Uncategorized

Rafmögnuð óheppni

Ég get svarið það. Það koma dagar þegar ég er handviss um að ég er með eitthvað gígantískt segulsvið í kringum mig sem steikir öll rafmagnstæki á heimilinu.

Fartalvan mín hefur verið smám saman að missa sambandið að aftan við flest öll jaðartæki og það er frekar bagalegt, sérstaklega þegar rafmagnið fer að klikka líka.

Sambyggði DVD/myndbandsspilarinn okkar er nýfallinn úr ábyrgð og hefur því tekið upp á því að bila, hver einasti geisladiskur sem settur er í hann snýst bara til eilífðarnóns.

Það lítur út fyrir viðgerðir í næstu viku.

Fórum í dag í fermingarveislu hjá frænku minni, Írisi Elvu. Fyrsta sinn sem Sigurrós fer í indjánatjaldið í Mjóddinni og í annað sinn hjá mér. Prýðisgaman, það eru mööörg ár síðan að ég lét sjá mig á fjölmennum samkomum og mörgum gekk illa að þekkja mig aftur, mér gekk einnig misvel að þekkja aftur fólkið í yngra kantinum sem var í neðri hluta grunnskóla síðast þegar ég sá það en núna orðið fjallmyndarlegt og jafnvel ráðsett. Það verður meira um mig á svona samkomum í framtíðinni.

Rökstuddur grunur leikur reyndar á því að ég hafi verið elsti einstaklingurinn á svæðinu sem ekki á afkvæmi, þessi fjölskylda er afar virk við fjölgun mannkyns.

Ekki var það verra að happadrætti var sett í gang og hlaut ég fría klippingu og Sigurrós fékk páskaegg númer 1.

Tengill dagsins er viðtal við Macy Gray.

Uncategorized

Sparkað af heilsugæslunni

Fékk í dag bréf frá heilsugæslunni í Grafarvogi þar sem bent er á að ég hafi ekki lengur lögheimili þar og vegna lítils fjölda lækna og mikils fjölda íbúa sé verið að sparka út öllum sem ekki hafi lögheimili þar.

Þetta er í annað sinn sem mér er sparkað af heimilislækni, síðast var það þegar við fluttumst úr Kópavogi í Grafarvoginn, þá var það heilsugæslan í Kópavogi sem mátti ekki meira með mig hafa.

Hittum nýju nágrannana okkar í dag, virðist mesta prýðisfólk.

Í miklum verslunarleiðangri í kvöld hittum við Örn og Regínu og fengum þar merkilegar fréttir af fólksfjölgun.

Tengill dagsins fjallar um tengsl eineltis og vopnanotkunar sem þykja víst nokkur.

Uncategorized

Fréttafærsla

Fyrir utan verkefnavinnu hefur fátt gerst í dag.

Hermaðurinn sem átti að hafa lifað af þegar Írakar skutu 7 skotum eða svo í nýtískuhjálminn hans hefur viðurkennt að þetta hafi verið grín hjá honum og félögum hans.

Strætóbílstjórar Bagdad hafa keyrt þó að stríð hafi verið í gangi, núna eru þeir í vandræðum þar sem óaldarflokkarnir hafa verið að ræna strætisvögnunum þeirra.

Uncategorized

Málæði, hraðari nettenging og sumardekk

Matti er með vökult auga með dagbókinni minni og svarar tveim síðustu færslum mínum hjá sér, og auðvitað stenst ég ekki mátið og svara fyrir mig, hann svarar og ég svara aftur. Svo er Ragnar þarna líka að tjá sig. Við Matti erum víst orðnir duglegir að ræða málin á hinum ýmsu athugasemdakerfum, það kemur kannski að því að ég spyrji hann hvernig honum tókst að slípa af sér kílóin, ég hef reyndar ekki farið yfir 91 kíló en það er þó 15 kílóum of mikið miðað við þá gömlu góðu daga þegar ég var upp á mitt besta.

Stríð er annars ekki tölfræði, 1.300 eða 30.000 látnir eru bara tölur. Ég er bara svo mikill einstaklingshyggjumaður að mér finnst hvert líf verðmætara en svo að því megi fórna sem peði í refskák pappírspésa.

