• Uncategorized

Höfundarréttur og fótboltaleikjaekkjur

Grátbroslegt í umræðu um höfundarrétt þegar fram kemur sú röksemdafærsla að “enginn skapar neitt ef hann græðir ekki á því”. Sumsé þá var ekkert skapað af mannkyninu fyrr en Adam Smith kom með sína frómu bók eða fyrr en fyrstu höfundarréttarlögin voru sett?

Var ekki van Gogh bláfátækur alla sína tíð eins og fleiri listamenn sem eru í miklum metum? Ekki var hann málari til að græða á því. Sama má segja um tugþúsundir listamanna og grúskara, þeir hafa stuðlað að sinni list eða iðn af áhuga einum saman. Það eru Britney Spears og skyldir listamenn sem “skapa” til að græða, og þar er leiðum að líkjast, ég er nokkuð viss að þannig listamenn verða ekki langlífir í minningu mannkynsins. Að mínu mati hef ég ekki enn séð listamann sem býr eitthvað til peninganna vegna sem jafnast á við listamann sem býr eitthvað til af því að hann vill og þarf þess.

Á Mön eru menn með skemmtilegan tölvubíl, samanber bókabíl. Bíllinn fer milli grunnskólana og er færanleg tölvustofa í rauninni, þeir nota 3G kerfið til að tengjast netinu og það virðist svínvirka fyrir þá hvað hraðann varðar. Tölvurnar eru svo PowerBook tölvur frá Apple þannig að börnin eru ekki ofurseld Microsoft frá upphafi.

Til að geta notað Windows skammlaust þarf maður í sífellu að vera að uppfæra það því að það er stútfullt af villum og öryggisholum. Til þess er notuð Windows-græja sem athugar hvaða Microsoft hugbúnað þú ert með og hvaða útgáfur og tékkar á hvort að uppfærslur séu til fyrir það. Nú er búið að komast að því að þessi græja sendir líka upplýsingar um hvaða önnur forrit eru uppsett á tölvunni, bara svona af því bara. Ég vil ekkert að eitthvað fyrirtæki út í heimi viti að ég noti Eudoru, SSH, Zend Studio og hvað þetta allt er. Það kemur því andskotann ekkert við! MacOS X og Linux líta alltaf betur og betur út.

Sjálfur nota ég nú eingöngu Mozilla við vefráp mitt, Internet Explorer búinn að pirra mig endanlega og að auki vantar á mig þumalputta ef ég er ekki með flipa við vafrið (Mozilla býður upp á flipa… jæja… þið sjáið það ef þið prófið hann).

Skoplesning dagsins er úttekt Prövdu á ástarlífi Skandinava.

Í kvöld og þessa helgi eru svo vafalaust nokkrar fótboltaleikjaekkjur þarna úti, margir karlmennirnir sokknir ofan í nýja CM4 demóið sem kom út í dag. Ofanritaður gengst við því að hafa eitthvað kíkt á þetta sjálfur.

You may also like...