Flugukast og gestir

Byrjuðum morguninn á því að henda einum 20 flugum út. Þær suðuðu í stofuglugganum sem mest þær máttu og okkar fyrsta verk var því að losa okkur við ólátabelgina. Með plastglas í annari og blað í hinni tókum við þær hverja eftir aðra og slepptum út um svaladyrnar. Þá loksins var hægt að setjast niður til morgunverðar.

Greip því næst aðra bók eftir Rankin mér í hönd, þessi hét svo mikið sem Snuff Fiction. Hef alltaf gaman að þessum bókum hans. Þær eru misdjúpar, en oft dýpri en virðist við fyrstu sýn. Svo eru þær fyndnar og það eitt og sér gerir þær skyldulesningu.

Við skruppum í sund upp úr hádegi, laugin á Hellu var köld og vindurinn bætti ekki úr skák. Við héldum okkur því í litlu vaðlauginni í smá tíma. Hádegismaturinn var svo hamborgari á matsölustaðnum við bensínstöðina.

Örn og Regína komust loks í bústaðinn rétt fyrir kvöldmatarleytið. Bara 3 tímum á eftir áætlun sem er með því besta. Þau keyrðu að auki framhjá bústaðnum, enda er hann hógvær mjög og í hvarfi. Ef að þau hefðu ekki farið að undrast svarta auðnina í kringum þau hefðu þau getað endað á hálendinu.

Við Örn komum loks vatnsdælunni í gang, sambandsleysi í tenginum við rafgeyminn var sökudólgurinn.

Eftir kvöldmat á Kanslaranum á Hellu – við Sigurrós fengum okkur þokkalega pizzu en Örn og Regína urðu fyrir miklum vonbrigðum með vonda kjúklinga í sjálfum kjúklingabænum – fórum við svo og spiluðum Trivial Pursuit, sem að við Sigurrós unnum, en naumt var það. Mikið af nammi og snakki var innbyrt.

Svo var talsvert spjallað áður en farið var í háttinn að verða 3.

Comments are closed.