Annars er allt enn brjálað á götum úti í Írak þó að ástandið fari örlítið skánandi hér og þar, það er víst orðið svo lítið eftir til að ræna hvort sem er.

Looting decreases in Iraq cities, but there is not much left to take
Thieves of Baghdad Iraq’s suffering continues unabated
Red Cross workers desperate
Protests as looting in capital goes unchecked

Í dag komst hins vegar internettengingin við Íslandssíma í gagnið, það hefði þó verið skemmtilegra ef maður hefði verið látinn vita af því að búið væri að ýta á takkann í símstöðinni.

Ég mun ekki sakna símtalanna við svörtu hítina sem nefnist 800 7000 í daglegu tali.

Þetta er annars búinn að vera voðalega mikill mánudagur í dag, langt síðan að ég upplifði svona pirrandi dag. Sveiattans Java að gera manni lífið leitt, fartalvan orðin sambandslítil við náttúrulega lyklaborðið mitt og rafmagnsleiðslan farin að detta út við minnsta hnjask.

Ég komst þó loksins á sumardekkin og spæni því ekki malbikið upp fyrr en í lok haustsins.

Í gærkveldi náði ég svo loksins að gefa mér tíma til að lesa bókina Acts of the Apostles. Þetta er bók sem sækir sitthvað til 1984 og Brave New World en byggir á genabreytingum og nanóvélmennum, varpar upp nokkrum skuggalegum möguleikum sem verða brátt á færi okkar að nota. Fínasta lesning.

Uncategorized

Björn segir sína hlið

Björn Bjarnason sendi mér svarpóst í dag en í gær sendi ég honum tengil á færslu mína þar sem hann kom talsvert við sögu. Hann þakkaði mér fyrir sendinguna en kvaðst ekki dreyma um að verða hermaður eða hershöfðingi.

Hann skrifaði reyndar ekkert um þá fleti sem ég velti upp varðandi kolólöglegar og siðlausar aðgerðir stríðsaðila, ætli maður verði ekki að ganga á menn með ítarlegan spurningalista og krefjast svara í eigin persónu.

Annars skilst mér að Björn hafi verið að miklu leyti alinn upp á hæðinni fyrir neðan núverandi aðsetur Betrabóls. Lítið land.

Í gær bakaði Sigurrós pizzur og við buðum pabba, Daða og Kára í kvöldmat. Kári var næturgestur hjá okkur í tvær nætur og þar áður í einar sjö eða átta hjá pabba þar sem mamma og Teddi fóru í golfferð til útlanda. Aðspurð var víst eina vandamálið hversu mikil sól var, þau eru víst bæði léttsteikt núna.

Í morgun leit pabbi svo við með Mannsa sér við hlið. Mannsi var mættur til þess að hefla dyrakarminn á svaladyrunum svo við gætum komist út á þær án mikilla vandræða. Vatnsveðrið í vetur hefur haft þau áhrif að allir karmar hafa tútnað gríðarlega út og þurfti umtalsverð átök til að opna, hvað þá loka.

Í dag sem undanfarna daga hef ég svo verið að vinna í DMC-kerfinu ásamt félögum mínum, þetta er stóra lokaverkefnið á leið okkar að B.Sc.-gráðunni.

Uncategorized

Sófahershöfðinginn

Í morgun gerði ég undantekningu á reglu sem ég hef yfirleitt í heiðri. Ég hef það sumsé fyrir reglu að lesa aldrei þruglið sem kemur frá Birni Bjarnasyni í miðopnu Morgunblaðsins, það grætir mig yfirleitt að sjá skoðanir þessa manns sem er ekki eingöngu fyrrverandi ráðherra heldur einnig núverandi alþingismaður og borgarfulltrúi (of margir sem sitja þannig beggja megin borðs).

