Uncategorized

Hoppað ofan í hestaskít

Sigurrós fór í skötuveislu hjá stórfjölskyldunni sinni rétt eins og síðustu ár. Sjálfur læt ég ekki sjá mig nálægt svona viðbjóði, ég skal fara að gúddera að skötulyktin sé sniðug daginn sem það verður talið voða fínt og flott að rúlla sér upp úr hestaflór í sparifötunum klukkan 17 á aðfangadegi svo allir lykti frábærlega þegar sest er við matinn klukkan 18.

Uncategorized

Klámfengin sölukona, Nedved!

Kláraði í nótt að lesa Redemption Ark eftir Alastair Reynolds. Mikil hnullungur eins og fyrri bækur hans. Söguþráðurinn er áhugaverður en höfundurinn er stjörnufræðingur og því vanur stórum tímaeiningum, það pirrar mig aftur á móti þegar áratugir líða í sögunni í einni setningu. Þetta er alveg hellings tími!

Í Texas þá hafa fíknó víst það lítið að gera að þeir blekkja sölumenn til að selja sér titrara og kæra svo fyrir ósiðlega hegðun. Land hinna frjálsu hahahahahaha.

Minn maður, Pavel Nedved, er knattspyrnumaður Evrópu!

Uncategorized

Umturningar

Gisti á Selfossi í nótt og fékk fína máltíð hjá tengdó í gær. Skonsur í morgunmat voru ekki heldur vondur díll.

Í dag höfum við verið að laga til hérna heima og af því tilefni skaust ég í IKEA og fékk mér tvær Billy upphækkanir, þær virka nú sem bókahilla á skrifborðinu mínu, efnileg lausn á hvimleiðu vandamáli.

Uncategorized

Umsnúinn

Sigurrós var hjá mömmu sinni í nótt og ég greip tækifærið og umturnaði rúminu okkar þannig að það er nú 90° á fyrri stefnu. Ég svaf eins og engill og snúsaði í 3 tíma í morgun, alveg fram til hádegis. Hvort það er umturningum eða einfaldri þreytu að kenna veit ég ekki. Sigurrós verður svo auðvitað að gefa sitt samþykki svo þetta fái að snúa svona. Yfirleitt er það nú þannig að það hafa verið konurnar (mamma, tengdó og konan) sem hafa fært húsgögn til og frá en þarna greip ég tækifærið fyrst ég var einn mín liðs.

Ameríka er svo óhuggulega dugleg að stimpla sig inn á stríðsglæpalista heimsins, engin réttarhöld, engin mannréttindi virt. Rapp-tónlist og svefnleysi hljómar ekki svo svakalega en ég er nokkuð viss um að það er algjört helvíti ef maður lendir í því. Það hefur verið nógu svakalegt að vaka 40 tíma þegar maður hefur lent í því.

Uncategorized

Boltaspeki

Fjölskylduhagir virðast hafa áhrif á það hvaða stöðu krakkar leika í knattspyrnu. Einbirni eru víst oft markmenn á meðan að sóknarmenn koma úr mannmörgum systkynahópum. Sjálfur er ég elstur fjögurra bræðra og alltaf verið “sweeper”.

Svo virðist sem að knattspyrna er holl fyrir hjartað svo lengi sem liðið þitt vinnur. Að horfa á liðið tapa hefur hins vegar þveröfug áhrif.

PETA eru svo að fara í gang með viðurstyggilega herferð í Ameríku þar sem þau ætla að herja á börnin og segja þeim að mæður þeirra séu dýramorðingjar af því að þær ganga í pelsum. Loka svona siðblindingja inni, efast um að jafnvel Peter Singer gúteri svona.

Uncategorized

Leikfangahugmyndir

Þar sem ég sit og skrifa á jólakortin sem Sigurrós föndraði þá er ekki úr vegi að benda á börn prufa tæknidót.

Uncategorized

Dead Sea Apple

Skondið, skaust að sækja Sigurrós og þá var að byrja á Rás 2 þáttur um mína gömlu skólafélaga í Dead Sea Apple. Búið að vera gaman að hlusta á þá, tónlistin þeirra ekki í minni deild reyndar en það skiptir litlu.

Þeim sem smíða vefsíður bendi ég svo á HTML Hell Page þar sem talin eru upp þau atriði sem gera vefsíður að algjöru helvíti. Góður tékklisti!

Uncategorized

Gröfukarlar og togaraskipstjórar

Menn og járnskrímsli

Mikið voðalega er það pirrandi þegar netsambandið við útlönd fer að flökta og detta út af því að einhverjir vitleysingar á gröfum eða togurum hirða ekki um að skoða kortin og slíta sundur ljósleiðara eða sæstrengi. Þeir eru merktir á kortum og það er meira að segja bannsvæði í kringum sæstrengina. Ég vil fá að sjá háar sektir fyrir svona grundvallarmistök sem valda einstaklingum og fyrirtækjum truflunum og oft fjárhagstjóni. Lítið á helvítis kortin!

Bókatíðindi

Kláraði í gærkveldi Night Watch, enn eina snilldina frá meistara Pratchett.

Vírað

Wired greinir okkur frá enn einni “snilldinni”, byssu sem skýtur fyrir horn. Einmitt það sem heiminn vantaði.

University of Maine er búinn að búa til hugmyndalaug þar sem nemendur geta sett alls konar sköpunarverk sín og aðrir notið góðs af og þróað áfram. Þetta er fín hugmynd, að reyna að nýta sameiginlegan sköpunarkraft og fá nemendur til að finnast þetta ósköp eðlilegt.

Einkalíf

Við skötuhjúin skelltum okkur í jólaklippinguna í dag og röltum svo 4 metra yfir á American Style þar sem við fengum okkur rétt 28 (glóðaðar kjúklingabringur með ost, beikoni og BBQ-sósu). Ljúffengt.

Uncategorized

Þraukarinn

Ansans vesen, við Sigurrós föttuðum ekki að Survivor var á föstudaginn og misstum því af Burton að tryllast yfir því að hafa verið kosinn út.

Náðum hins vegar lokaþættinum nú í kvöld, úrslitin fóru á skársta veg fyrst að Rupert og Darrah voru bæði dottin út. Lill er einhver leiðinlegasta manneskja sem hefur sést í þessum þáttum, ég var alveg klár á því að hún tapaði þessu stórt, sama á móti hverjum hún lenti. Jon hefði nefnilega örugglega fengið atkvæði fyrir það hversu suddalega hann lék leikinn, hann má eiga það að plottið hans virkaði… næstum því.

Sjálfur hef ég nú þraukað enn eina önnina og fékk síðustu einkunnina (9!)í dag. Fluttum fyrirlestur í dag og þar með lauk þátttöku okkar á námskeiðinu Notendamiðuð hugbúnaðargerð. Einkunnin úr því er á skalanum Staðist/Fallinn og ég stóóórefast um að ég eða minn hópur verði felldur.

Uncategorized

Eplabaka

Það er fjör hjá fréttamönnum, Keikó loks dauður og búið að ná Saddam. Mig grunar að í Ameríkunni muni enginn hvað skammstöfunin WMD þýði, fyrst að búið sé að ná Saddam sé bara allt í blóma í Írak.

Að skemmtilegri málum, svo virðist sem að búið sé að finna bestu eplategundina til notkunar í matseld og bakstur. Fæst víst ekki á Íslandi eftir því sem ég best veit.