Uncategorized

Boltadagur

Horfði á leik Liverpool og Arsenal ruglaðan á Stöð 2 í dag, var að dútla eitthvað og datt inn í að fylgjast með. Ekki verða Liverpool meistarar með þessu liði, það er nokkuð öruggt. Hræðileg hælspyrna Gerrards (held ég) fyrir framan vítateig Liverpool gaf Arsenal sigurmarkið.

Á meðan að Liverpool reynir að nota hælspyrnur og einnar snertingar bolta á eigin vallarhelmingi munu þeir ekki vinna deildina. Svona “fancy dan” stælar skila akkúrat engu nema mistökum, þegar ég hef séð menn með svona kæruleysisdæmi í þeim leikjum sem ég hef spilað hef ég látið þá heyra það. Svona athæfi er bara hreinræktaður idjótaskapur og því miður fyrir Liverpool þá virðast menn hrifnir af þessu þar á bæ.

Bayern München leikur dagsins var því næst, ætli þeir muni einhver tímann sýna leik sem er EKKI með Bayern? Grey Herthu Berlínarmenn í vondum málum.

Fjör að vera í bandaríska hernum, þér er ekki frjálst að giftast hverjum sem er.

Skólabækurnar kalla.

Uncategorized

Óvenju persónulegt

Já, öruggt merki þess hvað maður eldist hratt er að litlir bræður eru orðnir tvítugir og eldri. Næsta stórafmæli okkar bræðra er mitt! Það endar á núlli meira að segja! Jæja takmarkið er að vera með eins og eina háskólagráðu þá, virðist standast áætlun og vel það.

Brá mér í kerfisstjórastellingar í dag og var að til miðnættis. Skaust þá í stutta heimsókn til Arnar og Regínu, Sigurrós kemur svo með næst en hún er að heimsækja mömmu sína sem hefur saknað hennar.

Við ætluðum að vera dugleg að rækta vinasamböndin við alla vini okkar en höfum bæði verið að drukkna í vinnu. Maður verður samt að gefa sér tíma í þetta, förum eftir prófið á þriðjudag!

Annars notaði ég tímann á meðan að uppfærslur mölluðu í tölvunum til þess að líta nánar í kringum mig og þræða ranghala vöruhússins. Þegar ég var hjá Hugviti fannst mér einmitt verulega gaman að fara í fyrirtæki og stofnanir og sinna mínu starfi í nýju umhverfi þar sem maður komst að því hvað var gert á viðkomandi stöðum. Tók oft smá skoðunarferðir og hafði mjög gaman af. Væri til í að fara vikulega í svona starfskynningar hér og þar um bæinn, bara til að sjá og skilja hvað er að gerast.

Ig Nóbelsverðlaunin hafa verið afhent, þau virðast mun skemmtilegri en sjálf Nóbelsverðlaunin. Vísindalegar rannsóknir á kindaskriði á mismunandi yfirborði er auðvitað lykilatriði í ergónómíu (var búið að íslenska þetta?). Mér finnst ergónómía vera ein mikilvægasta grein 21. aldarinnar, svona áður en við verðum öll bakveik fyrir þrítugt og með sinaskeiða- og beinhimnubólgur (seint í rassinn gripið hjá mér reyndar).

Verð svo að ljúka færslu dagsins á því að minnast á hversu góðar móttökur Sigurrós fékk þegar hún flutti erindi í dag á námskeiði í Kennó. Er að sjálfsögðu afar stoltur af henni 🙂

Uncategorized

Komment dagsins

Rush Limbaugh er öfgafullur hægrimaður sem var að hætta sem einn umsjónarmanna íþróttaþáttar vegna niðrandi kynþáttaummæla. Hann er stærsta stjarna útvarpskjaftaska í Ameríku og slær BM Vallá við í árlegri steypuframleiðslu.