Í dag var það innrásin í Írak sem Björn var að rifna af stolti yfir. Hann fordæmir svo sófahershöfðingjana sem hafa látið í ljós efasemdir um útfærslu hinnar guðlegu dýrðlegu innrásar sem var gerð til þess að…

  • finna og eyða gereyðingarvopnum Íraka… þau hafa ekki fundist
  • gera út af við al-Qaeda sem Írakar styðja… en er bara algjör lygi eins og leyniþjónustumenn Bandaríkjanna, Bretlands og Ísraels hafa sagt
  • frelsa írösku þjóðina… frá Saddam og setja hana í hendur óaldarflokka sem tæma sjúkrahús og aðrar stofnanir af öllu sem þar er að finna á meðan að hermenn horfa á
  • frelsa írösku þjóðina… með því að skjóta litlar stelpur og litla stráka, konur og menn, fréttamenn og fleiri sem eru á vitlausum stað á vitlausum tíma eða líta ekki nógu friðsamlega út að mati bandarískra hermanna á táningsaldri
  • koma Saddam frá völdum… sem er langbest að gera með því að skjóta eldflaugum á veitingahús þar sem grunur lék á að hann væri, þeir sem voru í raun og veru á veitingahúsinu að snæða voru bara afskaplega óheppnir, þetta heitir annars aftaka án dóms og laga og er kolólöglegt eins og flest annað í stríðinu

Bíddu.. hver var aftur ástæðan? Ég er alveg búinn að gleyma hvaða afsökun þeir notuðu síðast. Birni er nákvæmlega sama enda klæjar hann illilega í að komast í slátrunina sjálfur.

Björn Bjarnason er nefnilega maðurinn sem að vill ólmur að Íslendingar eignist sinn eigin her og ætli hann, Sófahershöfðingi Íslands, verði ekki fyrsti hershöfðingi þess hers?

Þetta stríð er rangt ekki eingöngu vegna láts óbreyttra borgara heldur líka vegna þess að hegðun Bandaríkjanna jafnast nú fyllilega á við Sovétríkin gömlu. Ég bendi á litla frétt í Morgunblaðinu þar sem segir:

“lista 55 Íraka sem Bandaríkjaher gaf út í gær og fyrirskipaði að Írakarnir á listanum skyldu annað hvort handsamaðir eða drepnir”

Það er ekkert flóknara en það, gefinn út aftökulisti. Engir stríðsdómstólar, engin réttarhöld, engar sannanir. Bara hreinn og klár aftökulisti. Stríðsglæpum Bandaríkjanna fer ógvænlega fjölgandi. Fangarnir á Guantanamo sitja enn í einangrun og án lögfræðiþjónustu.

Velkomin í heim nýmálsins (newspeak, sjá bókina 1984) þar sem valdhafar skipta út orðum fyrir bull sem kemur þeim betur, þar sem hermenn eru ólöglegir bardagamenn og því ekki undir neina sáttmála seldir, þar sem herinn heldur ekki uppi lög og reglu á stöðum þar sem hann sprengir yfirvöld í tætlur, þar sem aftökulistar eru gefnir út, þar sem eldflaugum er skotið á mannmarga staði til að drepa aðila án dóms og laga. Frá Dýrabæ (Animal Farm) kemur svo Ísland, gaggandi hæna í liði með svínunum sem eru að slátra öllum sem ekki eru svín.

Þetta er verra en á hinum myrku miðöldum, þetta er að verða hreinasta helvíti.

Uncategorized

Könnun sem skiptir máli

Rétt um mánuður í kosningar og þeir sem verða ekki á landinu þegar þær fara fram ættu að fara að drífa sig að kjósa í utankjörfundaratkvæðagreiðslu (er ekki til þjálla orð?). Kosningaloforð og stefna flokkanna er mismunandi og oft óljós. Nú er loksins hægt að finna könnun þar sem þú getur séð hvernig skoðanir þínar samræmast helstu stefnumálum flokkanna.

Ég birti hér niðurstöðuna mína, tók skjáskot og færði hausinn til svo þetta kæmi skemmtilegar út.

Tékkaðu á þinni skoðun á Afstaða.net, þetta er auðvitað óvísindalegt en bendir þér kannski á hvaða kosti þú ættir að kynna þér betur.

