Jólahlaðborð

Á mig rann æði í gær þegar ég fór að versla í matinn og ég festi kaup á “Ben and Jerry’s Chocolate Fudge Brownie” ís. 800 krónur fyrir pínulítið box. Það varð reyndar drýgra en ég bjóst við þar sem þetta var einum of mikið súkkulaði í þessu fyrir mig, fékk mér bara tvær litlar skálar.

Fórum í kvöld á jólahlaðborð Hugvits. Það var haldið á Hótel Valhöll á Þingvöllum.

Þetta hlaðborð fær falleinkunn, það á reyndar við ramman reip að draga sem er hlaðborð í Perlunni í fyrra en tekst þó að fella sig sjálft. Þegar komið var á staðinn vantaði herðatré í litla fatahengið. Þjappað var á borðin þannig að við sátum eins og sardínur í dós og maður þurfti að beita áður óreyndum vöðvum í að skera matinn og pota honum í munn sér. Þrengslin þvílík og svo ætlaði hitinn að drepa mig. Sessunautar mínir spurðu mig meira að segja hvort ég væri að deyja úr hita þar sem það sást greiðlega á mér að svo var. Síldarþjöppun, ofboðslegur hiti og raki, þokkalegur matur, vondir eftirréttir og la-la rauðvín.

Þegar skemmtiatriðin hófust svo (ein söngkona og maður á hljómborði) var mér öllum lokið. Sem betur fer þurftum við ekki að bíða eftir rútunni sem fer ekki fyrr en um eittleytið í nótt, þau Arnar, Konni og Fjóla komu á einkabíl og skutluðu okkur heim og björguðu þar með verulegum hluta geðheilsu minnar (sem að er mjög viðkvæm fyrir miklum hita, sígarrettureyk og vondri tónlist).

Sjá einnig færslu Sigurrósar um þetta kvöld.

Comments are closed.