Uncategorized

Svalur dagur

Öðru nafni chill dagur, bara dútlað heima, vaskað upp, texti settur á blað fyrir kynningu á DMC og smá EVE spilað.

EVE reyndar er búinn að restarta tölvunni minni og láta mig ganga í gegnum einstaka pirringskast en leikurinn heldur mér samt í heljargreipum. Vona að Matti og félagar reddi þessu á næstu dögum og vikum þannig að maður geti spilað áhyggjulaus.

Kári fékk að prufa og virðist hafa orðið forfallinn líka.

Kosningabæklingar streyma nú inn um lúguna, allir frá XD sem er akkúrat EKKI á dagskrá hjá mér.

Uncategorized

Betaskoðun og EVE

Held að Árni og Guðni hafi mætt í morgunþáttinn til að kynna uppskriftavef. Baggalútur gerir létt grín að þessu kosningabragði þeirra.

Beta-skoðunin gekk þokkalega. Þá er bara að undirbúa lokasýninguna sem verður í fyrirlestrasal fyrir áhugasama.

EVE beið eftir mér í póstinum þegar ég kom heim. Riddari flýgur nú aftur um geiminn, engir drekar hafa sést en slatti af ungmeyjum.

Uncategorized

Kaffiteríurnar hreinsaðar

Pantaði í dag EVE Online sem kemur út á morgun. 20% afsláttur í netverslun Skífunnar, áhugasamir geta pantað hérna og fengið sent heim.

Eftir að hafa pantað fékk ég að vita það að ég verð víst að taka eitt endurtektarpróf. Þá er bara málið að fá 10 út úr því.

Það held ég að margir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna ættu að skammast sín, svona lagað gerir maður ekki. Ekki ein einasta skeið eftir!

Nú á víst að fara að sleppa einhverjum frá svartholinu (í nokkrum merkingum þess orðs) í Guantanamo. Ætli það sé bara “sorry Stína, smá misskilningur” sem mennirnir fá? 18 mánuðir við vondar aðstæður og án sambands við umheiminn og hvað þá lögfræðilega aðstoð. Rumsfeld beint fyrir stríðsdómstól fyrir þessa meðferð á stríðsföngum (víst voru þeir stríðsfangar Rumsfeld minn! Já nei! Ekkert svona bull! Helduru að þú sért Dabbi! Voðalegt munnbrúk er þetta!).

Uncategorized

Írak boðið upp?

Pétur Rúnar benti á þessa skemmtilegu samansettu mynd af John Stockton. Ég á ennþá A3 mynd af honum sem ég bjó til með því að taka svona körfuboltakort og stækka upp í A3 með litljósritunarvél. Held það séu ein 10 ár síðan ég gerði það. NBA var í miklu uppáhaldi þá.

Það er löngu byrjað að skipta Írak upp í litlar gróðalendur bandarískra fyrirtækja. Matvælaaðstoð er varla farin að berast en RIAA eru mættir til að lengja þann tíma sem höfundarréttur gildir (25 ár eru víst ekki nóg eftir andlát höfundar, útgefendur vilja hafa þetta endalaust og tekist það næstum í Ameríkunni).

Svo eru þingmenn að berjast fyrir því að Írak taki ekki upp GSM-kerfið sem nær allar þjóðir nema Bandaríkjamenn nota, þeir eiga víst að nota dótið sem Qualcomm (sem meðal annars bjuggu til póstforritið Eudora) býr til.

Uncategorized

Matarboð

Hélt mig heima í dag við verkefnavinnu, var eitthvað illa fyrirkallaður í maganum í morgun en fór skánandi eftir því sem á leið.

Það var líka eins gott því að Örn og Regína höfðu boðið okkur í kvöldmat til sín. Þar hitti ég aftur Daníel Helga, líklega um ár síðan að ég sá hann síðast held ég bara. Hann mundi auðvitað ekkert eftir mér.

