Rauða hættan

Í dag er 18. þessa mánaðar, sem að ég hefði svo sem ekki velt meira fyrir mér nema hvað að það er einmitt 18. hvers mánaðar sem að tölvuveiran Code Red fer á stjá. Ég var alveg búin að steingleyma kauða reyndar. Ég er umsjónarmaður með einum vefþjóni uppí vinnu sem að gegnir mjög sérstöku hlutverki, og ég fæ póst ef að upp kemur villa á honum, þar með talin 404 villa (ef að síða/skrá finnst ekki). Upp úr hádegi byrjaði að streyma inn póstur með villumeldingum, innihald beiðnanna (server request) voru ýmis tilbrigði við villu sem að er vel þekkt í IIS (vefþjónn sem að Microsoft gerir), þó að fyrir löngu sé hægt að fá uppfærslur sem að varna þessu. Við nánari skoðun kom í ljós að þetta er ný veira, sem að heitir á fræðimálinu w32.Nimda.A en almenningur getur kallað einfaldlega Nimda (sjá hvað Bjarni segir um hann), og er víst algjör óþokki sem að fær ýmislegt lánað frá Code Red, SirCam og þeim bræðrum öllum. Málið er bara það að það er gífurlegur fjöldi sem að pælir aldrei í því að uppfæra hugbúnaðinn sem að er notaður. Einkum ættu þeir sem að nota hugbúnað gerðan af Microsoft að vera duglegir að uppfæra hann, þar sem að þetta risafyrirtæki getur ekki gefið út hugbúnað án þess að hann sé með gapandi öryggisvillum (öll forrit innihalda villur, en Microsoft forrit innihalda STÓRAR villur).

Núna telst mér til að yfir 1700 villumeldingar hafi komið, líklega frá þá um það bil 240 vélum sem að eru sýktar. Á morgun sest ég niður, gref upp eigendur netanna sem að vélarnar eru tengdar við og sendi þeim póst, í þeirri von að þeir hafi samband við rétta aðila sem að lagfæra þá vélarnar.

Samkvæmt þessari frétt varð Morgunblaðið fyrir barðinu á tölvuveiru einmitt í dag. Stórar líkur á því að einhvers staðar hafi þeir haft vél án nýjustu uppfærslna keyrandi, og því fór sem fór.

Áhugaverður tengill:

Comments are closed.