Uncategorized

Risíbúð

Sigurrós og mamma hennar fóru fyrr í dag og skoðuðu risíbúð nálægt Kennó. Í kvöld fóru þær svo aftur, núna með mér og smiðnum Einari frænda (Sigurrósar), til að meta þetta.

Íbúðin er nokkuð skemmtileg, mikið er undir súð en stofan er góð sem og herbergin. Mér leist vel á þetta og við erum spennt fyrir þessu. Við fáum ekki greiðslumatið fyrr en á mánudag og getum því ekki gert tilboð strax. Að auki þá munar 4 milljónum á brunabótamati og því sem sett er á hana, sem að er svolítið stór hjalli hvað húsbréf og lífeyrissjóðslán varðar.

Ég er ekki menntaður í hagfræðinni en mér finnst ansi undarlegt að til þess að eignast íbúð þá þurfi ég að framvísa veðrétti í annari íbúð.

Spennandi eign sem að gaman gæti verið að eignast (og þess vegna er ég ekki að kjafta frá hvar hún er :p ).

Uncategorized

Umsókn um greiðslumat

Fór í dag og sótti um greiðslumat í bankanum fyrir okkur hjónakornin. Fórum á Aktu Taktu í hádeginu þar sem að það var ólíft heima við vegna viðgerða, maturinn olli miklum vonbrigðum, hamborgarinn því sem næst óætur, og franskarnir ekki eins góðar og áður. Það verður langt þangað til við förum þangað aftur. Var mjög tæpt síðast, og þessi séns sem að þeir fengu fór í ruslið.

Á leiðinni í bankann gaf millihluti pústsins sig endanlega, því fór dágóður tími eftir hádegi í það að redda nýju stykki og svo koma því undir. Pabbi veitti sem oftar mikla hjálp í þessu stússi.

Ég sé að félagi minn í sameiginlegum, nær vonlausum málstað okkar er að draga sig út úr sviðsljósinu (sem að virðist leita hann uppi), hann er að fara að loka síðunni sinni segir hann.

Uncategorized

Rokrassgat

Fór klukkan átta í morgun á Skagann, frekar hvasst og mikill skafrenningur á leiðinni. Kenndi svo þar til rúmlega þrjú en hélt þá aftur í bæinn. Nú var orðið enn hvassara, og Yarisinn (bíll sem að var í miklu uppáhaldi hjá mér) var farinn að dilla rassi (hann er of léttur og of hár, tekur of mikinn vind á sig, ekki heppilegur hér á landi), hvergi meira en á Kjalarnesi þar sem að vindurinn lamdi hann til og frá á veginum. Fór framhjá einum tengivagni sem að lá út á hlið við veginn, líklega verið tómur og þetta rokrassgat lætur ekki bjóða sér slíkt tvisvar.

Skoðuðum í fyrsta sinn íbúð saman í dag, húsnæðisleitin er að hefjast.

Kláraði flutningana á Garrincha, lítið mál að skipta IP-tölum yfir og láta breytingarnar taka gildi eftir allan undirbúninginn.

Einn af uppáhaldsleikmönnum mínum, Roberto di Matteo, hefur nú neyðst til að hætta vegna hrikalegra meiðsla. Synd og skömm.

Uncategorized

Sjónvarpsþáttur æðri mannslífi?

Á flakki mínu rakst ég á þessa síðu þar sem að kemur fram að kvöldið sem að kosningin um sigurvegarann í fyrsta Survivor fór fram þá voru malasískir málaliðar sem að umkringdu staðinn, “Every man carries an automatic weapon”. Þessi viðbúnaður var til þess að enginn gæti laumað sér að svæðinu til þess að sjá hver var kosinn sigurvegari. Spurningin er hvort að “shoot to kill” hafi verið dagskipunin?

Í dag er annars búið að vera illþolandi við á #niceland og einstaka vefleiðarar öpuðu meira að segja eftir vonda manni dagsins, sem að heitir Tolli. Venjulega hinn vænsti drengur, í dag fékk hann alvarlegt andlegt áfall og tók þó nokkra aðra með sér í þá djúpu gjá. Í dag var hástafadagur hjá honum og meðþolendum hans. Mér var eigi skemmt.

Yfirfærslan á Garrincha tefst í einn dag í viðbót vegna anna við vinnu.

Uncategorized

Garrincha

Garrincha er nú kominn í gang (en það er nýja nafnið á vefþjóninum mínum), sem áður var það Egill sem að flýtti fyrir öllu, ég er núna að fikta mig áfram með Postgre-uppsetninguna, og á morgun flyt ég öll lénin aftur yfir, á þessa líka mun hraðvirkari vél en grey varaþjónninn er.

