.

Uncategorized

Stórafmælisdagur

Pabbi átti fimmtugsafmæli í dag og í tilefni af því ákvað ég að skjótast út úr húsi til að heilsa upp á hann og gesti hans. Entist því miður ekki lengi sökum hóstakasta en held að þetta hafi heppnast mjög vel hjá honum.

Félagið hans pabba gerðir sér svo lítið fyrir í tilefni dagsins og vann mitt félag, QPR vann Sheffield Wednesday með 3 mörkum gegn engu.

Svo vill til að mamma á afmæli sama dag og pabbi, við rétt litum inn til hennar og óskuðum henni til hamingju með árin 47 sem og nýja heimilið áður en við fórum heim með mig geltandi á allt og alla.

Uncategorized

Gelt gelt

Bark(abólgan) og bronkítisinn að fara með mig, kominn með lyf reyndar en það tekur tíma að vinna á þessu. Var heima í dag og þarf að forðast að vera úti, einkum núna þegar svona kalt er í veðri, fer illa með lungun.

Uncategorized

Tzzzddffffff

Ég held að heilinn á mér sé að falla saman, líður ótrúlega undarlega í hausnum. Sökudólgurinn er auðvitað þessi undarlega pest sem að hangir í hausnum og hálsinum og hefur þýtt svefnlausar nætur undanfarna daga, ég hef rétt kríað út tvo tíma hér og þar yfir daginn til að vega upp á móti andvökunóttunum.

Uppfært:
Fengum lækni í heimsókn, niðurstaðan er sú að ég er með barkabólgu og bronkítis. Skilst að bronkítis sé algengur hjá reykingamönnum, ef þeir kalla svona yfir sig sjálfviljugir þá eru þeir greinilega verulega klikk.

Uncategorized

Frá Ameríku

Það eru væntanlega með óvæntari endalokum að deyja í Disneyland.

George W. Bush er svarti sauðurinn í fjölskyldunni, eins og hann játaði fyrir Bretadrottnigu, bróðir hans Neil er greinilega ekki mikið betri og virðist vera að þiggja nokkurs konar mútur frá syni Jiang Zemin.

Uncategorized

Sjúkralíf, símalíf og Warp snillingar

Sjúkralíf

Voðalega er ég orðinn ÓGURLEGA pirraður og þreyttur á því að vera geltandi alla daga og nætur. Það er lítill svefn sem maður hefur fengið undanfarna daga og hálsinn logar að innan þrátt fyrir ýmiss konar hjálparmeðul sem duga ekki til.

Símalíf

Fór í gær og fékk mér GSM-reikning hjá OgVodafone. Um leið gat ég uppfært nettenginguna okkar þannig að hún verður nú tvöfalt meiri hjá okkur. Það ætti vonandi að sjást hraðaukning þegar vefirnir okkar eru skoðaðir og þá einkum myndasöfnin.

Aðalástæðan fyrir skiptunum frá Símanum GSM eru þau þó að þar á bæ voru þeir að hækka flestöll gjöldin, þar sem heimilissíminn, Sigurrós og flestir sem ég tala við eru hjá OgVodafone þá hefði þetta farið að telja verulega. Ég get að auki ekki alveg samþykkt að fyrirtæki sem skilar 1,6 milljarði í hagnað þurfi að hækka gjaldskrána hjá sér. Ég er því alfarinn yfir til OgVodafone með öll mín viðskipti.

Tónlist

Warp Records, sem eru ofarlega á lista hjá mér yfir góð plötufyrirtæki, ætla samkvæmt nýjustu fréttum að gera ALLT tónlistarsafn sitt aðgengilegt á netinu gegn vægu gjaldi fyrir hvert lag. Að auki verða engar aukaverkanir eins og að einungis sé hægt að spila viðkomandi lag á einni tölvu eða þess háttar. Hljómar alveg brilljant

Uncategorized

Hóstað alla nóttina

Tja ekki var þetta nú nógu sniðugt. Svaf ekki í nema tvo tíma í nótt, restina lá ég eða sat hóstandi og snýtandi mér. Fór svo í próf klukkan 13 og er ekki að búast við glæsilegum niðurstöðum í ljósi fyrrnefndra athafna. Einstaklega pirrandi og ekki víst að ástandið verði mun betra í nótt, við höfum verið að keppast við að hósta undanfarnar nætur.

Í Perú eru harðvítugar deilur í gangi þannig að unglingaliðin leika nú í stað meistaraflokkana og það mælist ekki alls staðar vel fyrir eins og ólætin sem hindruðu einn leikinn stefndu að og tókst að ná.

Svo vissi ég ekki þetta um krókódílana.