Bush er auðvitað mikill aðdáandi og þessi ummæli eru höfð eftir honum:

“The president noted Rush Limbaugh is a national treasure,” said one senior White House staffer. (src)

Jamm… svona svipað og Hannes Hólmsteinn er þjóðardýrgripur! Hahahahaha

Uncategorized

Geisp

Jæja, skiluðum af okkur klukkan 11 í morgun smá ritsmíð sem gildir 20% og tilgreinir framhald verkefnis sem gildir svo 40% í viðbót. Vonandi að allt gangi upp, leiðbeiningar gáfu lítið uppi.

Þoli illa svona vökunætur, aldurinn að segja til sín!

Uncategorized

Hægri halli ?

Wesley Clark sem sækist eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi demókrata er handviss um það að það hlýtur að vera hægt að slá ljóshraðamúrinn. Það væri svo sem ekki verra en er verulega ólíklegt.

Óheppinn maður lenti í því að ruslpóstari falsaði lénsnafnið hans á ruslpóstinn sinn. Greyið fékk því þvílíkan haturspóst en náði þó að finna hvaðan ruslpósturinn kom raunverulega og náði að loka á það í bili. Það er vonandi að lénið manns verði ekki svona fórnarlamb.

Efni sem notað er í bleyjum meðal annars er svo hugsanlega næsti bjargvættur bóka sem lenda í vatnsbaði. Virðist nokkuð magnað!

Fór ekki í skólann í dag, var heima að vinna að verkefni sem skila skal á morgun og að auki er ég búinn að vera undarlegur síðustu daga. Verkur sem byrjaði í taug eða vöðva í hálsinum hægra megin hefur fært sig ofar og það er eins og ég sé að fá eyrnaverk og hausverk hægra megin af og til. Afar pirrandi en virðist mikið til fara eftir hreyfingum og stellingum sem ég er í?

Endurgreiddi LÍN í dag rétt tæpar 40 þúsund krónur sem þeir segja að hafi verið mistök að láta mig fá og það hafi verið mér í óhag að fá þær? Ég sendi þeim póst þar sem ég fór fram á að endurskoða þetta fáránlega orðalag, það væri greinilega mér í óhag að þurfa að auka yfirdráttinn til að borga námslán sem er ekki einu sinni gjaldfallið.

Uncategorized

Kirkjugarðar, fita og geggjun

Rússarnir eru hoppandi yfir því að Lettar opnuðu kirkjugarð fyrir lettneska SS-meðlimi með pomp og prakt. Við þá athöfn var minnst á að þessir menn hefðu gengið í SS til að berjast móti Rússagrýlunni. Rússunum finnst þetta súrt og gleyma alveg því hve illa þeir fóru með Eystrasaltsríkin, Lettarnir eru bara vanþakklátir!

Dave Barry er nokkuð góður greinahöfundur, hann er með eina góða grein hér: He ain’t heavy — he’s fat.

G e g g j a ð   að gera í skólanum, miðannarpróf, skýrslur og heimaverkefni að hlaðast upp.

Uncategorized

Tréð sem drap Ítalíu

Þetta er nú alveg magnað, svo virðist sem að trjágrein hafi tekið rafmagnið af Ítalíu. Það þarf ekki mikið til, þessi rafmagnsleysisfaraldur undanfarnar vikur er nokkuð magnaður.

Time Magazine listar kurteisislega upp nokkur atriði varðandi Írak og Bush í greininni So, What Went Wrong?

Nú er bara að vona að Räikkonen vinni í Japan og Schumacher sprengi dekk eða dúndri sjálfum sér útaf. Það er eina vonin! Bévítans rigning að eyðileggja fínan kappakstur.

Uncategorized

Dóri enskudjöfull og skondið bíó

Sigurrós gerir verkum dagsins ágæt skil. Þegar við vorum hjá ömmu heyrðum við þessa líka nauðgun á enskri tungu í sjónvarpinu, var ekki utanríkisráðherrann mættur og gerði gjörsamlega út um alla möguleika á að Ísland væri tekið alvarlega sem aðili að Öryggisráðinu. Ég efast um að menn vilji hafa okkur þar ef þeir geta ekki einu sinni skilið hvað embættismenn okkar segja! Grey Dóri, hann er bara hræðilegur í enskunni sem er helvíti bagalegt fyrir Ísland á alþjóðavettvangi.