Uncategorized

Rauðhöttur snýr aftur

Í dag gafst ég upp á því að setja vefþjóninn í gang með Debian. Að setja allt upp var í sjálfu sér ekkert vandamál, en RAID-ið komst aldrei í gang. Egill skutlaði Red Hat 7.2 diskum til mín og á 10 mínútum eða svo var ég búinn að setja upp stýrikerfi með RAID-1 stuðningi, og það í mjög notendavænu umhverfi. Red Hat install er einfaldara en Windows svei mér þá.

Í kvöld skruppum við Sigurrós í innflutningspartý hjá Gumma og frú. Flott 126 fermetra íbúð í Ásahverfinu í Hafnarfirði með svaka útsýni, verst að það er eiginlega uppá heiði :p . Sigurrós var með hálsbólgu og ég nenni ekki að djamma á veturna (snjór og kuldi fara ekki vel saman með áfengi) þannig að við fórum rétt fyrir miðnætti.

Ekkert miðar í baráttunni gegn reykingum, ég held að hérna segi fyrirsögnin allt sem segja þarf. Ef að þetta er titlað barátta gegn reykingum, þá er auðvitað borin von að hún vinnist, því að ef það er eitthvað sem að er ungu fólki að skapi þá er það uppreisn og barátta. Þetta ætti frekar að vera svona “ég er ekki vitlaus” herferð eða eitthvað álíka sem að sýnir bara fram á það hversu hrikalega heimskulegar reykingar eru (“ógeðs”auglýsingarnar eru skref í þá átt). Svo lengi sem orðin barátta, stríð og herferð eru ekki notuð þá á er von til þess að eitthvað gangi.

Uncategorized

Swordfish

Tókum Swordfish á DVD í kvöld og hvílík ógnarinnar skelfing er sú ræma. Eftir að hafa sýnt aðdáunarverða þolinmæði gáfumst við upp og flettum á lokaatriðin, suddalega vond mynd, sem að fær þumla og stórutær niður.

Áhugavert:

  • Pump up your laptop
  • Enga smokka takk, segja greddu… uhh.. kreddukallar
  • Uncategorized

    Miðannarpróf og WinXP

    Fór í miðannarprófin, var inni í 20 mínútur í Gluggakerfum 1 og held að það hafi gengið bærilega, prófið í Stýrikerfum 1 var undarlega orðað, hef ekki hugmynd hvort ég svaraði því sem spurt var um.

    Eftir prófin skrapp ég á skrifstofuna og fékk WinXP, sem ég er búinn að setja upp í dag, nokkrum sinnum (fiktandi við ýmsar stillingar og drivera-samsetningar, sem sumar hverjar fóru illa).

    Vandamálið með bendilinn(caret) sem hverfur í sumum forritum er ekki að leysast, ég skil ekki hvað er í gangi, kannski einhver sniðugur notendafítus sem að MS bætti við.

    WinXP lítur sæmilega út, það er mikill minnishákur en ég sé hvert MS er að stefna með þessu, og það er sæmileg þróun hvað góð notendaskil varðar. Margt slæmt sem að MS gerir, en margt áhugavert líka sem að færir okkur nær samfélagi þar sem talvan er jafn auðveld í notkun og síminn.

    P.S. Ég á ennþá eftir að hamra það ofan í íslenska málnefnd að talva er jafnrétthátt og tölva (völva… ég bara spyr…).

    Uncategorized

    Próflestur… takmarkaður

    Ætlaði að lesa undir miðannarprófin sem eru á morgun, en gekk illa að koma mér að því, renndi yfir einhverjar glósur en þess utan gerði fátt af viti.

    Minnir að Dune-bókin sem ég las (sjá færslu gærdagsins) hafi verið House of Harkonnen. Annar hluti seríunnar í kvöld, líst vel á þetta.
    Áhugavert:

  • Warming world ‘means longer days’
  • Olympic First: Father and Son Go Luge to Luge
  • Uncategorized

    Dune

    Fyrsti hluti af þremur í sjónvarpsseríunni sem gerð er eftir Dune-sagnabálknum var að enda á RÚV (langt síðan ég hef horft á eitthvað yfir höfuð á RÚV, og þó er nauðungaráskrift að henni). Virðast mjög vandaðir þættir í flesta staði. Hef lesið 2 bækur úr Dune-heiminum, það var fyrir tíma dagbókarinnar þannig að ég get ekki grafið upp nöfnin á þeim, en þær voru ágætis lesning minnir mig.

    Mike benti mér á áhugaverða frétt um nýjan knattspyrnuvöll í München, sem mun heita Allianz Arena og verða heimavöllur Bayern og TSV 1860. Mjög svo óvenjulegur völlur, þýskir gárungar hafa þegar uppnefnt hann björgunarvestið eða björgunarbátinn.