Það var frekar lágt á öllum risið þegar skriðið var framúr klukkan hálf-fjögur í morgun.
Við mættum tímanlega í nýja rýmið í Leifsstöð þar sem Hollendingarnir okkar skráðu sig inn. Við tók kveðjustund, mikill söknuður að þessu skemmtilega fólki.
Þegar þau voru í biðröð í að komast í öryggishliðið bað Sigurrós þau um að stilla sér upp fyrir eina lokamynd. Þetta tók smá tíma og á meðan fór einhver öryggisvörður að hrópa “Halló! Halló!” og héldum við að hann væri óþolinmóður að fá næsta aðila í gegnum tékkið.
En nei, þegar Sigurrós var búin að taka myndina kom hann askvaðandi, kastaði ekki á okkur kveðju en sagði með þjósti “opnaðu vélina!” “það er bannað að taka myndir hér”. Ef um hefði verið að ræða venjulega filmuvél hefði hann væntanlega rifið filmuna úr eða að minnsta kosti skemmt hana með ljósi. Þetta hefði getað eytt FRÁBÆRUM myndum úr ferð þar sem þau trúlofuðu sig og urðu líklega ástfangin af Íslandi. Ómetanlegar minningar sem öryggisvörðurinn hikaði ekki við að eyða.
Sem betur fer var þetta stafræn myndavél (ekki að hann hafi vitað hvað það var sýndist okkur) og þegar Sigurrós sýndi honum að hún hefði eytt myndinni hélt hann á brott án þess að yrða meir á okkur.
Þjóstið sem hann sýndi í þessum samskiptum hleypti hrikalega illu blóði í okkur enda ekki vön svona fasískum samskiptum við aðra Íslendinga. Jolanda sagði að hún hefði verið hrædd um að hann hefði ætlað að berja Sigurrós, svo vel virkaði hann á viðstadda.
Hefði verið um filmuvél að ræða efa ég ekki að allt hefði orðið brjálað þarna því að það er ekki séns að ég láti svona óþokka eyðileggja ómetanlegar minningar án baráttu.
Myndin sem Sigurrós tók sýndi ekkert nema Jeroen, Jolöndu og fyrir ofan þau skilti sem á stóð Öryggisskoðun (minnir mig… við erum ekki með mynd þannig að ekki man ég hvað stóð á því). Enginn tækjabúnaður, starfsmenn né andlit annara farþega sáust á myndinni og því óskiljanlegt með öllu að eyða þyrfti myndinni. Ég sé ekki neina ástæðu fyrir því að bannað sé að taka svona myndir, þegar þetta var afstaðið sáum við glitta í skilti á vegg þarna bak við farþega þar sem myndavél var innan í bannhring. Ef við hefðum tekið eftir þessu áður hefði þetta líklega ekki gerst.
En þetta gerðist og varpaði skugga á heimför vina okkar og gerði okkur bálvond. Ég hef sent þeim fyrirspurn um þetta og bíð spenntur eftir svari sem útskýrir af hverju mér leið eins og ég væri staddur í þriðja heims bananalýðveldi í Leifsstöð.
Ekki besta afmælisgjöfin sem Sigurrós hefði geta óskað sér, að kveðja góða vini og fá skömm í hattinn frá dónalegum öryggisverði.
Talandi um fasíska stjórnarhætti, í Ameríku hefur nú tekist að henda burtu fáránlegu verkefni sem átti að geyma allar upplýsingar um alla flugfarþega án þess einu sinni að tryggja öryggi þeirra. Peningurinn sem fór í þetta verkefni hefði án efa getað gert meira gagn í hjálparstarfi og þar unnið gegn hryðjuverkum.
Bjarti punkturinn í dag var sá að við seldum gamla hjónarúmið.