Maturinn var fínn, ísinn með jarðarberjunum enn betri og kvöldið var náðugt og ánægjulegt. Gaman að fara svona og hitta fólk… þetta verður á dagskrá í sumar þegar maður þarf ekkert að velta skóla fyrir sér.

Fyndnast þessa dagana er að sjá ráðherra, þingmenn og aðra frambjóðendur sinna alls konar fáránlegum uppátækjum. Sjálfstæðisflokkurinn sem vill “láta málefnin tala” en hamrar á “stöðugleiki! stöðugleiki!” bauð í dag í bíó á íslenskar kvikmyndir. Ætli það þýði fleiri styrki til íslenskra kvikmynda ef þeir komast aftur að kjötkötlunum?

Á mánudaginn munu svo víst tveir ráðherrar mæta klukkan 7 að morgni í morgunsjónvarpið og þar mun nýtt andlit uppskriftavefs kynnt og Bo Halldórs elda ofan í þá. Ekkert uppátæki er of tilgangslaust til að vekja athygli á sér… ég hefði átt að vera búinn að grípa gæsina og plögga fótboltavefnum! Geri það bara næst.

Uncategorized

Pele mættur

Þetta er fyrsta færslan sem ég set inn af nýuppgerðri heimavél. Kassinn er stór og svartur og eftir talsverða umhugsun varð úr að hann hlaut nafnið PELE eftir samnefndum knattspyrnumanni sem var jú stór, svartur og ótrúlega góður (eins og ég held að talvan sé núna).

Fartalvan er svo aftur Maradona og er lítil og grá og nú um mundir í hægari kantinum og dettur að auki út af og til. Það passar líka.

Uncategorized

Skýrsluvinna

Skýrsluvinna… ótrúlegt en satt þá er ég spenntari fyrir henni þessa dagana en að skrifa kóða!

Brandari dagsins var í Morgunblaðinu. Þar er Gunnlaugur Jónsson fjármálaráðgjafi handviss um að líkan sem hagfræðingurinn Sigurður Snævar er búinn að búa til sanni að einungis 2% Íslendinga (annað líkan Sigurðar sem sýnir töluna 4% er ekki rétt að mati Gunnlaugs) séu fátækir þar sem kaupmáttur hafi aukist svo svakalega. Mig grunar að í líkanið vanti grundvallaratriði eins og að heilbrigðisþjónusta hefur aldrei verið dýrari og veikt fólk tefur það í lengstu lög að leita sér lækninga af fjárhagsástæðum. Er maður ekki fátækur ef maður hefur ekki efni á þeim grundvallarmannréttindum sem heilbrigðiskerfið á að gæta? Heilsan mælist víst ekki í svona líkönum, það er ekki pláss fyrir fólk í þeim, bara framreiknaðar pappírstölur.

Uncategorized

Sumarvinna, tölvugleði og myndbönd

Dagur góðra frétta. Ég er kominn með sumarvinnu hjá Bílanausti og byrja þar strax að lokinni verkefnavinnu. Í tilefni af því og að ég fékk orlof frá Hugviti útborgað uppfærði ég heimilistölvuna og splæsti meira að segja í flottan kassa utan um uppfærsluna.

Kári benti mér á þessa frábæru síðu þar sem tölvumýs eru notaðar á ótrúlegan hátt í listsköpun.

Fyndnast er þessa dagana að fylgjast með forsvarsmönnum Frjálshyggjufélagsins bölsótast yfir einstaklingum sem eru að nýta sér markaðsmátt sinn (sem er GUÐ Frjálshyggjufélagsins) til að hafa áhrif á það hvar og hvernig þessi fyrirtæki auglýsa. Fyrir utan kaldhæðnina í þessu þá eru nokkrir þeirra á bakvið batman.is sem að er duglegur að tengja á klámefni, þessi vefur er einmitt eitt umkvörtunarefna þessara einstaklinga.

