Kósíkvöld, veffiff og fínerí

Dagurinn í dag farið í ýmiss konar vefmál, til dæmis setti ég loksins á netið þennan litla kassa hér neðarlega til vinstri. 3 litlir kassar innan í einum stærri, með því að smella á þá breytist útlit vefsins. Það er skömm frá því að segja en þetta er búið að liggja á heimavélinni tilbúið til notkunar undanfarið ár og rúmlega það. Lesendur þessarar síðu geta því fengið annað útlit en þetta ef þeir óska þess. Ofurbleika útlitið er líka til en ekki er búið að bæta því við, sumum líst illa á það á meðan að mér finnst það fyndið. Kannski ég verði það mikill galgopi í mér á morgun að ég sleppi því lausu en það er frekar villt.

Kvöldið svo notað til þess að snæða kryddlegið svínakjöt og franskt rauðvín drukkið með, franskættar franskar kartöflur meðlætið með steikunum. Mjög kósí kvöldið hjá okkur.

Annars er ég að velta því fyrir mér að fara að setja amböguvefinn í loftið. Það er ekki hægt að lesa neitt á netinu lengur nema að rífa hár sitt vegna skelfilegra birtingarmynda ýmissa orða og máltækja hjá mörgum sem þar skrifa og þó telst ég seint til íslenskufasista.

Áberandi er röng notkun á “að” og “af”.

Comments are closed.