Uncategorized

Rólegur sunnudagur

Já. Sigurrós komin heim en verður samt grasekkja næstu dagana þar sem ég er í verkefnavinnu næstu vikurnar.

Nýtt kalt stríð er í gangi, Indland og Kína keppast nú um að byggja stærri og betri eldflaugar og vilja komast á tunglið.

Sjálfstæðisflokkurinn er að missa marga þessa dagana, nú síðast Gulla sem líst ekkert undanfarin verk ríkisstjórnarinnar og fullkomnu skeytingarleysi hennar fyrir lýðræðislegum hefðum, sanngirni og tjáningarfrelsi.

Á föstudögum birtir Vísindavefurinn oft skondin svör og þetta er með þeim betri.

Landsbankinn býður svo upp á stólajóga.

Uncategorized

Stórsigur

Sheffield Wednesday hefur ekki tapað leik núna í talsverðan tíma og unnu í dag stórsigur, 7-2 á móti Burnley á útivelli. Þetta breytir því þó ekki að hræðileg frammistaða mánaðanna á undan hefur komið þeim niður í aðra deildina.

Áhugamenn um eimreiðar og tónlist fá smá fróðleiksmola um Casey Jones á þessari síðu.

Hljómsveitin Dixie Chicks lenti í miklum hremmingum þegar þær lýstu því yfir að þær væru á móti hernaði Bandaríkjanna í Írak. Þær ætla nú að svara fyrir sig með því að sitja naktar fyrir.

Góðar fréttir svo úr heimi samskiptanna, lögfræðingaher bíður ósigur fyrir skynseminni.

Uncategorized

Hommi og hommaatferli er ekki hið sama

Bandarískur þingmaður var að verja lög í Texas sem banna kynmök samkynhneigðra manna (sodomy). Hann hefur víst ekkert á móti hommum sem slíkum en hefur mikið á móti kynlífi þeirra.

“And that includes a variety of different acts, not just homosexual,” he said. “I have nothing, absolutely nothing against anyone who’s homosexual. If that’s their orientation, then I accept that. And I have no problem with someone who has other orientations. The question is, do you act upon those orientations? So it’s not the person, it’s the person’s actions. And you have to separate the person from their actions.”

Lesa má um þetta hérna.

Uncategorized

Fínn dagur

Langur dagur í verkefnavinnunni. Allt gengur eins og smurt. Fátt annað af mér að frétta þessa dagana.

Uncategorized

Lakkrís, sumarvinna og barnatennur

Vinna við verkefnið hélt áfram.

Sigurrós fékk sumarvinnu í dag þannig að þar er stóru fargi létt. Hún skilaði líka inn lakkrís sem við keyptum og reyndist vera ársgamall (ekki þarf að hafa dagsetningu á sælgæti fyrr en 1. júní). Fengum fimm nýja poka í stað þessa eina. Aldurinn sást víst á munstri umbúðanna sem var breytt fyrir nokkru.

Tengill dagsins er keimlíkur einum frá því í gær, svo virðist sem að stofnfrumur (sem geta víst hjálpað hjartasjúklingum) sé að finna í barnatönnum og það meira að segja mjög sprækar stofnfrumur, tannálfurinn fer kannski að geta bjargað mannslífum?

Uncategorized

Fátt markvert

Það er bara verkefnavinnan í gangi. Hittum kennarann í dag og allt er ljómandi hjá okkur eins og vera ber.

Þrír tenglar í dag:

iAbolish – vefur sem berst gegn þrælahaldi sem er enn við lýði víða um heim

Online, Some Bloggers Never Die

Own stem cells help heart – merkileg tíðindi sem gætu bjargað mörgum hjartasjúklinginum.

Uncategorized

Soffía sjötug, stórveldi fellur

Enn og aftur tek ég mér frí frá verkefnavinnu að kvöldi til.

Tilefnið núna var að halda upp á sjötugsafmæli ömmu á veitingastaðnum Madonnu.

Þetta var notaleg kvöldstund með henni og börnum hennar og mökum þeirra. Ég var fulltrúi barnabarnanna (þeirra elstur) og auðvitað var Sigurrós mér við hlið. Ekki var svo verra að mamma og Teddi buðu okkur þannig að kvöldið létti ekki í pyngjunni.

Í dag féll eitt af stærri liðum Bretlands niður í aðra deildina (sem áður hét þriðja deildin). Þetta eru mínir menn í Sheffield Wednesday. Öll nótt er þó ekki úti þó að svona hafi farið. Manchester City var fyrir stuttu í þessari stöðu en náði að hreinsa til og byggja upp og er nú í þokkalegum málum í úrvalsdeildinni (áður nefnd fyrsta deildin). Það er vonandi að mínir menn taki sér það til fyrirmyndar.

