Matarboð

Hélt mig heima í dag við verkefnavinnu, var eitthvað illa fyrirkallaður í maganum í morgun en fór skánandi eftir því sem á leið.

Það var líka eins gott því að Örn og Regína höfðu boðið okkur í kvöldmat til sín. Þar hitti ég aftur Daníel Helga, líklega um ár síðan að ég sá hann síðast held ég bara. Hann mundi auðvitað ekkert eftir mér.

Maturinn var fínn, ísinn með jarðarberjunum enn betri og kvöldið var náðugt og ánægjulegt. Gaman að fara svona og hitta fólk… þetta verður á dagskrá í sumar þegar maður þarf ekkert að velta skóla fyrir sér.

Fyndnast þessa dagana er að sjá ráðherra, þingmenn og aðra frambjóðendur sinna alls konar fáránlegum uppátækjum. Sjálfstæðisflokkurinn sem vill “láta málefnin tala” en hamrar á “stöðugleiki! stöðugleiki!” bauð í dag í bíó á íslenskar kvikmyndir. Ætli það þýði fleiri styrki til íslenskra kvikmynda ef þeir komast aftur að kjötkötlunum?

Á mánudaginn munu svo víst tveir ráðherrar mæta klukkan 7 að morgni í morgunsjónvarpið og þar mun nýtt andlit uppskriftavefs kynnt og Bo Halldórs elda ofan í þá. Ekkert uppátæki er of tilgangslaust til að vekja athygli á sér… ég hefði átt að vera búinn að grípa gæsina og plögga fótboltavefnum! Geri það bara næst.

Comments are closed.