Óskar fagnaði því fyrir nokkrum dögum að hafa fengið 10 í ansi strembnum áfanga sem var meðal annars fjallað um í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum. (Fyrir áhugasama bera að geta þess að Smalinn sem nefndur er á heimasíðu hans er hluti verkefnisins sem hlaut 10).
Drengurinn er að fara að gifta sig eftir viku og af því tilefni var hann steggjaður í dag. Klukkan þrjú hittumst við nokkrir vinir hans ekki langt frá heimili hans, læddumst því næst að og fengum ókunnugt fólk til að hleypa okkur inn svo við gætum bankað beint á dyrnar.
Inn réðumst við á drenginn sem var orðinn vonlítill um að eitthvað yrði af steggjun enda komið á síðasta séns. Honum var troðið í kvenmannskjól, málaður og upphófst nú 2 tíma törn þar sem hann fór vítt og breitt um svona uppstrílaður og afgreiddi meðal annars bensín, arkaði í gegnum Smáralindina og valhoppaði svo til baka.
Óborganlegt að fylgjast með fólki í kring, bæði utandyra og innan. Fólk snéri sig nær úr hálslið við að fylgjast með og margir reyndu (hvers vegna?) að bæla hláturinn með lélegum árangri. Óskar tók þessu öllu af einstöku jafnaðargeði og hlýddi hverju því sem honum var sagt.
Við fórum svo í Sporthúsið þar sem við slöppuðum af í heita pottinum áður en haldið var niður í bæ þar sem við komum okkur fyrir í heimahúsi við Laugarveginn.
Þar voru framreiddar dýrindis veitingar, tvö lambalæri, annað grillað og hitt ofnbakað, með þessu voru svo sveppir fylltir með gráðosti, grillaðir tómatar og fleira góðgæti. Ég var nógu forsjáll að grípa rauðvín með mér og Óskar fékk að njóta góðs af því. Við klikkuðum held ég gjörsamlega á því að taka mynd af veisluborðinu en glæsilegt var það.
Kvöldið leið þarna í mestu makindum í góða veðrinu áður en við héldum niður í miðbæ klukkan tvö. Eftir rölt á nokkra skemmtistaði (sem ég reifa ekki frekar hér…) enduðum við svo húsnæðislausir þegar öllu var lokað klukkan þrjú vegna hvítasunnunnar. Af sama tilefni voru leigubílar með hæsta gjaldtaxta í gangi eins og ég komst að nokkru síðar.
Við litum við í eftirpartý á Hringbrautinni en héldum svo heim á leið rúmlega fjögur. Óskar gat ekki séð lengur í fókus og ég ákvað því að passa upp á að hann kæmist nú örugglega til sinnar fögru frúar áður en ég hélt heim á leið til minnar.
Klukkan er orðin sex og tími til að fara að sofa undir rísandi sól.