Einkaleyfi eru orðinn algjör brandari í Ameríku en það versta er að þau gefa vitleysingum leyfi til að lögsækja fólk sem er að gera flotta hluti. Eitt ruglaðasta dæmið (veit þó ekki hvort einhverjar lögsóknir hafi farið í gang vegna þessa) er einkaleyfi númer 5.443.036 í Ameríku sem er fyrir æfingaaðferð fyrir ketti sem felst í því að láta ljósdepil hreyfast um og köttinn elta hann.
Horfði í morgun (nýt frís frá vinnu og skóla nokkra daga enn) á lokamyndina í Matrixseríunni, Revolutions. Þetta er óskaplega bragðdauft og óáhugavert dæmi, fyrsta myndin var nokkuð áhugaverð og með byltingarkenndum atriðum en sagan var ekkert að hrífa mig þá og er langt frá því að ná mér eftir að hafa séð allar þrjár núna.
Að mynd lokinni skipti ég yfir á PoppTíví til að sjá hvað væri í gangi þar, sá þar þá í fyrsta (og vonandi eina) sinn myndbandið með stelpunum í Nylon, voða eitthvað andlaust og þær virtust allar eins greyin. Sá mynd af þeim að skrifa undir samning í Mogganum um daginn og við hliðin á fullorðnum karlmanni litu þær út eins og 12 ára smástelpur. Það er víst markhópurinn skilst mér, vona að þeim gangi vel án þess að ég þurfi að heyra að sjá þær.
Á eftir Nylon fylgdi svo myndband með Britney Spears þar sem hún var í baði, heyrði talsvert rætt um myndbandið þar sem sumir vilja meina að hún sé að fegra sjálfsmorð. Mér fannst hins vegar merkilegra að hún telur nærbuxur og náttkjól nægjanlegan fatnað til ferðalaga?
Annasamur dagur og festi meðal annars kaup á líklega einu dýrasta inniskópari sem vitað er um. Innleggin kosta alveg tvöfalt meira en skórnir sjálfir, sem eru þó ekki ódýrir.