Skemmtilega léleg röksemdafærslan svo sem kom fram í Kastljósinu hjá formanni félagsins sem sýndi mikla vanþekkingu á jafnréttislögunum. Það er svo sem ekki furða því stefna félagsins er að hér verði til frumskógur þar sem einungis hinir hæfustu lifa af, ekki samfélag þar sem allir eiga rétt á mannsæmandi lífi. Frumskógarlögmálið er einu lögin sem þeir þekkja.

Í Bandaríkjunum virðast orð eins valdamesta þingmanns repúblikana um að “hommar séu í lagi svo lengi sem þeir iðka ekki hommalega hluti” vera að leiða í ljós tvískiptingu siðapostulanna innan flokksins.

Konni benti svo á mjög spennandi mynd sem kannski kemur til landsins á kvikmyndahátíð, hún heitir Winged Migration og má sjá þarna kynningu á henni.

Uncategorized

Siðgæðið

Sjúklega vondir opinberir starfsmenn sem standa fyrir svona og geta svo ekki einu sinni látið vesalings fólkið fá börnin sín aftur. Ég væri búinn að sparka þeim úr starfi.

Dixie Chicks mótmæltu þeirri meðferð sem þær fengu með því að sitja naktar fyrir á forsíðu tímarits, eins og ég hef áður minnst á. Hér er svo myndin af þeim.

Uncategorized

Kosningaauglýsingar

Ég horfi á sjónvarp einu sinni í viku og því ekki séð kosningaauglýsingar fyrr en í dag.

Framsóknarflokkurinn er með fínar auglýsingar, verst að ég trúi ekki orði af því sem er sagt í auglýsingunum og í flestum þeirra er reyndar bara verið að gera hefðbundin gylliboð.

Sjálfstæðisflokkurinn datt niður á viðeigandi þema í einni auglýsingunni sinni, flogið yfir jökul og ís og einmitt þannig mun Ísland enda undir þeirra stjórn, vonlítill og kaldur heimur í miðju Atlantshafi.

Ungir sjálfstæðismenn eru svo með arfaslakar auglýsingar þar sem ungt fólk segir “sko að ég sko bara vil bara ekkert að hlutir breytist svo sko ég geti gert áætlanir” og svo er mjög ósmekkleg persónuárás á Ingibjörgu Sólrúnu.

Ef að þetta unga fólk heldur virkilega að það sé betur sett til að gera áætlanir undir “vernd” bláu handarinnar þá er það með lélegar áætlanir. Gerir það ráð fyrir hugsanlegum veikindum? Nei auðvitað ekki, á þessum aldri er maður ósigrandi. Kerfið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill koma á að bandarískri fyrirmynd þýðir að um leið og þú veikist alvarlega þá ertu úr leik, þú ert skuldum vafinn fyrir lífstíð og hefur ekki efni á lyfjum og meðferð. Nú þegar eru margir sem hreinlega hafa ekki efni á læknishjálp og þeim fer fjölgandi.

Júlli rifjar upp afrek ríksisstjórnarinnar (partur 1).

Núna hamra margir á því að kosningar eigi EKKI að snúast um fólk. Davíð hefur verið geymdur í aftursætinu sem er ólíkt fyrri kosningum þar sem hann VAR ástæðan fyrir því að yfirhöfuð kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki nýtt að Flokkurinn snúist í marga hringi með því sem frá honum kemur, þeir gera iðullega allra manna mest af því sem þeir gagnrýna hjá öðrum.

Kosningar eiga víst að snúast um málefni en málefnin eru það fyrsta sem hverfur þegar ný ríkisstjórn er mynduð. Þá er það fólkið sem skiptir máli. Þetta er því marklaust hjal manna…. það er fólkið sem skiptir máli í kosningunum, málefnin eru alltaf fyrsta fórnarlambið í alvöru pólítiskum hildarleikjum eins og ríkisstjórnarmyndun.