Þrengslin

Skrapp í morgun og fékk vetrardekkin undir bílinn. Þau eru þau sömu og í fyrra og eru nagladekk. Mér leið hálfkjánalega að keyra á malbikinu með naglana tætandi það, en það átti eftir að koma í ljós að naglarnir stóðu sig þegar á reyndi. Reyndar vorkenni ég þeim sem eiga að viðhalda götunum frekar lítið, enda margbúið að sanna það að steypa endist betur og mengi minna heldur en blessað malbikið. Sjá má þetta erlendis þar sem að einungis allra mestu sveitavegir eru malbikaðir. En við verðum að vera svo miklir afturhaldssinnar að við höldum okkur við handónýtt yfirlag á helstu umferðaræðum okkar.

Upp úr hádegi héldum við Sigurrós af stað austur, nánar tiltekið á Selfoss í heimsókn til systur hennar. Það var allt autt hérna í Laugarnesinu, en um leið og við komum upp Ártúnsbrekkuna var allt orðið hvítt. Fyrir utan Reykjavík var sömuleiðis allt hvítt svo langt sem augað eygði. Við fórum Þrengslin, held að það sé fyrsta skiptið sem ég hef farið þau. Það gekk bara ágætlega og ekki þungfært. Hins vegar er langt síðan að ég sá svona mikið hvítt, himinn og jörð alvhvít og lá við snjóblindu. Þegar við komum svo niður úr Þrengslunum er allt autt þeim megin, og gulur litur grassins yfirgnæfandi í landslaginu. Við fórum fram hjá Stokkseyri og Eyrarbakka, fyrsta sinn sem ég fer þar held ég alveg örugglega. Í fjarska sáum við hins vegar óveðurstungu teygja sig niður að Selfossi.

Á Selfossi fór svo að snjóa á meðan að við dvöldum þar, þegar við lögðum af stað heim rúmlega fimm var tæplega 5 cm snjólag á bílnum. Það var orðið kolniðadimmt og við héldum núna í átt að Hveragerði, þegar þangað var komið sýndist okkur mikið óveður geysa á heiðinni þannig að við tókum vinstri beygjuna í átt að Þrengslunum. Við höfðum ekki farið nema nokkra metra af alhvítum þjóðvegi 1 þegar að þjóðvegur 38 var orðin alauður og gult grasið orðið aftur allsráðandi. Mér fannst þetta frekar spes, nokkrir metrar á milli vetrarríkis og haustríkis.

Þegar við komum svo upp Þrengslin var snjórinn ráðandi þar eins og búast mátti við. Munurinn núna var sá hins vegar að allt var kolsvart þar sem áður hafði verið alhvítt, skemmtilegur litaleikur náttúrunnar.

Þarna kom sér vel að vera komin á vetrardekkinn, og í bænum var greinilega komin hálka þegar heim var komið þannig að manni leið ekki eins og villimanni á nöglunum, heldur eins og manni sem að skipti um á hárréttu augnabliki.

Áhugavert lesefni:

  • America’s identity crisis
  • Comments are closed.