Með þrjár í takinu

Dagurinn fór í það að standsetja tölvuna sem ég keypti um daginn, færa af tölvu 2 sem að tengdó notaðir yfir á þessa nýju (tölvu 1), og að færa af tölvu 3 yfir á tölvu 2. Talva 3 (þessir snillingar sem fundu út að talva ætti að beygjast eins og völva en ekki tala ættu að finna sér eitthvað annað að gera) átti við smávegis vandamál að stríða með módemið, ef það var í gangi þá kom General Protection Fault.

Það voru því 4 turnar (gamli turninn minn að auki) og 2 fartölvur í þessu litla vinnuherbergi okkar í dag, og ekki hægt að þverfóta fyrir opnum kössum, málmplötum og skrúfum. Held að ég sé svipaður í tölvuuppfærslufikti og aðrir sem eru í bílafikti… ég skal redda tölvunum þeirra ef þeir redda bílnum mínum 🙂

Talandi um bíla, það var víst svaka stormur í nótt, og þegar ég kom út í morgun var eins og að búið væri að mála bílinn minn hvítan, þykkt lag af salti/tjöru/sandi og hver-veit-hvað sem að lá yfir öllu.

Comments are closed.