Uncategorized

Oz

Í gær bárust fréttir af nokkurs konar andláti Oz sem er nú haldið á lífi af viðskiptabönkum sínum. Fyrirtækið hefur aldrei skilað hagnaði, stofnendur þess segja að þeir hafi verið á undan sinni samtíð og margt sem er að koma fram í farsímakerfum í dag sé árangur starfs þeirra. Mér fannst reyndar alltaf voðalega undarlegt hvað það kom lítið úr þessu fyrirtæki sem virtist hafa úrvals tæknifólk, skildi aldrei lætin í kringum hvað það væri æðislegt þegar það hafði aldrei neitt sem það gat selt.

Í sögu dot-com æðisins verður Oz kannski minnst fyrir einhver frumkvöðlaskref í farsímaheiminum, það eru mörg önnur fyrirtæki sem hafa floppað mun verr.

Uncategorized

Bagdad hernumin

Land persónufrelsis (sem á reyndar ekki við) og lýðræðis (ekki alveg, einhver heyrt um Allende og Pinochet í Síle svo dæmi sé tekið?) hefur nú á hreint frábæran hátt náð að þurrka út fleiri fréttamenn en dæmi eru um síðustu áratugi.

Þessir sómamenn hafa líka náð að slátra íröskum borgurum (sem og öðrum) af miklum móð og eru svo voðalega leiðir yfir því að vera svona vondir og vitlausir en halda áfram samt.

“In the most serious incident, the Afghan Government said 48 civilians – mostly women and children – were killed and 117 injured when a US AC-130 plane opened fire on a wedding party.

A US investigation concluded that the air crew were justified in attacking because they had come under fire.” (src)

Í dag eru svo aðalfréttirnar að hermenn Bandaríkjanna eyða styttum af Saddam og gera loftárásir á matsölustað þar sem grunur lék á að Saddam væri. Tugir óbreyttra matargesta féllu en ekkert er vitað um Saddam.

Ég sem hélt að farið hefði verið út í stríðið vegna gjöreyðingarvopna sem Írakar áttu (en hafa ekki fundist), nei… auðvitað var það til að fella Saddam Hussein! Æ æ æ, þessir Bandaríkjamenn eru orðnir svo margsaga í þessu að enginn man hver síðasta afsökunin fyrir stríðinu var. Hins vegar leikur ekki vafi á raunveruleikanum, þeir hafa drepið hundruð saklausra manna og segjast vera voða leiðir yfir því en svona sé stríð.

Má ég biðja næsta mann sem segir að mannfall óbreyttra borgara sé óhjákvæmilegur fylgifiskur stríðs, sem hann styður, vinsamlegast að fórna sér í þágu einhvers sakleysingjans. Fyrst að stríðið er svona réttlátt að það réttlæti dauða sakleysingja þá hlýtur að vera minnsta málið að fórna sjálfum sér fyrir málstaðinn og lífi einhvers sakleysingjans. Hvað segið þið annars, Björn, Davíð, Halldór og allir hinir sem styðja “réttlátt” stríð? Hvenær ætlið þið að bjóðast til þess að fórna börnunum ykkar eða sjálfum ykkar á altari hins réttláta stríðs?

Aldrei. Þessir menn eru pappírpésar.

Næsta innrás verður í beinni útsendingu frá Sýrlandi, Rumsfeld segir að þeir séu eitthvað með puttana í Írak og það er auðvitað ekki liðið.

Uncategorized

Próflok

Í dag eru komin fjögur ár hjá okkur Sigurrós.

Prófið í dag gekk þokkalega, gæti meira að segja náð! Bíð rólegur eftir dómsorðinu.

Innrásin stendur enn yfir í Írak. Árásaraðilarnir eru misgrimmir, Bandaríkjamenn virðast mun byssuglaðari en Bretarnir enda flestir yngri og óreyndari en hinir. Fréttamenn láta lífið unnvörpum, flestir af völdum Bandaríkjamanna, nú síðast bombuðu þeir skrifstofu sjónvarpsstöðvarinnar al-Jazeera og skutu á hótel sem hundruð blaðamanna búa á og drápu þar ljósmyndara Reuters.

Það er líka björt framtíðin hjá æskunni sem verið er að frelsa, eða þannig.