Beta á Leiti

Í gær kom ég við í Europris á leiðinni heim úr vinnunni. Stutt að fara þar sem nýja verslunin í Skútuvoginum er bara beint á móti vinnustaðnum. Þar setti ég aðeins þrennt í litlu handkörfuna og fór svo og kom mér fyrir í þokkalega stuttri biðröð. Kona á undan mér með stóra hjólakörfu var þar á undan mér í röðinni. Hún fór að líta í kringum sig og sá mig með körfuna og var svo vingjarnleg að bjóða mér að fara fram fyrir sig í röðinni þar sem ég væri með svo lítið. Ég þakkaði afskaplega vel fyrir og færði mig. Það munaði hana engu upp á tímann en mig eitthvað enda hún með talsvert meira. Það er til hugulsamt fólk á þessu landi, það er bara of hugulsamt til þess að rassskella vitleysingana sem ná kjöri og spandera peningunum okkar í fáránlega hluti.

Í dag er ég alveg búinn að fá upp í kok af sumu fólki. Af og til lít ég á hvaða sullumbull Elísabet Ólafsdóttir hefur soðið saman, oft hægt að hlæja með henni. Í gær og í dag er hún hinsvegar búin að vera versta Gróa á Leiti sem ég man eftir að hafa séð á skjá eða pappír. Hún birtir samtöl sem jafnast á við verstu gróusögur, ekki eina og ekki tvær heldur bara runur af þeim og bætir um betur í kommentakerfinu sínu. Tveir menn eru nafngreindir og talað um að þeir séu í eiturlyfjum, áreiti aðra karlmenn og fleira og fleira. Svo til að halda áfram fyrst hún er komin í þennan kjaftagír klykkir hún út með því að greina frá því að einhver maður hafi gengið í allar tölvur fyrirtækis hér í bæ til að kjósa sjálfan sig í einhverri kosningu.

Sjálfum er mér alveg sama hvort að þessir menn sem talað er um eru englar eða níðingar, villuráfandi sauðir eða sjálfsöruggir menn. Mér er nokk sama um hvað þeir gerðu eða eiga að hafa gert. Mér er hins vegar ekki sama um það að manneskja sé að breiða út óhróður um þá á almennum miðli þar sem þeir hafa hvergi verið spurðir sjálfir né geta hönd fyrir höfuð borið.

Það er til heiti yfir svona dæmi sem að Elísabet (Beta rokk eins og margir þekkja hana) stundar, þetta heitir meiðyrði og ber vott um skítlegt eðli þess sem að útvarpar því svona.

Comments are closed.