Fallinn!

Það hlaut að koma að því, ég hef ekki fallið í fagi síðan 1995 þegar ég féll í lögfræði. Það fall setti stúdentsprófið í hættu, varð að ná endurtektinni eða útskrifast ella ekki fyrr en námskeiðið væri endurtekið ári síðar.

Ég og Björn Þór (hann hafði ekki náð að mæta í prófið sökum árekstra við annað próf) settumst því niður og í þrjá daga sökktum við okkur ofan í kennslubækurnar 18 tíma á dag. Hef aldrei fyrr né síðar tekið þvílíka lærdómstörn og það bar árangur, fékk 9 í endurtektinni og stúdentshúfan því upp á réttum tíma.

Nú í dag fékk ég sumsé fréttir af því að hafa fallið í Java-kúrsi annarinnar. Mér gekk afar illa á prófinu þannig að það mátti búast við þessu. Að afloknum lestri jólabókanna verður því rauði hnullungirnn (bókin sem prófað er úr) dreginn fram og lesinn fram yfir áramót (endurtektarprófið er fyrstu vikuna í janúar).

Það eru fleiri sem að eru óvanir snjóleysi á þessum tíma árs, Winnipeg sem er þekkt fyrir mikinn kulda og snjó á veturna hefur nú orðið að fresta snjókarlaátaki sökum snjóleysis. Eru þetta gróðurhúsaáhrifin eða er bara reglubundið hlýindaskeið á næsta leiti?

Gildi jólanna hjá nútímamanninum er æ meira að snúast um hvíldina sem þessir frídagar gefa og tækifærið til að hitta vini og ættingja við notalegar aðstæður. Jólagjafir eru að missa vægi sitt sem betur fer, vafalaust þó efst á lista yngstu kynslóðarinnar. Hraðinn og lætin í nútímalífi geta varla haldið áfram með sama offorsi, held að stór hluti minnar kynslóðar sé farinn að meta líf sitt meira en peningatöluna á launamiðanum og stærð jeppans.

Talandi um hraða, hraði netsins kemur nú bágstöddum til hjálpar og lagar skattaskýrslur fyrirtækja með nýju veftóli sem að kemur umframmat á rétta staði. Gott framtak.

Comments are closed.