Gott að vera kóngur

Á meðan að slökkviliðið er að fá stóran plús fyrir góð vinnubrögð og almennilegheit við fórnarlömb brunans á Laugarvegi þá hætta ekki að streyma inn sögur af óvönduðum vinnubrögðum lögreglunnar, í Fréttablaðinu greinir einn íbúi Laugavegs 40 frá því að löggurnar hafi hnussað og sagt að heim færi hann ekkert án þess að greina frekar af hverju, og að þeir hafi litla hjálp veitt. Björn Arnar greinir frá reynslu systur sinnar sem að lögreglan sakaði um að hafa sent sprengjuhótun af því að hún var á því staðarneti sem hótunin kom frá. Ég held svei mér þá að maður fari að halda lista yfir allan yfirganginn og aulaskapinn sem margir íslenskir lögreglumenn virðast sýna, þýðir reyndar örugglega lítið að sýna hann Sollu blindu sem er dómsmálaráðherra og heldur að allt sé í himnalagi af því að það er búið að bæta við nokkrum krónum í fjárveitingar.

Lögreglumenn sinna grundvallarstarfi í samfélagi, og ef að þeir geta ekki sinnt því af alúð og vandvirkni er betra að þeir komi ekki nálægt því. Þessi tvö dæmi hér að ofan eru tittlingaskítur, en sýna jafnframt ófagleg vinnubrögð. Tvö orð fylgja svo lögreglunni í ár, Falun Gong, stórfellt dæmi um yfirgang og valdníðslu.

“Það er gott að vera kóngur” hugsar Dabbi örugglega með sér, hann gaf lögreglunni skipanirnar varðandi Falun Gong og er vafalaust ánægður með fólskuverkin sem að þar voru unnin. Fleiri kostir fylgja því að vera kóngur eins og Halli kóngur í Noregi veit vel af. Hann sleppur billega með smáglæpi, hann nýtur konunglegrar friðhelgi. Þetta kom að góðum notum á laugardaginn þegar hann var tekinn fyrir of hraðan akstur. Hann hefur þó örugglega alveg ráð á því að borga 10.000 krónurnar sem sektin nemur en friðhelgin sparar honum þá aura.

Enda á léttari nótunum, búið að taka Malt-auglýsingar úr umferð en ungur maður býður upp á að hlýða á þær á síðu sinni.

Comments are closed.