Tölfræðin sýnir víst að Bagdad var öruggari þegar Saddam var þar við völd. Grátlegt. Í Ameríkunni vilja menn svo fá syni sína og dætur heim frá Írak og finnst helvíti hart að missa þau vegna lyga Bush.

Las í gærkveldi þessa grein um móður sem að veitti fjölfötluðum syni sínum líknardauða. Hann lenti í bílslysi og var bara fangi í eigin líkama eftir það.

Arianna Huffington er einn aðalframbjóðendanna til fylkisstjóra í Kaliforníu. Hún gerir mikið út á húmorinn eins og sést í þessum fyndnu auglýsingum þar sem hún tekur aðalkeppinautana fyrir: The Special Interest Brothel og Hybrid vs. Hummer – The Movie.

Uncategorized

Vinna, kolkrabbar, Apple, Segway og Moussaoui

Ofurduglegur í vinnunni í dag, geystist inn og á 5 tímum tókst mér að redda öllu sem einhverjum hafði nokkru sinni dottið í hug að væri sniðugt að fá/laga.

Frá Wired koma fréttir af því að kannski getum við brátt séð svipað og kolkrabbar sjá, Apple er að breyta lógóinu aðeins og Segway farartækin eru hættuleg þegar lítið er eftir af batteríinu.

Nú í Ameríkunni þá vilja menn alls ekki að Moussaoui fái að yfirheyra aðra sem taldir eru hafa verið tengdir 11. september 2001. Frekar fella þeir niður kærur gegn honum, það varðar víst þjóðaröryggi að fá að heyra sannleikann.

Uncategorized

Öryggi í tölvuskjá?

Fyrir margt löngu fékk ég mér toppvél, heil 233 MHz og ég beið í 2 vikur eftir að 13GB diskurinn kæmi í hús. Með þessari eðalvél fékk ég svo 17″ skjá (allt frá Targa). Skjárinn hefur dugað mér síðan þá (þetta var á seinni hluta 20. aldarinnar). Tók reyndar upp á því einn daginn að slá út á Kambsveginum þegar kveikt var á honum en það tókst að redda því með að tengja skjáinn við vél sem tengdi svo í rafmagn.

Nú í dag tók skjárinn aftur upp á þessu, eftir ársdvöl hér að Betrabóli þar sem hann hefur verið voða þægur eftir að við létum setja stærri öryggi í rafmagnstöfluna. Núna slær hann út hvað eftir annað og að þessu sinni er ekki sá möguleiki fyrir hendi að tengja hann í gegnum tölvu.

Spurt er: getur verið að öryggi hafi klikkað í sjálfum skjánum og ætli það sé hægt/ódýrt að skipta um það?

Náði mér í ókeypis Office-pakka í dag, ekki var það nú Microsoft Office heldur Open Office. Þetta er þá þriðji Office pakkinn sem ég hef sett upp, auk ofantalinna er ég með Office pakka frá 602 Software. Allir virðast pakkarnir hafa plúsa og mínusa. Hvað verð varðar þá er Open Office ókeypis, 602 PC Suite er ókeypis/ódýrt og MS Office er rándýrt. Hægt er að ná í Open Office hér innanlands til að spara utanlandsniðurhalið (íslenska er nálægt þýsku í að búa til löng orð).

Ég hefði reyndar ekkert á móti því að eiga eins og eina eða tvær af þessum 1.100 Apple G5 vélum sem mynda saman fyrstu ofurtölvuna úr Macintosh vélum.

Frá Nígeríu koma svo góð tíðindi, Appeal Court Saves Woman From Stoning to Death.