Tengill dagsins er á grein um líklega mesta internet land Evrópu, Eistland.

Uncategorized

B-mynd, James B-mynd

Lokaverkefnið er á góðum skrið þökk sé gífurlegri vinnuhörku hópfélaga minna. Annað kvöldið í röð tek ég mér frí og hef það náðugt á meðan að þeir strita.

Kvöldið var kósýkvöld. Þetta er fyrsta hátíðin okkar sem við ákváðum að hafa á heimilinu, jólum og áramótum var varið í foreldrahúsum sem endranær. Núna vildum við prufa að vera út af fyrir okkur og það tókst bara prýðilega. Appelsínulamb og bakaðar kartöflur, ostaterta, páskaegg og smá snarl voru á matseðli kvöldsins á meðan að við horfðum á eina prýðisræmu og aðra verri.

Prýðisræman nefnist About a Boy og var vel þess virði að horfa á. Verri ræman heitir Die Another Day og er úr ofur-B-mynda flokknum góðkunna um James Bond. Við sáum ekki fram á að endast í rúma tvo tíma yfir greyinu þannig að við fórum snemma að spóla yfir á fyndnu atriðin og bar þar íshöllin á Jökulsárlóni einna hæst. Það er ekki tilviljun að það eru mörg ár síðan að ég gerði mér ferð í kvikmyndahús til að sjá Bond bregða á leik, þetta er skelfilega klént.

Tengill dagsins er á umfjöllun um mynd sem ég held svei mér þá að sæki talsvert í Annie og skyldar myndir.

Uncategorized

Óvinurinn fær sneið

Við erum nýflutt með okkar síma- og internettengingu til Íslandssíma. Eins og flestir vita hefur það batterí nú skipt um nafn og nefnist Og Vodafone.

Fáir hafa lýst yfir hrifningu með þetta nafn sem mér finnst sjálfum algjört skrípi. Tengsl Vodafone við Manchester United fara illa í suma en allra verst finnst mér þó að Vodafone sé styrktaraðili Ferrari í formúlunni. Sem McLaren-manni finnst mér það verulega vafasamt að vera viðskiptavinur Vodafone. Spurning hvort þetta reynist óheillaskref og Og Vodafone hendi út seinni hlutanum. Mættu alveg henda fyrri hlutanum út líka og velja sér eitthvað nafnorð.

Fékk í dag fyrstu einkunn af fjórum, náði strjálu stærðfræðinni en ekki var það glæsilegt.

Ekki klikka ég á tengli dagsins, í dag er hann á grein um Nigellu Lawson sjónvarpskokk og nefnist Food Porn.

Uncategorized

Smá lesning

Renndi í dag yfir tvö af betri vefritunum sem ég hef lesið. Smelli hér inn nokkrum áhugaverðum greinum sem ég fann.

Áhugafólk um margspilunarleiki á netinu gæti haft áhuga á að lesa grein sem nefnist Who killed Miss Norway?

Í Bandaríkjunum fjölgar trúfélögum og þar er farið að verða vart við talsverð vandræði á vinnustöðum sökum þröngsýni bæði vinnuveitenda og samstarfsmanna en einnig krafna starfsmanna.

Óöldin í Írak og áhrif hennar á sagnfræðileg verðmæti eru eðlilega mál málanna þessa dagana. Reynt að varpa ljósi á sögulegt gildi þessara muna í þessari grein sem og þessari. Hjálparsamtök fá ekki að fljúga með hjálpargögn til Norður-Íraks, Bandaríkjamenn segjast ekki vera búnir að tryggja allt en aðrir aðilar segja að allt sé til reiðu.

Al Bawaba veltir því fyrir sér hvernig Íraksinnrásin muni koma fram í sögubókum framtíðarinnar.

Út er komin í Bandaríkjunum bók um lík sem greinir frá því hvað verður um þau, sum lenda í lýtaaðgerðarannsóknum, önnur í bílslysarannsóknum og einstaka lenda jafnvel í safnhaug sem er eingöngu samansettur úr líkum manna og þar fá ýmis kvikindi að leggja sitt af mörkum.

Bílaáhugamenn sem eiga formúgur og meira til geta fengið sér eðaldrossíur sem flestar eru skotheldar að auki.

Bjöllukúrfan sem flestir hafa lært í menntaskóla er víst að verða úrelt í nútímaþjóðfélagi, ýmist kaupir fólk ódýrustu vörurnar eða þær dýrustu, lítið þarna á milli. Þetta á víst við um fjölmargt og má lesa um í þessari grein.

Að lokum ein klaufafrétt, snillingur hjá CNN setti óvart minningargreinar um Jóhannes Pál páfa, Ronald Reagan, Dick Cheney og fleiri í loftið. Þeir eru allir lifandi ennþá þó.